Salat vikunnar ómótstæðilegt andasalat með appelsínusósu

Ómótstæðilegt andasalat borið fram með hnetublöndu og appelsínusósu.
Ómótstæðilegt andasalat borið fram með hnetublöndu og appelsínusósu. Ljósmynd/Jón K. B. Sigfússon

Hið ómótstæðilega andasalat Vínstofunnar er salat vikunnar á matarvefnum og líka það fyrsta til að hljóta titilinn „Salat vikunnar“. Salat vikunnar verður framvegis fastur liður á matarvefnum og verður valið úr þeim salatuppskriftum sem birtast á matarvefnum og undirrituð verður búin að útbúa og smakka. Andasalat Vínstofunnar er bæði ferskt og létt og þessi appelsínusósa sem borin er fram með andasalatinu er unaðslega góð, hreinir töfrar og sú einfaldasta í heimi. Ég myndi vilja kalla hana leynisósu Vínstofunnar á Friðheimum.

Maður­inn bak við töfr­ana í eld­hús­inu, Jón K. B. Sig­fús­son, ljóstr­aði upp leyndarmálinu bak við andasalatið á dögunum hér á matarvefnum en salatið er nýtt á mat­seðli Vínstofunnar.  Nú er bara að prófa þetta dýrðlega sal­at sem boðar vorið og sól­ina og töfra matargestina upp úr skónum.

Andasalat Vínstofunnar

Fyrir 1-2

  • Andabringur, 5-6 sneiðar (100 g )
  • Trönuber og döðlur eftir smekk
  • Ferskt basil, gróf saxað
  • Piccolo tómatar ,skornir í tvennt
  • Mozzarella perlur eftir smekk
  • Mandarínur eða appelsínu, skornar í teninga
  • Granateplafræ
  • Bláber eftir smekk
  • Spírur eftir smekk

Hnetublanda

  • Pekanhnetur eftir smekk
  • Furuhnetur eftir smekk
  • Möndlur eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°C hita.
  2. Brúnið andabringuna á pönnu og kryddið með salti og pipar eftir smekk.
  3. Rífið appelsínubörk yfir og klárið að elda öndina í ofni í 15 mínútur við 150 °C hita. 
  4. Hægt að bera öndina fram volga eða kalda, fer eftir smekk hvers og eins og aðstöðu að hverju sinni.
  5. Ristið hnetublönduna á pönnu með smá salti og trönuberjum og bætið síðan döðlum út í heita blönduna.
  6. Setjið síðan saman salatið að vild.

Köld appelsínusósa

  • Appelsínuþykkni (Egils)
  • Ólífuolía
  • Dijonsinnep með sinnepsfræjum
Aðferð:
  1. Setjið jöfn hlutföll af hráefninu í skál, t.d. einn dl. af hverju.
  2. Hrærið og blandið vel saman.
  3. Út í sósuna má setja andafituna sem verður eftir á pönnunni ef vill.
  4. Berið salatið fram með appelsínusósunni og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert