Hugmyndin kviknaði í fæðingarorlofinu

Inga María Henningsdóttir er konan á bak við instagramreikninginn Fingramatur sem slegið hefur í gegn meðal foreldra sem eru að byrja að gefa börnum sínum fasta fæðu.

Sjálf er Inga María tveggja barna móðir en hugmyndin að síðunni kviknaði fyrir þremur árum þegar hún var í fæðingarorlofi með strákinn sinn, Viktor Elí.

„Þegar ég var heima með strákinn minn og hann fór að nálgast þann aldur að hann var að byrja að fá fasta fæðu fannst mér mjög erfitt að lesa mér til um hvað ég mætti gefa honum og hvað ekki hérlendis og efnið sem var til heldur úrelt og gaf manni litla hugmyndir hvað væri nauðsynlegt fyrir börn og hvað ekki. Ég varð mjög óörugg í þessu ferli og fannst þetta allt saman mjög yfirþyrmandi og þorði nánast ekki að gefa honum neitt sem varð til þess að hann varð matvandur. Hann hætti að vilja smakka nýjar fæðutegundir og borðaði brauð með kæfu og hafragraut í nánast öll mál. Í þessu ferli kynntist ég aðferð sem heitir Baby Led Weaning (BLW) sem snýst um í stuttu máli um að barnið þitt borðar alveg sjálft og sér sjálft um að næra sig. Þú stjórnar hvenær og hvað er í matinn en barnið ræður hversu mikið eða hvort það borðar,“ segir Inga María   

„Þegar ég varð svo ólétt að stelpunni minni hélt ég áfram að sitja fyrirlestra og kynna mér BLW enn frekar því ég vissi að það var aðferð sem ég vildi fylgja þegar hún myndi svo seinna meir byrja að fá fasta fæðu,“ segir Inga María en dóttir hennar, Heiðrún Ylfa, er rúmlega árs gömul. 

„Ég byrjaði svo að sjá á mömmuhópum á facebook þar sem foreldrar voru í erfiðleikum með hvaða fæða væri best o.s.frv. Ég ákvað því að fara mjög langt út fyrir þægindarammann og stofna þennan instagramreikning sem hefur aldeilis slegið í gegn á meðal foreldra. Markmiðið með síðunni er að hjálpa foreldrum að sjá hvað er í lagi að gefa barninu að borða og veita fróðleik um BLW sem og alls konar uppskriftir.“  

Hvað er BLW?  

„BLW (e. Baby Led Weaning) eða að barnið borði sjálft snýst um að barnið borði sjálft frá því að það byrjar að fá fasta fæðu eins og ég nefndi áðan. Foreldrar sleppa því að mauka fyrir barnið og einblína eingöngu á sjálfsmötun. Þá er barnið meira með í matartímanum með því að sitja við matarborðið með fjölskyldunni sinni og lærir því að borða sjálfstætt töluvert fyrr. 

Kostur sem BLW hefur fram yfir að foreldar mati barnið er að börnin læra að stoppa sjálf þegar þau eru södd frekar en að foreldrar mati þau og kreista þá oft inn einni og einni aukaskeið þó svo að börnin séu löngu orðin södd, en með því að gera það mun það kenna barninu að borða meira en það þarf og hættir að kenna því að stjórna neyslu sinni á skilvirkan hátt.  

Til að byrja með hjálpar BLW með að fínstilla hreyfiþroska og þróar samhæfingu augna og handa sem og að þróa hollar matarvenjur. Börnin fá því einnig að kynnast fæðunni í gegnum fleiri skynfæri, snerta, þefa og skoða. BLW þróar því heilbrigðar og jákvæðar matarvenjur.

Þótt það sé engin fullkomin leið við að kynna barninu þínu fasta fæðu þá eru hér nokkrar leiðbeiningar sem geta verið hjálplegar þegar þú ert að byrja þessa spennandi ferð að kynna barninu fasta fæðu. 

Fyrst um sinn hafa börn einungis eitt grip, þ.e. lófagrip, og eflaust er það ástæðan fyrir því að börn eru oftast mötuð. Það er erfitt að grípa í litla bita og mauk með lófagripi. 

Í BLW er oft talað um því stærra því betra. Sem sagt fyrst um sinn er best að skera fæðuna í stóra bita. Barnið á þá auðvelt með að grípa í stóru bitana með lófagripi. Það gerir sér meiri grein fyrir hvað það er að bíta í stóran bita og lærir þannig að stjórna stærð bita á sjálfstæðan hátt. Um níu mánaða aldur þróast svokallað „pincer grisp“ þ.e. að barnið geti gripið fæðu með tveim fingrum (þumli og vísifingri), í kringum þann aldur er því hægt að minnka bitana, þá hafa börnin lært að tyggja minni bita og geta gripið í fæðuna auðveldlega með tveimur puttum.  

Þegar börn eru orðin eldri en 12 mánaða er hægt að gera hvort tveggja. 

Auðvitað er ekki hægt að skera alla fæðu svo henti lófagripi, t.d. grauta, ber og alls kyns baunir og grjón. Þá er mikilvægt að gera þessa fæðu örugga fyrir börnin. Ávexti og grænmeti sem eru hringlaga og litlir er hægt að skera langsum til að minnka köfnunarhætttu (til dæmis kíví, vínber og tómata).“

En hvernig er best að byrja ef ég hef nú þegar vanið barnið mitt á að vera matað?  

  • Barnið þarf að vera fyrst og fremst tilbúið og þurfa allir hlutir að vera til staðar:  
  • Barnið þarf að geta setið í stól.
  • Barnið þarf að geta haldið haus. 
  • Barnið þarf að hafa áhuga á því að borða (hægt er að auka áhugann með því að leyfa barninu að sitja við matarborðið og sjá foreldra borða, einnig hægt, ef barnið er að fá mauk, að leyfa því að grípa í skeiðina).  
  • Barnið þarf að geta gripið í hluti auðveldlega og sett upp að munni. 
  • Barnið þitt hefur náð sex mánaða aldri.  

 Best er því að leyfa barninu að þróa áhuga, ekki setja pressu á barnið og hafa matarupplifunina jákvæða. 

Rice Krispies-gott

Þessi uppskrift er ætluð eldri börnum (18m+)

Hráefni:

  • 1 poki epla- og jarðarberjaávaxtabitar frá Fruitfunk (með 10 litlum pokum í, fæst í Hagkaup og Fjarðarkaup)
  • 50 g smjör
  • 1 msk. sukrin gold/kókospálmasykur
  • 3/4-1 bolli rice krispies

Aðferð

  1. Smjör og sukrin brætt saman í potti.
  2. Ávaxtanamminu bætt saman við og brætt á vægum hita (ég notaði 6 af 10 á helluborðinu)
  3. Þegar ávaxtanammið hefur bráðnað er Rice Krispies-inu bætt saman við. Byrja á 3/4 bollum og bæta við ef þarf.
  4. Bökunarpappír settur í eldfast mót og blandan sett í mótið. Gott að þrýsta með skurðarbretti, þá verða stangirnar jafnar
  5. Skera í stangir og inn í kæli í 30-40 mín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert