Settur í bann á veitingastað fyrir að mæta ekki

Ljósmynd/Morandi

Þessi frétt er hreinlega of góð til að deila ekki en eins og allir veitingamenn (og fólk í þjónustuiðnaðinum) veit þá er ekkert meira óþolandi en fólk sem mætir ekki í bókaða tíma og lætur ekki vita.

Þetta gerðist á dögunum í New York þegar veitingastaðaeigandi að nafni Keith McNally setti Greydon Carter, stofnanda Air Mail og fyrrum ritstjóra Vanity Fair í bann á veitingastöðum hans.

Forsaga málsins er sú að Carter átti bókað tólf manna borð í hádeginu á veitingastaðnum Morandi. Enginn mætti og það var ekki fyrr en löngu síðar að aðstoðarmaður Carter lét vita.

McNally fékk, að eigin sögn, nóg og í langri færslu á samfélagsmiðlum útskýrði hann nákvæmlega hvað það þýðir þegar fólk afbókar ekki. Tekjur tapast á veitingastaðnum og starfsfólkið missir þjórfé sem er stór hluti launa þeirra. Búið hafi verið að kalla inn auka starfsfólk til að sinna hópnum og svona hegðun sé ólíðandi. Þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Carter – sem hann kallar fína fávitann – hafi ekki mætt þegar hann á bókuð borð og því sé hann formlega bannaður á öllum þrem veitingastöðum McNally.

Carter sendi í kjölfarið frá sér afsökunarbeiðni þar sem hann sagðist jafnframt ætla að bæta starfsfólkinu tekjumissinn með veglegu framlagi í sjóð starfsmanna. Hins vegar hafnar hann ásökunum McNally um að hann stundi þá iðju að mæta ekki. Slíkt sé ekki rétt og stafi af persónulegri gremju hans í garð Carters vegna greinar sem birtist í tímariti hins síðarnefnda.

Meira vitum við ekki, en gott fólk. Það er bannað að bóka og beila!

Ljósmynd/Morandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert