Páskaleg sítrónu- og mangóískaka

Hressandi og ljúffeng sítrónu- og mangókaka með páskaívafi.
Hressandi og ljúffeng sítrónu- og mangókaka með páskaívafi. Ljósmynd/Jana

Hér er á ferðinni dásamlega fersk og bragðgóð ískaka sem er líka oft kölluð hrákaka. Uppskriftin kemur úr smiðju Kristjönu Steingrímsdóttur, alla jafna kölluð Jana, heilsumarkþjálfa. Þetta er hressandi og góð páskakaka sem gaman er að bjóða upp á í eftirrétt eða jafnvel með páskabrönsinum. Vert er þó að hafa í huga að gera kökuna daginn fyrir notkun þar sem það þarf að frysta hana yfir nótt. Hægt er að fylgja Jönu á Instagram-síðu hennar hér.

Ljúffeng í eftirrétt eða með brönsinum.
Ljúffeng í eftirrétt eða með brönsinum. Ljósmynd/Jana

Sítrónu- og mangóískaka

Botninn

  • 1 bolli möndlumjöl
  • ½ bolli valhnetur
  • ½ bolli kókosmjöl
  • 2 bollar döðlur steinlausar
  • 1 tsk. vatn
  • Börkur af einni lífrænni appelsínu

Aðferð:

  • Blandið öllu vel saman í matvinnsluvél þar til blandan er orðin að klístruðu deigi.
  • Pressið niður í bökunarform (Jana setur filmu undir svo auðveldara sá að ná botninum upp úr forminu).
  • Frystið meðan þið gerið kremið.

Sítrónu- og mangókrem

  • 100 g kasjúhnetur í bleyti í um klukkustund (hellið svo vatninu af)
  • ½ bolli vanillu- og kókos hafrajógúrt frá Veru
  • 100 g mangó frosið eða ferskt
  • 4 msk. sítrónu safi
  • 2 msk. sítrónubörkur
  • 3 msk. fljótandi kókosolía
  • 50 ml hlynsíróp eða sæta af eigi vali

Aðferð:

  1. Blandið öllu vel saman í matvinnsluvél þar til þetta er orðið flauelsmjúk krem og hellið yfir botninn.
  2. Frystið yfir nótt.
  3. Skreytið með ristuðum kókosflögum og jafnvel ferskum blönduðum berjum að eigin vali.
  4. Sniðugt að skera í passlega sneiðar og frysta þannig og geta tekið út hæfilegt magn hverju sinni. 
Holl og góð og ferskleikinn fær að njóta sín.
Holl og góð og ferskleikinn fær að njóta sín. Ljósmynd/Jana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert