Ten Hag: Sumir leikir stærri en aðrir

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP/Paul Ellis

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hlakkar til stórleiks liðsins gegn Liverpool í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudag.

„Sumir leikir eru stærri en aðrir, ég tel Manchester United gegn Liverpool ávallt vera stóran leik. Ég hlakka til hans.

Stuðningsmennirnir líta á þetta sem stórleik og vilja gjarna að við vinnum. Það verða fleiri stuðningsmenn Liverpool á vellinum en venjulega og því þurfa stuðningsmenn okkar að láta vel í sér heyra,“ sagði ten Hag á fréttamannafundi í dag.

Þurfum að vera upp á okkar besta

Alls verða 9.000 stuðningsmenn Liverpool á Old Trafford á sunnudag, sem er öllu fleiri miðar en þeir fá á leiki liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

„Í svona leikjum spilum við alltaf vel. Mér finnst við ekki hafa staðið okkur illa í neinum af stærstu leikjunum.

Þeir eru mjög stöðugir. Við þurfum að vera upp á okkar besta til þess að vinna þá,“ bætti hollenski stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert