Biobú selur lífrænt vottað nautakjöt

Biobú hefur hafið framleiðslu og sölu á lífrænt vottuðu nautakjöti.

Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Biobú, segir að Biobú sé með þessari framleiðslu á lífrænu nautakjöti að útvíkka vöruframboðið umtalsvert. Kjötið verður markaðssett undir merkjum Biobú sem hingað til hefur eingöngu framleitt mjólkurvörur frá bæjunum Neðra-Hálsi í Kjós og Búlandi í Austur-Landeyjum.

Biobú hefur gert samning við Sláturhús Vesturlands, sem fékk í lok síðasta árs lífræna vottun um að þjónusta slátrun gripa frá Neðra-Hálsi og Búlandi. Helgi segir að sláturhúsið muni sjá um slátrun og fullvinnslu á kjötinu sem kemur frá bæjunum.
 
Bíóbú framleiðir hakk, hakkabollur og gúllas úr nautgripakjöti og auk þess nautalundir, nautafillet og rib eye. Helgi segir að hakkið, hakkabollurnar og gúllasið fáist í Hagkaup, Frú Laugu og Melabúðinni. Nautasteikurnar fást hjá Frú Laugu, Melabúðinni og Fjarðarkaup.

mbl.is