Norðlenskir hitabylgju-klattar

Súkkulaðiklattar eru ómissandi snarl í ferðalagið.
Súkkulaðiklattar eru ómissandi snarl í ferðalagið. Mbl.is/Vorhús

Hér eru ómótstæðilegir súkkulaði-hafraklattar að koma úr ofninum. Mjúkir, sætir og seðjandi, og það úr smiðju Vorhúss á Akureyri, þar sem sólin er í glennukeppni þessa dagana. Klattarnir eru því upplagðir til að taka með í ferðalagið og njóta þegar hungrið gerir vart við sig á ferðinni.

Norðlenskir hitabylgju-klattar

 • 250 g mjúkt smjör
 • 100 g sykur
 • 160 g púðursykur
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 2 egg
 • 190 g hveiti
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1/2 tsk. salt
 • 230 g haframjöl
 • 80 g kókosmjöl (má sleppa og setja meira haframjöl)
 • 100 g ljósir súkkulaðidropar
 • 100 g dökkir súkkulaðidropar
 • 100 g rúsínur – má sleppa en setja þá súkkulaði í staðinn (má líka vera smartís fyrir ungu kynslóðina)

Aðferð:

 1. Hitið ofn í 170 gráður með blæstri.
 2. Þeytið vel saman smjör, sykur, púðursykur og vanillusykur og bætið eggjunum út í einu í einu. Þeytið allt svo vel saman.
 3. Setjið þurrefnin saman í skál og blandið ásamt súkkulaðinu, kókos og rúsínum. Hellið út í smjörblönduna smátt og smátt á meðan þeytt er. Hrærið vel.
 4. Skiptið deiginu í kúlur, sirka vel kúfuð matskeið, og setjið á bökunarpappír, og inn í ofn. Bakið í 8-9 mínútur. Passið að baka kökurnar ekki of lengi því þær eiga að vera mjúkar. Leyfið kökunum að kólna á plötunni áður en þið takið þær af.
 5. Og njótið svo með ykkar nánustu.
mbl.is