Fágæt og fokdýr flaska

Nú í september stendur mikið til á Vox Brasserie á Hilton Reykjavik Nordica. Starfsfólk veitingastaðarins er í óðaönn við að undirbúa viðburð sem raunar hefur fest sig í sessi en ár er liðið frá því veitingahúsið efndi til samstarfs við Kampavínsfjelagið um svokallaða Kampavínsdaga. Nú eru þeir haldnir í sjötta sinn, þrátt fyrir allar þær samkomutakmarkanir sem í gildi hafa verið.

Hefur starfsfólki Vox, undir vökulu auga Guðrúnar Bjarkar Geirsdóttur, tekist að sigla milli skers og báru þegar kemur að því að fylgja breytilegum sóttvarnareglum og blessunarlega hefur ekkert smit komið upp í tengslum við dagana. Er það í raun ákveðið afrek í ljósi þess að þúsundir gesta hafa tekið þátt í dagskránni.

Það var í júlí í fyrra sem Guðrún Björk settist niður með Stefáni E. Stefánssyni, stofnanda Kampavínsfjelagsins, og tók að ræða hugmyndina að þessu verkefni.

„Það vatt fljótt upp á sig og úr varð að Kampavínsfjelagið flutti inn talsvert magn af víni frá húsinu Philipponnat sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Við buðum svo gestum og gangandi á smakk 16. september í tengslum við það þegar matreiðslumeistarar Vox höfðu sett saman forvitnilegan og spennandi matseðil sem paraðist fullkomlega við nokkur af vínum hússins sem lengi hefur verið í uppáhaldi hjá frábærum veitingastöðum á borð við Geranium í Kaupmannahöfn og Le George í París.“

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og á skömmum tíma höfðu 100 manns skráð sig í smakkklúbb á vegum félagsins og á fimmta hundrað gesta nutu lystisemdanna á Vox þá fimm daga sem fyrstu Kampavínsdagarnir stóðu yfir.

Sex hús verið kynnt nú þegar

Varð úr að leikurinn var endurtekinn í desember og frá þeim tíma hafa félagsmenn Kampavínsfjelagsins og gestir Vox kynnst flestum vínunum sem koma úr smiðju Philipponat, Drappier, Bollinger, Pol Roger og Lanson.

„Viðtökurnar hafa verið þannig að markaðurinn kallar alltaf eftir einhverju nýju og spennandi. Og það er úr nægu að velja. Húsin í Champagne eru á fjórða hundrað talsins og sum þeirra framúrskarandi,“ segir Stefán.

Og nú er komið að kampavínshúsinu Charles Heidsieck, sem stofnað var árið 1851 af manninum sem það dregur nafn sitt af. Hann var ævintýragjarn og kynnti kampavín fyrstur manna fyrir Bandaríkjamönnum, aðeins ári eftir að hann stofnaði húsið.

„Charles Heidsieck hefur lengi verið talið í hópi fremstu húsa. Það framleiðir um milljón flöskur á ári og er fastagestur á vínlistum glæsilegustu hótela og veitingastaða. Sérstaða þeirra felst í ótrúlegri þolinmæði. Þeir geyma vínin og geyma, alveg þar til þau eru í fullkomnu standi til þess að koma út á markaðinn,“ segir Stefán og bendir á að Brut Réserve er ódýrasta grunnvín hússins en það tekur kjallarameistara þess þó 24 ár að búa hverja flösku til.

Hverjum Kampavínsdögum hefur fylgt einhver sérstaða, bæði í vali á vínum og mat. Dagarnir að þessu sinni eru sannarlega engin undantekning í því efni. Nú er í fyrsta sinn boðið upp á nautasteik í aðalrétt og er hann paraður við rósakampavín. Annars vegar í standard-pörun með Rosé Réserve og hins vegar í premium-pörun með Rosé-árgangsvíni frá 2008.

Erum enn að læra mikið

„Þetta er allt gert til þess að dýpka skilning fólks og auka á upplifun þess af kampavíninu. Við eigum svo ótrúlega margt ólært í þessum efnum,“ segir Stefán.

Þá hefur Kampavínsfjelagið ráðist í það í tengslum við þessa daga að flytja til landsins gríðarlega fágæta flösku sem ekki á sér hliðstæðu í vínskápum þessa lands.

Einstök á margan hátt

„Okkur stóð til boða að kaupa úr kjöllurum Charles Heidsieck magnaða flösku sem ekki var hægt að líta fram hjá. Það er flaska úr svokölluðu Collection Crayeres-safni hússins sem framleitt var í minningu stofnandans á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.“

Þar vísar Stefán til þriggja lítra flösku sem nú er til sýnis í einum af glæsilegum vínskápum Vox og er hún árgangsvín frá uppskerunni 1985.

„Þegar fyrri gerjun vínsins lauk snemma árs 1986 var flaskan búin til seinni gerjunar og snúið á hvolf. Þannig var hún látin standa á hvolfi þar til í fyrra eða í 34 ár. Þá var hún tekin af geri eins og það er kallað. Vínið er ferskt og glóandi. Aðeins 165 flöskur voru framleiddar og við fengum þá sem er númer 51 í röðinni.“

Þegar Stefán er spurður út í hvort flaska af þessu tagi sé ekki dýr, brosir hann og færist undan að svara.

„Það er svo sem ekki hægt að komast hjá því að svara þessari spurningu enda er flaskan á vínseðli Vox og þar með til sölu. Verðmiðinn er hins vegar nokkuð sérstæður. Þessi flaska kostar svipað og gott rafmagnshjól frá Cube eða Specialized.“

Af svipnum að ráða er Stefán ekki í vafa um hvort yrði fyrir valinu, rafmagnshjólið eða flaskan, ef það stæði til boða.

Kampavínsdagarnir standa yfir á Vox frá 9. til 19. september og marka árs afmæli verkefnisins sem hefur fest sig í sessi í matarmenningu landsmanna síðasta árið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »