Frumkvöðlar í matvælaiðnaði fá nýsköpunarstyrk Uppsprettunnar

Finnur Oddsson, forstjóri Haga.
Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

Tólf sprotafyrirtæki fengu nýsköpunarstyrk Uppsprettunnar til að vinna að nýsköpunarverkefnum í matvælaiðnaði. 

Uppsprettan, nýsköpunarsjóður Haga, er ætlaður er til stuðnings við frumkvöðla til þróunar og nýsköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á að verkefnin, sem hljóta styrkveitingu, taki tillit til sjálfbærni og styðji innlenda framleiðslu. 

Alls bárust tugir umsókna um styrk í sjóðinn. Matsnefnd valdi 12 verkefni til styrkveitingar, að heildarverðmæti 16 milljón króna. Styrkirnir voru kynntir á sérstökum viðburði á lokadegi Nýsköpunarvikunnar.  

„Það er mikill kraftur í íslenskri nýsköpun í matvælaiðnaði og viljum við hjá Högum leggja okkar af mörkum við að virkja þennan kraft og auka innlenda framleiðslu. Nýsköpunarsjóðurinn Uppsprettan er liður í því og er nafn sjóðsins táknrænt fyrir hlutverk hans.  Að styðja við góðar hugmyndir, vökva þær til vaxtar og tryggja það að sprotinn geti vaxið og dafnað til framtíðar,” segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, aðspurður um verkefnið og mikilvægi þess fyrir frumkvöðla.

Styrkhafar Uppsprettunar 2022

 • Hops er ný gerð áfengislausra drykkja sem framleiddir verða á Íslandi. Drykkirnir eru bruggaðir eftir nýstárlegum aðferðum, sem þróaðar hafa verið með Álfi Brugghúsi. Hops er án aukaefna, sykurlaus og áfengislaus. 
 • Smjer er allt sem þú þarft í einu smjörstykki til þess að gera dýrindis sósu á örskammri stundu. Fyrsta vara Smjers er bearnaise og ættu allir landsmenn að geta útbúið ljúffenga bearnaisesósu með steikinni í sumar. 
 • Baða framleiðir íslenskar sápur úr íslenskum hráefnum. Baða hefur fengið styrk til framleiðslu og þróunar á þremur nýjum vörum, sem innihalda íslensk hráefni sem að hafa græðandi og róandi áhrif. 
 • Svepparíkið vinnur að þróun og ræktun á sælkeramatsveppum úr lífrænum úrgangi frá matvælaiðnaði. Sjálfbær ræktun sælkerasveppa er ný á Íslandi.
 • Sifmar er sprotafyrirtæki sem að vinnur að framleiðslu á hollum íslenskum barnamat.  Hugmyndafræði fyrirtækisins er að nýta íslenskt grænmeti og ávexti sem annars færu til spillis og vinna það áfram með íslenskum orku- og vatnsauðlindum.
 • Úr sveitinni er sprotafyrirtæki sem vinnur að ræktun á gulrótum í öllum regnbogans litum. Litríkar gulrætur gera meðlætið og nestið skemmtilegra. 
 • Máltíð á mettíma er vörulína frostþurrkaðra rétta. Fyrsti rétturinn sem kemur á markað er Kjöt í karrý. 
 • Bökum saman er fjölskyldufyrirtæki sem auðveldar fjölskyldum að skapa saman gæðastundir við bakstur. Bökum saman hefur fengið styrk til að þróa þrjár nýjar vörur frá fyrirtækinu. 
 • Krispa fiskisnakk eru kryddaðar snakkflögur sem innihalda íslensk hráefni og þurrkaðan íslenskan fisk. Krispa verður fáanlegt í fjórum bragðtegundum.
 • Mijita er sprotafyrirtæki sem að framleiðir matvæli byggð á kólumbískri matargerð. Arepa eru flatbökur úr maís fyrir grænkera en þær verða fyrstu vörur Mijita.
 • Anna Marta er sprotafyrirtæki sem framleiðir heilsuvörur úr íslenskum hráefnum.  Anna Marta hefur fengið styrk til að þróa og framleiða þrjár nýjar vörur, þ.e. Pestó Spæsí, Pestó Sól og einstöku súkkulaði. 
 • Ella Stína er sprotafyrirtæki sem framleiðir eingöngu vörur úr hráefni úr plönturíkinu. Ella Stína hefur fengið styrk til þróunar á nýjum vörum fyrir grænkera.  
mbl.is