Gómsæt BBQ kjúklingaspjót og makkarónusalat

Gómsæt grilluð kjúklingaspjót með BBQ og makkarónusalati sem er nýstárlegt …
Gómsæt grilluð kjúklingaspjót með BBQ og makkarónusalati sem er nýstárlegt meðlæti. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Í sól og sumaryl er ávallt gaman að grilla og hér er Berglind Hreiðars matarbloggari með meiru hjá Gotterí og gersemar komin með sitt nýjasta nýtt á grillið. Þessi dásamlegu kjúklingaspjót með BBQ og makkarónusalat, sem er eitthvað alveg nýtt.

„Það er alltaf gaman að prófa nýtt meðlæti með grillmat og þetta makkarónusalat var algjör snilld. Ég hef ekki útbúið svona áður en rakst á útfærslu á netinu um daginn og gat ekki hætt að hugsa um þetta fyrr en ég myndi prófa,“ sagði Berglind þegar hún var spurð út þetta frumlega salat.

Nú er bara að gera vel við sig og fá sér grillaðan kjúkling með nýstárlegu meðlæti, makkarónusalati.

Makkarónusalati er eitthvað sem Berglind sá á netinu og stóðst …
Makkarónusalati er eitthvað sem Berglind sá á netinu og stóðst ekki mátið að prófa. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

BBQ kjúklingaspjót og makkarónusalat

Fyrir4

BBQ kjúklingaspjót

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 150 ml Caj P grillolía
  • ½ flaska Heinz Sweet BBQ sósa

Aðferð:

  1. Setjið kjúklingalærin í skál og hellið grillolíunni yfir, blandið vel saman og leyfið að marínerast í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund, yfir nótt er líka í lagi, bara plasta/loka ílátinu vel.
  2. Þræðið síðan 2 læri upp á hvert grillspjót og grillið á heitu grilli í nokkrar mínútur á hvorri hlið, penslið 1 x með BBQ sósu á meðan þið grillið (um 1 msk. á hvora hlið).
  3. Takið síðan af grillinu, penslið aftur BBQ sósu yfir og leyfið að hvíla í nokkrar mínútur áður en þið njótið með makkarónusalati.

Makkarónusalat

  • 350 g ósoðið makkarónupasta
  • ½ rauðlaukur
  • 3 msk. púrrulaukur
  • 2 tómatar
  • 2 gulrætur
  • ½ rauð paprika
  • 1 msk. steinselja
  • 130 g majónes
  • 70 g sýrður rjómi
  • 30 g púðursykur
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 1 msk. dijon sinnep
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. salt
  • ½ tsk. pipar

Aðferð:

  1. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka, leyfið vatni að leka alveg af þeim síðan áður en þið notið í salatið.
  2. Pískið á meðan majónes, sýrðan rjóma, púðursykur, dijon sinnep og krydd saman í skál og geymið.
  3. Skerið allt grænmetið smátt niður (rífið gulræturnar gróft) og blandið síðan öllu saman í skál með sleikju.
  4. Geymið í kæli fram að notkun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert