Þorbjörg spáir Loreen sigri í kvöld og matreiðir tortillur

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir er dolfallin aðdáandi Eurovision-söngvakeppninnar ætlar að fylgjast …
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir er dolfallin aðdáandi Eurovision-söngvakeppninnar ætlar að fylgjast með keppninni með fjölskyldunni í kvöld og bjóða upp á tortillur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður er dolfallin aðdáandi Eurovision-söngvakeppninnar og er búin að spá fyrir úrslit kvöldsins. Matseðill kvöldsins er líka tilbúinn en hann er skipulagður út frá því að hægt sé að borða matinn fyrir framan sjónvarpið. 

„Ég fylgist alltaf með keppninni og held reyndar að það sé erfitt að finna Íslending sem fylgist ekki eitthvað með. Það bætist síðan við að ég bjó í Svíþjóð til 10 ára aldurs þar sem foreldrar mínir voru í námi. Í Svíþjóð er Melodifestivalen auðvitað dauðans alvara og sænska þjóðin keppir til sigurs, alltaf. Ég hugsa að ég hafi fengið áhugann í æð nokkuð snemma. Æskan í Svíþjóð hefur líka orðið til þess að það er sænsk taug þegar ég fylgist með Eurovision-söngvakeppninni, alveg frá því að hafa lært í sænsku skólakerfi að ABBA sé besta hljómsveit í heiminum, yfir í að dá Carolu og síðan að sjá Loreen vinna með besta lag Eurovision allra tíma,“ segir Þorbjörg og er orðin mjög spennt fyrir kvöldinu.

Spái Loreen sigri

„Ég hefði fyrirfram haldið að það yrði Loreen sem vinnur og sýnist spárnar vera í þá átt að Svíar vinni. Vinnufélagar mínir í Viðreisn hafa sett upp veðmál og  þrátt fyrir að finnast finnska lagið frábært og að það sé dálítið uppáhalds þá skilaði ég inn veðmáli um að efstu löndin í ár verði Svíþjóð, Finnland og Frakkland. Það skemmtilega er síðan auðvitað að allt fer þetta einhvern veginn og enginn veit neitt.“

Borðum fyrir framan sjónvarpið

Þegar kemur að því að velja matseðil fyrir kvöldið finnst Þorbjörgu skipta máli að vera með mat sem hægt er að borða fyrir fram sjónvarpið. „Við horfum saman fjölskyldan og kvöldmaturinn er skipulagður út frá því að hægt sé að borða matinn fyrir framan sjónvarpið. Stór hluti af skemmtuninni finnst mér líka að að finna áhugann og stemninguna hjá yngri krökkunum. Það er síðan ákveðin mælistika hvað grunnskólakrakkarnir segja, því ég held að þau ráði víða atkvæði heimilanna í símakosningunni. Og mínar heimildir úr Breiðagerðisskóla benda til góðs gengis Finnlands í ár. Í nestistíma hlustar 5. bekkur í Breiðó víst alltaf á finnska lagið og hefur tröllatrú á því framlagi.“ 

Skothelt leikskipulag með tortilla

Þorbjörg segir að matseðilinn verði einfaldur. „Í kvöld verður það tortilla, sem er einfaldur og þægilegur matur sem er hægt að borða fyrir framan sjónvarpið. Matur sem hentar öllum. Þær eru fylltar með kjúklingi sem er vel kryddaður og svo steiki ég græna og rauða papriku, tómata og rauðlauk á pönnu. Ég geri guacamole, ferskt salsa með tómötum og kóríander og mangósalsa. Þessum sósum fylgir auðvitað nachos. Leikskipulagið er þá að kvöldmatur og sjónvarpsveitingar renna saman í eitt. Skothelt leikskipulag vil ég meina. Tortillur er hægt að elda þannig að þær séu mildari á bragðið fyrir ungu bragðlaukana en sterkari fyrir þá sem það þola.“ 

Eðlan lögbundin partíréttur

Það stendur ekki á Þorbjörgu að svipta hulunni af uppáhalds partíréttinum sínum fyrir kvöldið. „Er eðlan ekki lögbundin á Íslandi á Eurovision-kvöldi? Ef ekki þá þarf að ganga í það mál. Hún er yfirleitt alltaf á borðum á mínu heimili þegar líður á kvöldið. Nachos og þessi einfalda ídýfa. Rjómaostur, salsasósa og ostur í fati sem er svo hitað í ofni,“ segir Þorbjörg sem er farin að undirbúa kvöldið.

Tortillur fylltar með kjúkling eru dásamlega góðar og það er …
Tortillur fylltar með kjúkling eru dásamlega góðar og það er einfalt og þægilegt að útbúa þennan rétt. Ljósmynd/Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir

Kjúklinga Taco

Fyrir 4

  • 1 p af beinlausum kjúklingalærum
  • 1 rauð paprika skorin í grófa bita
  • 1 græn paprika skorin í grófa bita
  • ½ rauðlaukur fínt hakkaður
  • 2-3 msk. af olíu (olía eftir smekk)
  • 1 dós af tómötum, maukaðir eða ekki – með chilli bragði eða bara venjulegir tómatar
  • 8-10 tortilla kökur
  • 1 p af rifnum mozzarella
  • 2 dl af kjúklingasoði
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. rautt chilli duft (eða minna)
  • ¼ tsk.cayenne pipar
  • 1 tsk. reykt paprikukrydd
  • 1½ tsk.cumin (ekki kúmen)
  • 1½ tsk.cajun krydd

Aðferð:

  1. Blandið saman öllum kryddunum í skál og blandið þeim svo saman við olíu.
  2. Skerið ekki kjúklinginn heldur setjið hann í skál og kryddið með kryddblöndunni.
  3. Skerið paprikur og laukur niður og setjið í aðra skál.
  4. Paprikubitarnir stórir en rauðlaukurinn er smátt skorinn.
  5. Steikið kjúklinginn á pönnu.
  6. Setjið til hliðar þegar þau eru tilbúin.
  7. Steikið grænmetið á pönnu þar til það mýkist.
  8. Hellið svo tómötunum yfir grænmetið ásamt kjúklingasoðinu.
  9. Látið malla á vægum hita á meðan eldaður kjúklingur er settur á bretti og rifinn gróflega í sundur með tveimur göfflum.
  10. Setjið kjúklinginn út í grænmetið og tómatasósuna.
  11. Látið þetta malla saman í 15-20 mínútur. Sósan á að þykkna aðeins.
  12. Smakkið sósunaaðeins til og bæti við hvítlauk, salti og pipar ef ykkur finnst eitthvað vanta. Allt eftir smekk.
  13. Sækjið aðra pönnu, gjarnan rifflaða ef hún er til.
  14. Hitið olíu á pönnunni.
  15. Næst er ein tortilla í einu gerð.
  16. Pressið tortilla köku ofan á kjúklingasósuna.
  17. Setjið tortilluna á riffluðu pönnuna, þannig að blauta hliðin snýr niður.
  18. Bætið við kjúklingiá kökuna og setjið mozzarella ostur settur ofan á og leyfið honum bráðna aðeins.
  19. Lokið síðan tortillunni til helminga.
  20. Gott er að snúa tortillunni stuttlega við svo hún verði aðeins grilluð beggja vegna – og gott að tortillurnar fái að taka smá lit.
  21. Setjið á disk þegar hún er tilbúin.
  22. Þá fer næsta tortilla á pönnuna með sósunni og svo ein af annarri.
  23. Í lokin er gott að skera niður kóríander og dreifa yfir kjúklinga taco-ið áður en borið fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert