Gamla góða rúgbrauðstertan sem steinliggur

Rúgbrauðstertan gamla góða mætt til leiks og uppskriftin var birt …
Rúgbrauðstertan gamla góða mætt til leiks og uppskriftin var birt fyrst í Morgunblaðinu árið 1967, hvorki meira né minna. Ljósmynd/Ingunn Mjöll

Þessi uppskrift að rúgbrauðtertu birtist í Morgunblaðinu þann 10. desember árið 1967 hvorki meira né minna. Ingunn Mjöll Sigurðardóttir sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll fann þessa nostalgíu uppskrift og kolféll fyrir tertunni.

„Ég hafði oft heyrt um minnst á blessuðu rúgbrauðstertuna en aldrei smakkað hana þar til sumarið árið 2020 á ferðalagi mínu um landið en það var á glænýju kaffihúsi á Hafnarhólmanum Borgarfirði Eystri að ég settist niður og fékk mér kaffi og sneið af þessari frægu Rúgbrauðstertu og ég varð ekki fyrir vonbrigðum, síður en svo,“ segir Ingunn.

Úr varð að Ingunn fór að grúska og leita uppskriftina uppi og fann hana svo loks í Morgunblaðinu, hvar annars staðar. Hér má sjá greinina.

Rúgbrauðsterta

  • 4 stk. egg
  • 200 g sykur
  • 125 g rúgbrauð
  • 1 msk. kartöflumjöl
  • 60 g hveiti
  • 1 ½ tsk. lyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið eggjarauður þeyttar ásamt sykrinum.
  2. Blandið síðan saman öllum þurrefnunum saman við rifið rúgbrauðið.
  3. Þeytið eggjahvíturnar og setjið síðan saman við.
  4. Einnig má þeyta eggin heil ef vill.
  5. Látið síðan í 2 miðlungsstór tertumót og setið inn í ofn við 200°C hita.
  6. Bakið í 10 til 15 mínútur.

Fylling:

  • 1-2 bananar
  • 3 stk. rifin epli
  • Safi úr ½ sítrónu
  • 50 g rifið súkkulaði
  • 2 dl þeyttur rjómi

Skreyting:

  • 3 dl þeyttur rjómi og súkkulaðiplötur eða konfektmolar eftir smekk

 Aðferð:

  1. Rifin epli, bananar skornir í bita og sítrónusafi set saman í skál ásamt rifna súkkulaðinu og hrærið vel saman.
  2. Setjið síðan blönduna saman við þeytta rjómann. 

Samsetning:

  1. Setjið einn botn á kökudisk eða bakka og smyrjið fyllinguna ofan á.
  2. Setjið síðan hinn botninn ofan á.
  3. Skreytið að vild með þeyttum rjóma, súkkulaði eða konfekt eftir smekk.
  4. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert