Arabísk lambakjötssúpa fyrir marga svanga munna

Sigríður Björk Bragadóttir er snillingur að koma með rétti sem …
Sigríður Björk Bragadóttir er snillingur að koma með rétti sem koma bragðlaukunum á flug. Hér er dýrðleg arabísk lambakjötssúpa sem rífur í og á vel við á þessum árstíma. Samsett mynd

Sigríður Björk Bragadóttir matgæðingur og matreiðslumeistari, alla jafna kölluð Sirrý, hjá Salt Eldhúsi er snillingur í að koma með sælkerauppskriftir sem slá í gegn. Hér er hún með dýrðlega arabíska lambakjötssúpu sem rífur í og á vel við á þessum árstíma. Lambakjöt er mikið notað í arabalöndum og þá allskonar bitar og líka hakk. Nýlega höfum við getað fengið lambahakk í nokkrum búðum, en það er frábært hráefni því lambakjöt tekur vel við kryddi og gaman er að elda vel kryddaða rétti úr því.

„Hér er matarmikil súpuuppskrift fyrir marga svanga munna. Súpan er þykk og svolítið spennandi þannig, finnst mér að minnsta kosti, en hana má þynna með meira vatni og krafti ef vill. Ómissandi að setja lífræna jógúrt og líka ofan á þegar hún er borin fram,“ segir Sirrý.

Matarmikil arabísk lambakjötssúpa fyrir marga svanga munna.
Matarmikil arabísk lambakjötssúpa fyrir marga svanga munna. Ljósmynd/Sigríður Björk

Arabísk lambakjötssúpa

  • 2 msk. olía
  • 1 laukur, saxaður
  • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 350-500 g lambahakk (nautahakk er næstbesti kosturinn)
  • 7 tsk. heimagerð shawarma-kryddblanda  (sjá uppskrift hér að neðan)
  • eða 6 tsk. shawarma-kryddblanda + ½ tsk. kanill
  • 2 msk. tómatpúrra
  • 2 gulrætur, saxaðar frekar smátt
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 1 dós kjúklingabaunir, sigtaðar og skolaðar
  • 800 ml vatn
  • 1 msk. kjúklingakraftur eða 2 teningar
  • Frosið spínat 4-5 kögglar eða ferskt spínat 1 poki
  • 1 stk. 500 ml dós lífræn jógúrt

Aðferð:

  1. Byrjið á að taka spínat úr frysti ef þið notið frosið og látið þiðna á meðan þið lagið súpuna.
  2. Hitið olíu og steikið laukinn þar til hann fer að verða glær, bætið hvítlauk út í og steikið áfram þar til hann fer að ilma.
  3. Bætið nú lambahakkinu í pottinn og steikið áfram góða stund eða þar til það er brúnað. Nú fer shwarma-kryddblandan út í ásamt tómatpúrrunni og nú fer eldhúsið að ilma yndislega eins og eldhús í arabalöndum.
  4. Steikið þetta vel saman.
  5. Bætið nú gulrótum, tómötum, kjúklingabaunum, vatni, kjúklingakrafti út í og látið sjóða í 15 mínútur.
  6. Bætið þá spínati í og látið það sjóða vel saman við.
  7. Smakkið súpuna til með salti og pipar og e.t.v. kjúklingakrafti.
  8. Fyrir þá sem vilja chili er aleppo-pipar frábær viðbót eða bara venjulegar chiliflögur. 
  9. Berið súpuna fram með góðri slettu af jógúrt. 

Shawarma kryddblanda

  • 2 tsk. af eftirfarandi: kumminduft, paprikuduft og kóríanderduft
  • ½ tsk. kanill
  • ½ tsk. svartur pipar, malaður

Aðferð:

  1. Setjið kryddin saman í skál eða krukku og blandið öllu vel saman.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert