Humarpastað sem Eva elskar

Eva María er mikill matgæðingur, þá ekki bara í sætum …
Eva María er mikill matgæðingur, þá ekki bara í sætum kökum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er engin önnur en Eva María hjá Sætum syndum sem færir okkur þessa ómótstæðilegu uppskrift að humarpasta. Þeir sem þekkja til Evu Maríu vita að hún er einstakur heimakokkur sem elskar að sýsla í eldhúsinu. „Þessa uppskrift er ég búin að elda síðan ég byrjaði að búa árið 1998, hún hefur margoft verið gerð fyrir matarboð. Þetta pasta er dásamlegt, tekur smá tíma í framleiðslu en er svo sannarlega þess virði,“ segir Eva María.

Humarpastað sem Eva elskar

 • 500 g skelflettur humar
 • 500 g pasta – tagliatelle
 • 4 skalottulaukar
 • 4 hvítlauksrif
 • 1 rauður chilipipar
 • 6 tómatar
 • 1,5 dl hvítvín
 • sítróna
 • fersk steinselja
 • sítrónupipar
 • 250 g smjör
 • ólífuolía
 • salt og pipar
 • parmesanostur til að strá yfir í lokin

Aðferð:

 1. Byrjið á því að skera tómatana í báta, setjið í eldfast mót, hellið ólífuolíu yfir þannig að hún fljóti að hálfu yfir tómatana. Kryddið vel með salti, pipar og sítrónupipar. Bakið í ofni við 200 gráða hita og veltið tómötunum reglulega í olíunni þannig að þeir maukist.
 2. Smellið smjöri á pönnu og steikið humarinn. Skiljið smjörið frá og setjið humarinn til hliðar.
 3. Saxið lauk, hvítlauk og chili smátt og steikið í ólífuolíu ásamt klípu af smátt saxaðri steinselju.
 4. Hellið humarsmjörinu á pönnuna með skalottu/hvítlauks/chili-olíunni. Bætið við tómatamauki og hvítvíni og kreistið safann úr sítrónunni út í blönduna. Leyfið að malla á pönnunni á miðlungshita í nokkrar mínútur.
 5. Bætið humrinum við og látið malla í smástund á meðan hann er að hitna á ný.
 6. Pastað er soðið skv. leiðbeiningum, sett á fallegt fat eða í stóra skál. Humarblöndunni hellt yfir ásamt saxaðri ferskri steinselju.
 7. Mikilvægt er að bera fram nýrifinn parmesanost með pastanu og smá sjávarsalt yfir.
 8. Mæli með að bíða í 10 mínútur eftir að pastað er klárt með að njóta en meðan það kólnar smá verður bragðið enn dýpra og öll hráefnin njóta sín betur.
Humarpasta a la Eva María.
Humarpasta a la Eva María. mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is