Fyrirhafnarlitla helgarpítsan sem má ekki gleymast

Hrökkbrauðspítsur eru sniðugar í kvöldmatinn um helgar.
Hrökkbrauðspítsur eru sniðugar í kvöldmatinn um helgar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hvernig væri að einfalda sér lífið og dusta rykið af gömlu góðu hrökkbrauðspítsunni sem allir elska eftir langa og krefjandi vinnuviku? Hrökkbrauðspítsur er ofur auðvelt og fljótlegt að matreiða. Þá eru þær ekki síður girnilegar og bragðgóðar og hráefniskostnaðurinn mun ódýrari en að hringja og panta heimsenda skyndipítsu.

Hægt er að leika sér með áleggstegundir á heimagerðar hrökkbrauðspítsur en hér er að finna skothelda uppskrift af fyrirhafnarlítilli og bragðgóðri helgarpítsu sem enga sælkera svíkur.

Fljótleg hrökkbrauðspítsa fyrir vandláta sælkera

Hráefni:

  • 4 stk. Leksands Knacke hrökkbrauðs þríhyrningar
  • Ólífuolía
  • Pítsusósa
  • Hráskinka
  • Sveppir
  • Rifinn ostur
  • Grænt pestó
  • Aioli hvítlauksdressing
  • Klettasalat
  • Furuhnetur

Aðferð:

  1. Þú byrjar á að raða þríhyrningunum á ofnplötu. Bleytir örlítið upp í þeim með ólífuolíu og smyrð svo pítsusósunni yfir. Því næst raðarðu álegginu á og sáldrar rifna ostinum yfir. 
  2. Að því loknu er hrökkbrauðspítsan sett inn í ofn og bökuð í miðjum ofni við 180° í um það bil 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað.
  3. Þegar pítsan er orðin bökuð er hún tekin út og nokkrum skeiðum af grænu pestó og aioli skellt víðs vegar á. Klettasalati og furuhnetum er svo stráð yfir og þá er pítsan loks orðin hin fullkomna helgarpítsa sem bragðlaukarnir munu þrá oftar en einu sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert