Hákon og Brynja hlutu „Sustainable Distillery of the Year“-verðlaunin í ár

Hákon Freyr Hovdenak og konan hans Brynja Hjaltalín, eigendur Hovdenak …
Hákon Freyr Hovdenak og konan hans Brynja Hjaltalín, eigendur Hovdenak Distillery eimingarhússins, hlutu „Sustainable Distillery of the Year“-verðlaunin í ár fyrir ginið sitt sem afhent voru í Lundúnum á dögunum. Samsett mynd

Hákon Freyr Hovdenak og konan hans Brynja Hjaltalín, eigendur Hovdenak Distillery eimingarhússins hlutu „Sustainable Distillery of the Year“-verðlaunin í ár fyrir ginið sitt.

„Þetta var svakalegt kvöld, fullt hús af áfengisiðnaðarhetjum og svo litlu við, sem tókum þessi glæsilegu verðlaun heim,“ segir Hákon sem er í skýjunum eftir viðurkenninguna.

Töfrarnir gerast í litla eimingarhúsinu

Í Hafnarfirðinum er að finna eimingarhúsið þeirra Hákonar og Brynju, Hovdenak, og má segja að þar gerist töfrarnir. Þar stundar Hákon iðju sínu af miklu kappi og er búinn að hasla sér völl á þessu sviði undanfarin ár. Vörur frá Hovdenak Distillery eru margverðlaunaðar um heim allan en nafnið er komið frá fjölskyldu Hákonar og á rætur að rekja til Molde í Noregi. Hákon rekur fyrirtækið ásamt eiginkonu sinni, Brynju.

„Við tókum ekki „Master Distillery of the Year“ en fengum „Highly accommodated“. Við vorum tilnefnd til tvennra verðlauna á þessari verðlaunahátíð:

  • Icons of Gin – sustainable distillery of the year
  • Icons of Gin – distiller of the year

Mikill heiður að fá þessu verðlaun

„Þetta er mikill heiður og hefur mikla þýðingu fyrir okkar litla eimingarhús hérna á Íslandi. Þetta er hluti af „World Drink Awards“-keppninni sem við höfum verið svo lánsöm að vinna gullverðlaun í fyrir þrjár af okkar mest seldu vörum, Stuðlaberg Gin, Loka Vodka og kaffi líkjörinn Rökkva,“ segir Hákon enn fremur.

Icons of Gin-verðlaunin eru aðeins frábrugðin vöruverðlaununum þar sem að aðeins einn vinnur þennan titil ár hvert. Það má jafnvel kalla þau „hall of fame“ fyrir áfengisframleiðendur.

Hjartnæm verðlaun

„Við vorum kölluð út til London á galakvöld hjá þeim sem gefa þessi verðlaun út þann 22. febrúar síðastliðinn þar sem við hlutum þessa viðurkenningu formlega. „Sustainable distillery of the year“ er okkur einstaklega hjartnæm verðlaun þar sem að við höfum unnið hart að því að reyna gera allt sem við getum til að minnka kolefnisspor okkar við framleiðslu vörunnar okkar. Við kolefnisjöfnum alla útkeyrslu á vörunni okkar og höfum skipt út öllu plasti yfir í pappír þar sem við komumst upp með að gera það. Rafmagn og kynding er að sjálfsögðu auðveld hér á landi, en við notum aftur á móti einungis hitaveituna við eimingu hjá okkur. Síðan erum við að vinna í því að fá léttara gler undir vörur svo fátt sé nefnt.“

Tilnefningin afrek fyrir mig persónulega

Aðspurður segir Hákon að þessi tilnefning/verðlaun ýti mikið undir og hjálpi þeim með erlendan markað. „Þar sem við erum loks byrjuð að vinna af fullum krafti eftir að covid hætti að hrjá heimsbyggðina. Gaman að segja frá því að við vorum fyrir stuttu að senda vörur til Mauritíusar, Madagaskar, Noregs, Bandaríkjanna og erum að vinna núna í Bretlandsmarkaði. „Distiller of the year“ er ákveðin afreks-tilnefning fyrir mig persónulega, ég hef lagt gríðarlega hart að mér, síðastliðið ár, við uppbyggingu eimingarverksmiðjunnar, en það sem stendur upp úr varðandi þessa tilnefningu er hönnunin og smíðin á tækjum sem ég hef unnið að fyrir okkur frá upphafi. Um er að ræða sjálfvirk eimingartæki, áfyllingar- og pökkunarvélar. Þetta er að sjálfsögðu gert með hjálp frá góðum vinum sem koma að verkinu á mismunandi hátt.“

Á hönnunina skuldlaust

Í augnablikinu eru Hákon og teymið hans að leggja lokahönd á hönnun og smíði á áfyllingarvél sem gefur þeim völ á að geta pakkað um 5.000.000 flaskna á ári. „Hönnunina á ég skuldlaust, Jón Ólafur hefur hjálpað okkur við suðuvinnu og Baldur Gíslason sem er mikill snillingur í forritun kemur að tölvumálum, því allt er þetta sjálfvirkt. Einnig má nefna tölvukerfi sem við Baldur erum að vinna að þessa dagana sem er sjálfvirkt skráningar- og birgðabókhald tengt við framleiðsluna hjá okkur, sem safnar gögnum frá framleiðsluferlinum frá byrjun til enda, það er að segja frá því að við vigtum krydd og jurtir í tank, eimum vöruna og þar til að henni er pakkað í flösku og komið fyrir á bretti. Fullkomið rekjanleikakerfi frá A-Ö,“ segir Hákon að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar.

Hákon Freyr Hovd­enak og eiginkona hans Brynja Hjaltalín unnu verðlaunin …
Hákon Freyr Hovd­enak og eiginkona hans Brynja Hjaltalín unnu verðlaunin Sustainable Distillery of the Year. Ljósmynd/Hákon Freyr Hovdenak
Ljósmynd/Hákon Freyr Hovdenak
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert