Ekta gulrótarkaka í eftirrétt á páskadag

Anna Marín Bentsdóttir ætlar að bjóða upp á ekta gulrótarköku …
Anna Marín Bentsdóttir ætlar að bjóða upp á ekta gulrótarköku um páskana. Ljósmynd/Bent Marinósson

Anna Marín Bentsdóttir er 21 árs gömul og mikill ástríðubakari og sér um nýja kaffihúsið hjá Kokku á Laugaveginum. Hún elskar bakstur og hefur verið að baka alveg síðan hún man eftir sér. Hún elskar líka páskana og finnst margt heillandi við þá, sérstaklega vorboðinn sem þeim fylgir og síðan baksturinn. Hún ætlar að baka dýrindis gulrótarköku á páskunum til að bjóða upp á í eftirrétt á páskadag.

Gullfalleg gulrótarkaka, svo fagurlega skreytt hjá Önnu Marín.
Gullfalleg gulrótarkaka, svo fagurlega skreytt hjá Önnu Marín. Ljósmynd/Bent Marinósson

Kemur ávallt með páskaeftirréttinn

„Ég hef alltaf elskað páskana, maður byrjar að finna fyrir vorinu í loftinu og að sumarið sé að koma. Þegar ég var yngri voru páskarnir ein af uppáhaldshátíðunum mínum.  Ég var oft að prófa mig áfram í eldhúsinu með að baka allskonar mismunandi kræsingar. Það er alltaf ótrúlega gaman að baka fyrir páskana, í dag sé ég ávallt um að koma með páskaeftirréttinn.  Ég reyni gjarnan að breyta til á hverju ári, ég baka oft eitthvað úr marens en ég og fjölskyldan mín erum líka mjög hrifin af gulrótaköku. Að mínu mati er gulrótarkaka ekta páskaeftirréttur, annaðhvort sem eftirréttur eftir páskamáltíðina, með páskabrönsinum eða til hátíðabrigða með kaffinu,“ segir Anna Marín.

Söfnuðu páskaungunum á páskaeggjunum

Anna Marín skreytir aðeins fyrir páskana en áður fyrr var hún iðin við að föndra. „Ég föndraði oft þegar ég var yngri og fannst það mjög gaman. Við söfnuðum alltaf páskaungunum ofan af páskaeggjum frá árunum fyrr og settum þá inn í eggjaskurn sem við söfnuðum fyrir páskana og það var rosa sæt skraut. Svo perlaði ég oft lítil páskaegg og við dreifðu þeim um húsið,“ segir Anna Marín og brosir. Síðan eru það páskaeggin sem freista, Önnu Marín finnst engri páskar vera án páskaeggja. „Ég fæ mér vanalega Nóa Síríus egg með saltkaramellu kurli, pabbi fær sér ávallt klassískt Nóa Síríus egg og mömmu finnst gaman að prófa eitthvað nýtt og fær sér stundum egg með lakkrís, hrauni, eða bara klassískt.“

Hver er eftirminnilegasit málshátturinn sem þú hefur fengið?

„Ég alveg elska að fá málshættina í páskaegginu, á seinasta ári fékk ég einn mjög eftirminnilegan: „Njóttu sólarinnar og skuggarnir falla á bak við þig”. Þessi er uppáhalds.“

Áttu einhverjar minningu úr bernsku sem tengist páskunum sterkt?

„Við höfum vanalega páskaeggjaleit á hverjum páskum. Eitt sinn í leitinni að páskaeggjunum faldi mamma þau svo vel og gerði jafnframt mjög skemmtilegar vísbendingar sem voru reyndar svo erfiðar að ég og bróðir minn ætluðum aldrei að finna eggin. Við fórum á alla mögulega staði inn í íbúðinni okkar og fundum eggin hvergi, síðan vísaði ein vísbendingin okkur út í fjöru sem var rétt fyrir neðan húsið okkar og svo fundum við aðra vísbendingu sem leiddi okkur til baka og þá fundum við loksins páskaeggin okkar í stóru furutré fyrir neðan húsið okkar. Ég hef sjaldan verið jafn spennt að sjá páskaegg eins og þá, en við fórum svo inn í framhaldinu og ég sast niður sæl og glöð og borðaði páskaeggið mitt með góðri lyst.“

Kaka er stílhrein og fáguð og litlu gulræturnar úr sykurmassanum …
Kaka er stílhrein og fáguð og litlu gulræturnar úr sykurmassanum sóma sér vel. Ljósmynd/Bent Marinósson

Fullkomin fyrir páskana

Á páskadag mun Anna Marín sjá um eftirréttinn eins og hefð er orðin fyrir og að þessu sinni ætlar hún að bjóða upp á gulrótarköku að bestu gerð. „Ég hef ávallt elskað gulrótaköku og þessi uppskrift er algjört æði, fullkomin fyrir páskana að mínu mati. Hún er ekki allt of sæt þannig að maður yfirhlaðið sig ekki með að borða hana ásamt fullt af páskaeggjum,“ segir Anna Marín sem er farin að hlakka mikið til að páskana.

Ljósmynd/Bent Marinósson

Gulrótarkaka

Fyrir 6-8 manns

Kökubotnar

 • 300 g hveiti
 • 1 ½ tsk. lyftiduft
 • ¾ tsk. matarsódi
 • ½ tsk. salt
 • 2 tsk. kanill
 • 2 tsk. engifer
 • ½ tsk. múskat
 • 260 g púðursykur
 • Börkur af 1 appelsínu
 • 3 egg
 • 300 ml olía
 • 300 g rifnar gulrætur
 • 150 g saxaða valhnetur

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 170°C hita og smyrjið 2 kökuform í sömu stærð með olíu og klippið út bökunarpappír í hring fyrir botninn á forminu.
 2. Í lítilli skál blandið saman hveiti, lyftiduft, matarsódi, salt, engifer dufti og kanil og leggið til hliðar.
 3. Hrærið saman púðursykur, appelsínubörk, egg og olíu í stórri skál.
 4. Bætið síðan þurrefnunum við og hrærið vel saman, svo er gulrótunum og valhnetunum bætt við og hrærið vel.
 5. Skiptið deiginu jafnt á milli tveggja kökuforma og bakið í 30-40 mínútur í ofninum við 170°C hita.
 6. Leyfið kökunum á kólna í smá stund og takið þær síðan úr formunum, fjarlægið bökunarpappírinn af botninum og leyfið kökunum að kólna alveg.
 7. Þegar þær hafa kólnað alveg, skerið þá toppinn af kökunum þannig þær eru flatar ofan á.

Krem

 • 150 g smjör við stofuhita
 • 225 g rjómaostur við stofuhita
 • 450 g flórsykur
 • 1 tsk. sítrónusafi
 • 1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

 1. Þeytið saman smjör og flórsykur varlega saman í hrærivél, passa skal að flórsykurinn þeytist ekki upp úr skálinni.
 2. Þeytið í um það bil 3-5 mínútur.
 3. Setjið síðan sítrónusafann, vanilludropana og rjómaostinum út í og hrærið vel saman saman (gott er að setja rjómaostinn smátt og smátt í hræriskálina meðan þeytarinn er að vinna en passa að heildartíminn sé ekki meiri en c.a. 1-2 mínútur.).
 4. Setjið kremið í sprautupoka með hringlóttum stút og leggið til hliðar.

Samsetning á kökunni

 1. Takið einn kökubotninn og setjið á kökudisk, sprautið doppur af kreminu allan hringinn með fram kantinum og fyllið miðjuna með meira kremi og setjið síðan hina hæðina ofan á.
 2. Sprautið kremi ofan á kökuna og fletjið það út í hring, dreifið svo söxuðum valhnetum með fram kantinum og skreytið með gulróta skrauti, gulræturnar hér gerði Anna Marín úr sykurmassa.
 3. Kælið kökuna inn í kæli í að minnsta kosti 30 mínútur áður en þið berið hana fram og skerið hana síðan og njótið.
 4. Skreytingin er auðvitað frjáls en hér er það sem Anna Marín gerði, gullfallega skreytt gulrótarkaka sem sómir sér vel á hvaða páskaborði sem er.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert