Í eigu tveggja fjölskyldna frá 1913

Róbert Óttarsson bakarameistari, fjórði frá vinstri, ásamt starfsfólki sínu í …
Róbert Óttarsson bakarameistari, fjórði frá vinstri, ásamt starfsfólki sínu í bakaríinu mbl.is/Björn Jóhann

„Með litlu hléi er ég búinn að vera í bakaríinu í rúm 30 ár, sem er dágóður kafli af 140 ára gamalli sögu, ég er bara dálítið stoltur af því. Ef við tökum bara ríflega 100 ára sögu þá er ég fjórði eigandinn,“ segir Róbert Óttarsson, bakarameistari á Sauðárkróki, en um þessar mundir eru ríflega 140 ár liðin frá því Sauðárkróksbakarí tók til starfa.

Aðeins tvö bakarí á landinu eru eldri og enn starfandi; Bernhöftsbakarí í Reykjavík og Gamla bakaríið á Ísafirði. Ekkert starfandi fyrirtæki í Skagafirði er eldra en bakaríið, sem hóf starfsemi árið 1880 en níu árum síðar var Kaupfélag Skagfirðinga stofnað.

Gutti með Guðjóni í bakaríinu

Róbert tók við rekstri bakarísins af föður sínum, Óttari Bjarnasyni, og konu hans, Guðrúnu Sölvadóttur. Gengið var frá kaupsamningi 1. september 2006 og fljótlega eftir það fluttu þau Óttar og Guðrún suður. Óttar lést eftir skyndileg veikindi í byrjun árs 2009, aðeins 53 ára að aldri.

Róbert á góðar minningar úr bakaríinu frá bernskuárum sínum, er hann fylgdist með föður sínum að störfum.

„Ég er skilnaðarbarn og bjó á Siglufirði hjá móður minni, Þórdísi Ingimarsdóttur, þegar pabbi keypti bakaríið á Króknum. Ég kom stundum í heimsókn til pabba og man vel eftir Guðjóni bakara frá heimsóknum í bakaríið,“ segir Róbert og rifjar upp að hann sé nýlega búinn að skipta út vél í bakaríinu sem notuð var til að búa til kleinuhringi.

Bakaríið hefur verið við Aðalgötu í meira en 80 ár, …
Bakaríið hefur verið við Aðalgötu í meira en 80 ár, eitt rótgrónasta fyrirtæki héraðsins mbl.is/Björn Jóhann

„Ég fékk að mata þessa vél þegar ég var bara gutti og Guðjón átti þá bakaríið, þetta gæti hafa verið í kringum 1980. Það var bara í hittifyrra sem við hættum að nota þessa vél, sem hafði þá verið í notkun í meira en 40 ár.“

Tenging Róberts við baksturinn er ekki aðeins úr föðurættinni. Móðurafi hans, Ingimar H. Þorláksson, starfaði lengi sem bakarameistari hjá Kaupfélagi Siglfirðinga.

Á samningi hjá pabba

Róbert segist hafa verið sex ára þegar hann hafi tilkynnt hárgreiðslukonu sinni í stólnum að hann ætlaði að verða bakari þegar hann yrði stór. Ungur að árum fór hann suður og fékk vinnu í bakaríinu Korninu í Kópavogi. Komst þar á samning en stoppaði stutt við, segir bakarameistara sinn hafa skikkað sig til að taka gott sumarfrí því það væri lítið að gera.

„Ég var nýbúinn að kaupa mér bíl þetta sumar og vildi hafa eitthvað að gera, hringdi í pabba og spurði hvort ekki vantaði mann í vinnu á Króknum. Pabbi tók mér vel og ég flutti samninginn minn til hans. Síðan leiddi eitt af öðru,“ segir Róbert en þetta sama sumar kynntist hann eiginkonu sinni, Selmu Barðdal Reynisdóttur. Eiga þau fjögur börn á aldrinum 11-23 ára, þrjár dætur og einn son.

Starfsfólk Sauðárkróksbakarís í kringum 1980, f.v.: Unnur Sævarsdóttir, Guðjón Sigurðsson …
Starfsfólk Sauðárkróksbakarís í kringum 1980, f.v.: Unnur Sævarsdóttir, Guðjón Sigurðsson bakarameistari, Óttar Bjarnason bakarameistari, Gunnar Þ. Guðjónsson bakarameistari og Sigrún Alda Sighvats.

Róbert kláraði samning hjá föður sínum en til að ljúka sveinsprófi vantaði hann nokkra áfanga í bóklegum fögum. Hann lauk þeim í fjarnámi frá Iðnskólanum í Reykjavík, vildi ekki fara suður til að vera við útskrift, og fékk að útskrifast hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, líkast til sá eini sem þar hefur gengið út með sveinspróf í bakaraiðn. Og síðar útskrifaðist hann einnig sem bakarameistari frá FNV.

Heim frá Danmörku

Um fimm ára skeið dvöldu Róbert og Selma í Árósum í Danmörku við nám, hún í uppeldis- og sálfræðiráðgjöf og hann fór í markaðshagfræði. Hann hafði á þessum tíma ekki ætlað sér að snúa aftur í bakaríið til föður síns við heimkomuna en hlutirnir æxluðust öðruvísi. Sumarið 2006 fóru Róbert og Selma að huga að heimferð frá Danmörku. Mikið var þá í gangi í þjóðfélaginu og ýmis tækifæri í boði. Á þessum tíma var Óttar að leita að kaupanda að bakaríinu en hafði ekkert haft orð á því við son sinn að taka við. „Ég hafði ekki ætlað mér að fara aftur í baksturinn, með tilheyrandi brölti á næturnar, þá með þrjú ung börn á heimilinu og hugurinn stefndi annað. Ég ætlaði mér miklu frekar að verða bara einhver skrifstofublók,“ segir bakarinn léttur í bragði og bætir við:

„Ég var kominn með álitlega vinnu í Reykjavík þegar við vorum að flytja aftur heim til Íslands. Hins vegar vildum við ala börnin upp á Króknum og búa þar, bæði með stærstan hluta fjölskyldna okkar í bænum. Selma var ráðin sem ráðgjafi við skólana sem Sveitarfélagið Skagafjörður rekur og við gátum keypt hús á sama virði og blokkaríbúð í Reykjavík. Fyrir fátæka námsmenn var þetta einfalt reikningsdæmi.“

Sauðárkróksbakarí var komið á sölu og Róbert ákvað að henda inn tilboði án þess að láta pabba sinn vita. Þau tóku svo við rekstrinum haustið 2006 og voru rétt komin af stað þegar bankakerfið hrundi tveimur árum síðar.

„Við tókum við þessu við krefjandi aðstæður og þegar horft er til baka er ljóst að við hefðum aldrei komist í gegnum skaflana nema með frábæru starfsfólki og góðum stuðningi fjölskyldunnar. Foreldrar, tengdaforeldrar, systkini og frændfólk alltaf til staðar þegar á þurfti að halda,“ segir Róbert.

Eftir að hafa tekið alfarið við bakaríinu sáu þau Selma að tækifærin lágu m.a. í stærra konditori, eða kökugerð, og veitingasölu á staðnum. „Við breyttum búðinni og löguðum hana aðeins til.“ Róbert segir það einnig mikla gæfu hve bakaríið hafi verið heppið með starfsfólk. „Við höfum haft frábært starfsfólk hjá okkur, sem er ómetanlegt, og einnig fengið góð viðbrögð viðskiptavina. Fólkið í héraðinu hefur sýnt okkur mikla tryggð. Svona fyrirtæki þrífst ekki nema að verslað sé við það,“ segir hann en hjá bakaríinu starfa yfir 20 manns í fullu starfi á sumrin en eitthvað færri yfir veturinn, eða 10 í föstu starfi og síðan nokkrir skólakrakkar í hlutastörfum.

Sprenging í faraldrinum

Aðspurður segir Róbert bakaríið hafa notið góðs af ferðamannasprengjunni svonefndu, árin fyrir Covid-19. Þá varð m.a. frekari uppbygging á útiaðstöðu við bakaríið, sem ferðamenn gátu nýtt sér á sólardögum, í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. En faraldurinn kom sér alls ekki illa fyrir bakaríið, ef undan er skilið að Róbert og Selma fengu sjálf veiruna núna á lokaspretti hennar í vor þegar Skagafjörður nánast lokaðist um tíma vegna hópsýkingar.

„Síðasta sumar voru Íslendingar mikið á ferð um landið og það hefur sjaldan verið jafn mikið að gera hjá okkur og þá. Fram að seinni bylgjunni upplifðum við kröfugasta sumarið hjá okkur frá upphafi, þrátt fyrir að engin stór íþróttamót hafi verið haldin í bænum,“ segir Róbert og gerir sér vonir um enn betri tíð í sumar þegar faraldurinn virðist loks vera í rénun og hjarðónæmi að myndast eftir alla bólusetninguna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert