Besta kartöflusalatið hennar Nönnu

Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Í tilefni þess að íslenska selleríið er komið í verslanir erum við hér með uppskrift að dýrindis kartöflusalati úr smiðju Nönnu Rögnvaldardóttur.

Hér er á ferðinni heitt kartöflusalat með selleríi og beikoni sem ætti að slá í gegn við hvaða matarborð sem er enda elskum við fátt heitar en gott meðlæti.

Heitt kartöflusalat með selleríi og beikoni

  • 500 g kartöflur, helst litlar
  • 100 g beikon
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 stöngull sellerí
  • nýmalaður pipar
  • salt
  • 1 msk. vínedik
  • 1 tsk. dijonsinnep
  • 2 msk. rauðlaukur, saxaður smátt  
Leiðbeiningar:
  1. Sjóddu kartöflurnar þar til þær eru nærri alveg meyrar.
  2. Helltu þá vatninu af þeim og skerðu þær í helminga eða fjórðunga, eftir stærð.
  3. Skerðu beikonsneiðarnar í bita og steiktu það á pönnu þar til það er stökkt. Taktu það þá af með gataspaða og settu í skál.
  4. Bættu olíu á pönnuna og settu kartöflurnar á hana. Steiktu þær við góðan hita í nokkrar mínútur. Lækkaðu þá hitann, bættu mestöllu selleríinu á pönnuna, kryddaðu með pipar og svolitlu salti og láttu krauma í nokkrar mínútur í viðbót; hrærðu oft í kartöflunum.
  5. Taktu þær svo upp með gataspaða og settu í skálina með beikoninu. Helltu feitinni af pönnunni í litla skál og þeyttu ediki, sinnepi og rauðlauk saman við.
  6. Helltu yfir kartöflurnar, bættu við afganginum af selleríinu og blandaðu vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert