Ungstirnið fékk langtímasamning

Jayden Danns fagnar eftir að hafa skorað gegn Southampton í …
Jayden Danns fagnar eftir að hafa skorað gegn Southampton í bikarnum. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnufélagið Liverpool tilkynnti í dag að skrifað hefði  verið undir langtímasamning við Jayden Danns.

Hann varð 18 ára gamall í janúar en hefur slegið í gegn með liði Liverpool síðustu vikurnar. Í síðasta mánuði spilaði Danns sinn fyrsta úrvalsdeildarleik þegar hann kom inn á í leik gegn Luton. Hann lék úrslitaleik deildabikarsins gegn Chelsea, þar sem Liverpool varð deildabikarmeistari, og skoraði síðan tvö mörk í sigri Liverpool á Southampton í bikarkeppninni.

Danns hefur verið í röðum Liverpool frá átta ára aldri. Hann á að baki níu leiki með yngri landsliðum Englands.

Danns kemur úr íþróttafjölskyldu. Neil Danns faðir hans lék 582 deildaleiki á ferlinum, spilaði með Blackburn og Birmingham í úrvalsdeildinni og lék 25 landsleiki fyrir Guyana, ásamt því að vera spilandi knattspyrnustjóri Macclesfield um skeið.

Afi hans, sem einnig heitir Neil Danns, vann Evrópumeistaratitil á hjólabretti ásamt því að vera í bakraddasveit Bretlands í Eurovision árið 1987.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert