Tónlistarveisla fyrir bragðlaukana á Brút

Ljósmynd/Facebook

Tertulia, tónlistarveisla fyrir bragðlaukana, fer fram á veitingastaðnum Brút á laugardaginn kemur, 14. janúar. Tertulia kemur alla leið frá New York og er nokkurs konar matarupplifun þar sem tónlistin er í forgrunni.

„Að mér vitandi hefur þetta aldrei verið gert áður á Íslandi, að blanda saman kammertónlist og matarupplifun á þennan hátt. Áhuginn fyrir viðburðinum er mikill en það eru bara örfáir miðar eftir,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, veitingamaður á Brút.

Boðið verður upp á þriggja rétta veislu ásamt fordrykk en auk þess er hægt að fá vínpörun með. Á milli rétta leika margir af flinkustu hljóðfæraleikurum samtímans fjölbreytta kammertónlist eftir tónskáld víða að úr heiminum, meðal annars Ludwig Van Beethoven, Erwin Schulhoff og Isidora Žebeljan, svo eitthvað sé nefnt.

Ólafur segir tónlist og matargerð eiga margt sameiginlegt. „Tónlist og matur eru náskyld fyrirbæri sem spretta bæði upp frá sömu stöðvum í heilanum. Þetta eru listir sem eru til þess gerðar að skapa sérstaka upplifun. Tónverkin og réttirnir eru sett saman á matseðil kvöldsins og mynda vonandi góða heild á laugardaginn.“

Hægt er að kaupa staka miða eða helgarpassa, sem veitir aðgang á alla viðburðina, á tix.is.

Ljósmynd/Facebook
Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert