Sumarlegir borgarar og krúttlega sætar pavlovur fyrir sælkera

Berglind Hreiðarsdóttir lífsstíls- og matarbloggari sem er þekkt fyrir kræsingar …
Berglind Hreiðarsdóttir lífsstíls- og matarbloggari sem er þekkt fyrir kræsingar sínar galdrar hér fram rétti sem eiga vel við í sumarblíðunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Hreiðarsdóttir, lífsstíls- og matarbloggarinn ástsæli sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar, er ótrúlega frjó og hugmyndarík þegar kemur að því að setja saman ljúffenga og fallega rétti.

Síðustu daga hefur veðurblíðan leikið við landsmenn og þá langar alla í kræsingar sem eiga vel við í blíðunni. Ekkert er betra er grillaðar kræsingar og léttir og ferskir eftirréttir og það veit Berglind.

Berglind útbjó tvo dásamlega rétti fyrir lesendur sem eiga vel við þessa dagana, annars vegar sumarlega og bragðgóða mexíkóborgara og hins vegar krúttlegar og gómsætar pavlovur sem steinliggja í eftirrétt.

Mexíkóborgarinn stökki lítur girnilega út með guðdómlega ljúffengu gvakamóle og …
Mexíkóborgarinn stökki lítur girnilega út með guðdómlega ljúffengu gvakamóle og osti. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Stökkur kjúklingur og nachos

„Ég var að koma úr stuttu sumarfríi í síðustu viku og þar sem veðrið hefur heldur betur leikið við okkur langaði mig að útbúa eitthvað sumarlegt, ferskt, fallegt og gott! Mexíkóborgari og suðrænar pavlovur eru fullkomin blanda ef ykkur langar að gera vel við ykkur og hér koma þessar uppskriftir fyrir ykkur að njóta,“ segir Berglind.

Það er gaman að gera mismunandi útfærslur af hamborgurum, hvort sem það er með buffi, kjúklingi eða bara hverju sem er. „Stökkur kjúklingur, gvakamóle og nachosflögur klikka ekki og mexíkókryddosturinn setur sannarlega punktinn yfir i-ið í þessum rétti. Guðdómlegir og sumarlegir borgarar sem ég mæli með að allir prófi,“ segir Berglind.

Pavlovurnar gleðja augað, litlar og krúttlegar, fagurlega skreyttar með jarðarberjum …
Pavlovurnar gleðja augað, litlar og krúttlegar, fagurlega skreyttar með jarðarberjum og ástaraldini, fullkomnar í eftirrétt. Ljósmynd/Berlind Hreiðars

Krúttlegar pavlovur með freyðivíni

Þegar kemur að eftirréttum er vinsælt að þeir séu ekki of stórir og að ferskleikinn sé í fyrirrúmi eftir aðalréttinn. „Ég elska marengs og mun seint fá leið á að útbúa eitthvað nýtt í þeim efnum. Að gera litlar pavlovur er eitt af því sem ég elska því þær eru eitthvað svo krúttlegar og passlegar sem eftirréttur eða hluti af hlaðborði. Ég var að prófa að gera mascarpone-rjómafyllingu og útkoman var undursamleg. Jarðarberin og ástríðuávöxturinn færa síðan ferskleika yfir réttinn og þessar kökur voru alveg fullkomnar. Með þeim var ég síðan með óáfengt búbbluvín með jarðarberjum ofan í og er fólki að sjálfsögðu frjálst að nota hvaða kampavín, freyðivín eða rósavín sem það óskar.“

Kjúklingaborgari með mexíkóosti

5 stykki

 • kjúklingalæri í nachos-hjúp
 • 5 úrbeinuð kjúklingalæri
 • 50 g hveiti
 • 1 egg (pískað)
 • 70 g Doritos (blátt, mulið)
 • 30 g Panko-rasp
 • 1 tsk. salt
 • 1 tsk. hvítlauksduft
 • 1 tsk. paprikuduft
 • ½ tsk. pipar
 • 1-1½ mexíkókryddostur
 • 5 x skólaostur í sneiðum
 • matarolíusprey

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Setjið kjúklingabitana í poka og lemjið aðeins niður með buffhamri til að þynna/jafna þá út. Setjið hveiti í eina skál, pískað egg í aðra og Doritos, Panko og kryddið í þá þriðju.
 3. Dýfið síðan hverjum bita fyrst í hveiti, dustið vel af, dýfið næst í eggjablönduna og að lokum í Doritos-raspið og þekið vel.
 4. Raðið á ofngrind, spreyið vel með matarolíuspreyi og setjið í ofn í um 25 mínútur.
 5. Bætið þá ostinum ofan á hvern bita og eldið áfram í ofninum í 5 mínútur.

Gvakamóle

 • 3 stk. avókadó
 • 1 dós piccolo-tómatar (180 g)
 • ½ rauðlaukur
 • 2 hvítlauksrif (rifin)
 • ½ lime (safinn)
 • 1 tsk. salt
 • ½ tsk. pipar

Aðferð:

 1. Stappið avókadó og skerið tómata og rauðlauk smátt. Blandið öllu saman í skál og geymið í kæli fram að notkun.

Annað hráefni og samsetning

 • 5 brioche-hamborgarabrauð
 • majónes
 • blaðsalat
 • Doritos-flögur
 • kóríander

Aðferð:

Smyrjið brauðið með majónesi. Raðið síðan salati, Doritos-flögum, káli, kóríander, kjúklingi og gvakamóle á neðra brauðið og lokið síðan með því efra. Njótið með nachos-flögum.

Pavlovur með mascarponerjómafyllingu

15-20 stykki eftir stærð

Marengs

 • 5 eggjahvítur
 • 5 dl púðursykur

Aðferð:

Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja að freyða og bætið þá sykrinum saman við í nokkrum skömmtum.

Stífþeytið þar til topparnir halda sér og sprautið á bökunarplötu (eða setjið á með tveimur matskeiðum), búið til smá holu í miðjunni með skeið til að betra sé að sprauta fyllingunni í eftir bakstur.

Bakið við 110°C í 60 mínútur og leyfið marengsinum síðan að kólna inni í ofninum í að minnsta kosti klukkustund áður en fyllingin er sett í.

Fylling og skraut

 • 200 g mascarpone-ostur
 • 50 g flórsykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 300 ml rjómi
 • 250 g jarðarber
 • 2-3 ástaraldin
 • 40 g saxað suðusúkkulaði

Aðferð:

 1. Blandið mascarpone-osti, flórsykri og vanillusykri varlega saman í hrærivélarskál með þeytaranum.
 2. Hellið þá rjómanum saman við og þeytið á meiri hraða þar til blandan verður stíf eins og rjómi (varist að blanda of lengi).
 3. Sprautið á pavlovurnar og toppið með jarðarberjum, ástaraldini og söxuðu súkkulaði.
 4. Berið fallega fram og njótið.
Freyðivínið verður svo sumarlegt og fallegt með jarðarberjunum út í.
Freyðivínið verður svo sumarlegt og fallegt með jarðarberjunum út í. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
Pavlovurnar eru fallegar fyrir augað og dýrðlegar í sumarbúningi.
Pavlovurnar eru fallegar fyrir augað og dýrðlegar í sumarbúningi. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: