Bragðupplifun úr 2.300 metra hæð

Líklega kannast sumir lesendur við að þurfa, eins og ég, að vara sig á íhaldsseminni.

Þegar kemur að mat og drykk hættir mér til að leita í það sem ég veit að virkar frekar en að prófa eitthvað nýtt og framandi: Gildir t.d. einu hvort ég er í Breiðholtinu eða Bologna að ef ég flækist inn á pítsastað er ég vís til að panta klassíska pepperónípítsu frekar en eitthvað sem ég hef ekki smakkað áður. Jafnvel á fínustu veitingastöðum hallast ég oft að því að biðja um hamborgara, af ótta við að nautasteikin, fiskrétturinn eða pastað valdi vonbrigðum. Ef klassísk súkkulaðikaka er ekki á matseðlinum er ég vís til að sleppa því að fá mér eftirrétt frekar en að taka sénsinn á gelato eða crème brûlée að hætti hússins.

Svona getur þægindaramminn breyst í fangelsi, og veit maður ekki fyrr en að þessi hræðsla við það nýja hefur beint manni inn á þá braut að lífið verður ekkert nema endalaus röð af Big Mac með frönskum, enda ekkert fyrirsjáanlegra og stabílla en McDonalds.

„Rommið fær svo að þroskast í bandarískum vín- og viskítunnum …
„Rommið fær svo að þroskast í bandarískum vín- og viskítunnum sem eru látnar standa í litlu þorpi í 2.300 metra hæð yfir sjávarmáli," segir í umsögninni. Ásgeir Ingvarsson

Eina lækningin við þessari íhaldssemi er að gera sér grein fyrir vandanum og taka endrum og sinnum meðvitaða ákvörðun um að prufa eitthvað nýtt.

Skálað fyrir sjóræningjum

Og þannig gerðist það að ég náði að ýta íhaldsseminni til hliðar þegar ég skimaði hillurnar í vínbúðinni í litla mexíkóska strandbænum þar sem ég dvel um þessar mundir. Í viskídeildinni gat ég ekki fundið neitt sem höfðaði sérstaklega til mín og svipaða sögu var að segja um tekíla-deildina, svo ég stappaði í mig stálinu og ákvað að nú skyldi stigið út fyrir þægindarammann.

Sem ég mændi á flöskurnar í hillunum varð mér hugsað til vígalegu sjóræningjanna sem sigldu um Karíbahaf og Mexíkóflóa fyrr á öldum og földu fjársjóðskistur sínar á afskekktum paradísareyjum sem í dag laða til sín léttklædda ferðamenn í leit að makindalífi í sólinni. Hvað með að gefa romminu séns, hugsaði ég, og heiðra þannig minningu stigamanna á borð við Jean Lafitte sem var í senn ribbaldi, smyglari og stríðshetja. Væri ekki upplagt að skála fyrir Lafitte í rommi?

Verandi ekki sérlega fróður um romm varð úr að velja fallegustu flöskuna með lengsta nafnið: Ron Zacapa Centenario Sistema 23 Solera Gran Reserva. Og til að gera langa sögu stutta sé ég ekki eftir því að hafa farið út fyrir þægindarammann og tekið mér frí frá að drekka viskí og tekíla.

Zacapa framleiðir romm í hæsta gæðaflokki suður í Gvatemala og eimar drykkinn úr fyrstu pressun af sykurreyr. Rommið fær svo að þroskast í bandarískum vín- og viskítunnum sem eru látnar standa í litlu þorpi í 2.300 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er loftið þunnt og hitastigið mun lægra en niðri við sjávarmál svo að uppgufunin úr tunnunum er ekki eins hröð og hún væri ella, og því hægt að leyfa romminu að þroskast vel og lengi.

Þá kemur til kasta Lorenu Vasquez en hún stýrir blöndun Zacapa-rommsins og blandar saman rommtegundum úr tunnum, sem fengið hafa að þroskast í 6 til 23 ár – allt eftir kúnstarinnar reglum.

Útkoman er afskaplega ljúffengur drykkur sem er upplagt að drekka einan og sér eða með ísmola í glasinu, rétt eins og ef um væri að ræða gott viskí.

Zacapa-rommið hefur á sér dökkan, púðursykursbrúnan lit, og anganin minnir á súkkulaði, jarðarber, vanillu og banana. Bragðið er þægilegt og minnir sumpart á sérrí. Greina má keim af rauðvíni, kirsuberjum, apríkósu, svörtu kaffi, karamellu, vanillu og eik, sem umbreytist í meðallangt og ögn þurrt eftirbragð með votti af epli og eik. Aldeilis margslungin upplifun fyrir skilningarvitin.

Upp á grín prufaði ég að smakka rommið með mat og ætti þessi sæti drykkur að passa við ótal rétti. Rommið fór t.d. ágætlega með pönnusteiktum laxi og hlýtur að ganga enn betur með nautasteik eða grilluðum hamborgara. Fram undan hjá mér er að þræða mexíkósku matvöruverslanirnar í leit að öskju af dönskum eða skoskum smjörkökum sem mig grunar að parist vel við rommið og það væri upplagt ef lesendur uppi á Íslandi gerðu fyrir mig tilraun til að sjá hvernig það kemur út að skola jólasmákökunum niður með dökku rommi af bestu gerð. Mér segir svo hugur um að hálfmánar, sörur og gyðingakökur smellpassi við þroskað hágæðaromm.

Þessi pistill birtist upphaflega í dalkinum Hið ljúfa líf í ViðskiptaMogganum 8. desember.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert