Hinn fullkomni biti fyrir sælkerann sem elskar „foie gras“

Hér er á ferðinni sælkerabiti af „foie gras“, nauta-carpaccio ásamt …
Hér er á ferðinni sælkerabiti af „foie gras“, nauta-carpaccio ásamt parmesanosti. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Hér er á ferðinni hinn sanni sælkerabiti sem flestir matgæðingar munu slefa yfir. einfaldur og fljótlegur smáréttur eða forréttur en hann er ekki fyrir alla þar sem um er að ræða blöndu af hráu kjöti og andakæfu, það er að segja biti af „foie gras“, nauta-carpaccio ásamt parmesanosti.

Forsagan að réttinum er sú að Hanna Thordarson keramiker og matgæðingur sem heldur út vefsíðunni Hanna.is fékk svona góðan forrétt á veitingastað erlendis.  Þegar heim kom var því næsta skref að reyna að búa til eitthvað sambærilegt.  Hér kemur afraksturinn hennar. Hanna mælir með því að rista súrdeigsbrauð og skera í litla bita fyrir þennan rétt en það má engu að síður líka nota venjulegt samlokubrauð ef vill.

Sælkerabitinn af „foie gras“, nauta-carpaccio og parmesanosti

  • Andakæfa, „foie gras“ eða sambærilegt
  • Carpaccio sneiðar, hægt að kaupa frosnar í mat- og kjötvöruverslunum
  • Parmesanostur, rifinn fínt
  • Smá sæta eins og t.d. sætir perubitar eða biti eða sneið af sultuðum engifer
  • Sneið af súrdeigsbrauði, ristuð
  • Pipar og salt eftir smekk
  • Nokkrir dropar af góðri olíu

Aðferð:

  1. Súrdeigsbrauðsneið ristuð á pönnu eða í grilli.
  2. Ef brauðið er orðið hart er hægt að spreyja sneiðina með smá vatni og setja hana svo á pönnuna. 
  3. Brauðsneiðin er skorin í hæfilega bita.
  4. Andakæfa smurð á hvern brauðbita og nokkrir bitar af sætum perubitum settir ofan á.
  5.  Smekksatriði hversu mikið magn er af kæfunni.
  6. Carpacciosneið lögð ofan á, ef bitinn er minni en sneiðin má alveg skipta carpacciosneiðinni í tvennt eða þrennt,  þetta er allt smekksatriði.
  7. Gott að setja nokkra dropa af olíu yfir.
  8. Parmesanostur rifinn yfir og piprað og saltað aðeins eftir smekk.
  9. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert