Marmarakaka eins og amma gerði

Marmarakakan lítur einstaklega vel út og fallegt að baka hana …
Marmarakakan lítur einstaklega vel út og fallegt að baka hana í kringlóttu formi eins og hér er gert. Ömmulegt og gott. Unsplash/Fadya Azhary

Hér er á ferðinni einföld, sígild og bragðgóð marmarakaka eins og amma gerði hana. Gömlu góðu formkökurnar eiga vel við með helgarkaffinu og ekki síst á frídögum sem bera upp. Það er svo gaman að bjóða fjölskyldu og vinum upp á nýbakaðar kræsingar með kaffinu og eiga með þeim notalega stund við eldhúsborðið á gamla mátann án þess að þurfa að vera með mikla fyrirhöfn. Þá er lag að baka einfaldar formkökur og gleðja matarhjartað á fallegan hátt. 

Marmarakaka

  • 200 g sykur
  • 150 g smjör
  • 2 stk. egg
  • 300 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 dl mjólk
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. kakó
  • 1 msk. mjólk
  • 100 g suðusúkkulaði ef vill (ekki nauðsyn en syndsamlega gott)

Aðferð:

1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita.

2. Setjið saman í skál sykur og smjör og hrærið vel saman.

3. Setjið eitt og eitt egg í einu saman við og hrærið vel. Munið að skafa vel á milli.

4. Bætið við mjólk og vanilludropum saman við deigið og hrærið vel.

5. Bætið við hveiti og lyftidufti og hrærið vel saman í stutta stund, u.þ.b. 1 mínútu.

6. Takið til form, annaðhvort hefðbundið sandkökuform eða kringlótt form með gati í smiðjunni. Gaman að leika sér með formin.

7. Takið 1/3 af deiginu frá og blandið saman við kakó og mjólk. Getið blandað kakóinu saman við á margan hátt, til að mynda fyrst til helminga í ljósadeigið og svo í dökk, og aftur yfir í það ljósa. Hér má líka bæta við bita og bita af suðusúkkulaði.

8. Setjið loks er ljósa deigið yfir í allt formið og brúna sett yfir og aðeins þrýst ofan á með  sleikju.

9. Setjið formið í ofn og bakið í 50 til 60 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu en ekki blautu deigi.

10. Baksturtíminn fer eftir stærð forma og tegundunum bakarofna.

11. Berið fram með heitum kaffibolla eða ískaldri mjólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert