Opnar sinn fyrsta veitingastað

Kevin Hart.
Kevin Hart. Ljósmynd/Hart House

Leikarinn og grínistinn Kevin Hart hefur opnað sinn fyrsta veitingastað. Staðurinn, sem ber heitið Hart House, opnaði þann 25. ágúst í Los Angeles, er grænmetisstaður með úrvali af ostborgurum, stökkum „kjúklinga“borgurum, salötum, frönskum kartöflum, mjólkurhristingum og fleira.

Markmið staðarins er að bjóða upp á gæðamat á góðu verði en meðal þess sem er á bannlista eru kólesteról, hráefni sem hefur verið meðhöndlað með sýklalyfjum, hormónum, litarefnum, rotvarnarefnum eða inniheldur ofur-sykrað maíssíróp eða transfitur.

„Sem einstaklingur sem hefur predikað að heilsan sé það dýrmætasta sem við eigum var Hart House eðlilegt næsta skref,“ sagði leikarinn vinsæli í tilkynningu. „Ég er stoltari en orð fá lýst af þessum byltingarkennda veitingastað og teyminu á bak við hann sem hefur unnið sleitulaust að því að búa til frábæran og hollan mat.“

Á dagskrá er að opna að minnsta kosti tíu staði á næstunni en ekki er enn ljóst hvar næsti staður verður opnaður.

Ljósmynd/Hart House
mbl.is