Dásamlegur steinbítur með nýju bragði og áferð

Dásamlegur fiskréttur, steinbítur með kasjúhnetum, hvítlauk, apríkósum og bræddum osti …
Dásamlegur fiskréttur, steinbítur með kasjúhnetum, hvítlauk, apríkósum og bræddum osti úr smiðju Jönu. Samsett mynd

Hér er á ferðinni dásamlegur fiskréttur sem Kristjana Steingrímsdóttir heilsumarkþjálfi og sælkeri, ávallt kölluð Jana, hefur töfrað fram. Jana er hér með steinbít með kasjúhnetum, hvítlauk, apríkósum og bræddum osti. Aðaltrixið í elduninni er að leggja fiskinn yfir sítrónusneiðar, sem gefur réttinum svo frískandi bragð. „Allir í fjölskyldunni elska þennan fiskrétt. Ég bar fiskréttinn fram með sítrónudressingu, grilluðum sætum kartöflubitum með parmesanhjúp og grænu fersku salati,“ segir Jana. Þennan fiskrétt verður þú að prófa, það er svo gaman að bæta við fiskréttum í matarflóruna og prófa nýtt bragð og áferð. Hægt er að fylgjast með Jönu á instagraminu hennar @janast

Steinbítur með kasjúhnetum, hvítlauk, apríkósum og bræddum osti

  • 700 g steinbítur eða annar góður hvítur fiskur
  • 50 g chili kryddaðar kasjúhnetur, gróft saxaðar
  • 1 sítróna
  • 100 g rifinn laktósafrír ostur
  • 8 apríkósur sem fengið hafa að liggja í vatni í um það bil 30 mínútur, saxaðar
  • 2 hvítlauksrif pressuð
  • 1 msk. marokkóskt fiskikrydd frá Kryddhúsinu
  • 2 msk. fínhökkuð steinselja
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Skvetta af ólífuolíu

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 190°C.
  2. Skerið sítrónu í sneiðar.
  3. Skerið því næst steinbítinn í hæfilega bita.
  4. Raðið sítrónusneiðunum í botninn á eldföstu móti.
  5. Leggið svo fiskbitana ofan á sítrónusneiðarnar.
  6. Saltið, piprið eftir smekk hellið smá af góðri ólífuolíu yfir fiskinn.
  7. Hrærið saman í skál kasjúhnetum, rifnum osti, söxuðum apríkósum, steinselju og pressuðum hvítlauksrifjum og dreifið yfir fiskinn.
  8. Skvettið svolítilli ólífuolíu yfir allt.
  9. Bakið í um það bil 20 mínútur við 190°C, bætið þá við 2 mínútum og hækkið hitann upp í 200°C til að fá gylltan lit á ostinn í lokin.
Syndsamlega ljúffengt að sjá.
Syndsamlega ljúffengt að sjá. Ljósmynd/Kristjana Steingrímsdóttir
mbl.is