Nýjar og umhverfisvænni umbúðir hjá Bíóbú

Biobú hefur sett vörur sínar í nýjar og umhverfisvænni umbúðir. Er hér um að ræða jógúrt, mjólk og osta. Þá hefur Biobú einnig skipt um vörumerki eins og sést á nýju umbúðunum.

„Öll línan er komin í nýjan og umhverfisvænni búning. Grísk jógúrt og jógúrt með ýmsum bragðtegundum er nú í nýjum umbúðum sem auðvelt er brjóta saman og flokka eftir á. Mjólkin okkar er komin í glærar flöskur svo hægt sé að koma henni í endurvinnslu. Ef flöskunni er skilað hreinni með öðrum dósum og flöskum verður hún endurunnin,“ segir Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Biobú.

Helgi segir fyrirtækið leggja mikla áherslu á náttúruvernd í sinni starfssemi og taki nýjavörumerkið mið af því. „Nýja merkið vekur að okkar mati upp hughrif um einfaldleika og náttúruleg gæði og lífræna framleiðslu án aukaefna.“

Biobú framleiðir mjólkurvörur úr lífrænni mjólk. Mjólkin sem notuð er hjá Biobú kemur frá þremur búum; Búlandi í Austur landeyjum og Neðra Hálsi í Kjós og Skaftholti í Gnúpverjahreppi. Á þessum búum hefur verið stunduð lífræn framleiðsla um árabil.

Helgi segir að framleiðsla á lífrænum mjólkurafurðum fylgi einnig kröfum nútímans gagnvart loftslagi, umhverfi og heilsu jarðvegs. „Engin kemísk áburðarefni né önnur eiturefni eru notuð en þessi efni eru ábyrg fyrir allt að helmingi gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði, auk þess að ógna lífkerfi jarðarinnar á marga vegu. Auknar kröfur um betri aðbúnað og útiveru dýra gerir það að verkum að kýrnar fá aðgengi að beit sumarlangt, en hófleg beit jórturdýra stuðlar að meiri bindingu kolefnis í jarðvegi.“

„Líffræðilegur fjölbreytileiki í jarðveginum er burðarvirkið í sjálfbærri hringrás næringarefna í lífrænni framleiðslu. Í einni matskeið af svona jarðvegi geta fundist fleiri lífverur en telur allan þann mannskap sem nú hýsir jörðina. Þessi sjálfbæra og einfalda hringrás næringarefna stuðlar að betri heilsu jarðvegs og umhverfis, húsdýra og neytenda."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert