Sendir uppáhalds kökuna sína með einkaþotu

AFP

Til er sú kaka sem stórleikaranum Tom Cruise þykir svo góð að hann sendir hana til vina sinna um heim allan þegar svo ber við.

Um er að ræða forláta kókosköku með hvítu súkkulaði og samkvæmt áreiðanlegum heimildum matarvefsins er ást hans á kökunni svo mikil að í aðdraganda jóla pantar hann fleiri hundruð eintök og lætur senda til vina og vandamanna. Sagan segir að hann hafi sent einkaþotu með nokkrar kökur til vina sem staddir voru erlendis.

Kakan fæst hjá Doan’s Bakery í Woodland Hills, Kaliforníu og eins og þið getið ímyndað ykkur er vinalisti Cruise ekki amalegur. Þannig hafa stórstjörnur á borð við Jimmy Fallon, Angelu Bassett, John Hamm og Kirsten Dunst öll fengið senda köku heim en Dunst sagði eitt sinn í viðtali að þetta væri besta kaka sem hún hefði smakkað. 

Kakan leit fyrst dagsins ljós í bakaríinu árið 1984 og hefur verið vinsæl síðan þá. Tom Cruise lýsir kökunni sem kókoshnetuköku með klumpum af hvítu súkkulaði, þakið lagi af rjómaosti og fjalli af röspuðum kókosflögum sem hljómar alls ekki svo illa ef þið spyrjið okkur.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert