Falið að finna arftaka Klopps

Richard Hughes ásamt Andoni Iraola, knattspyrnustjóra Bournemouth.
Richard Hughes ásamt Andoni Iraola, knattspyrnustjóra Bournemouth. Ljósmynd/afcb.co.uk

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur ráðið Skotann Richard Hughes í starf íþróttastjóra frá og með næsta sumri.

Hughes starfar sem tæknilegur stjóri hjá Bournemouth en lætur af störfum hjá félaginu í sumar. Hann hafði verið sterklega orðaður við svipað starf hjá Liverpool, sem hefur nú staðfest tíðindin.

Þó Hughes, sem er 44 gamall, hefjist ekki handa hjá nýju félagi fyrr en í sumar kemur það í verkahring hans að hafa umsjón með leit og ráðningu á nýjum knattspyrnustjóra karlaliðsins, en Jürgen Klopp lætur af störfum að tímabilinu loknu eftir tæplega níu ára starf.

Vinnur með forvera sínum

Mun hann vinna náið með Michael Edwards, sem var áður íþróttastjóri Liverpool og var á dögunum ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá FSG, bandaríska fyrirtækinu sem á félagið.

Sem leikmaður lék Hughes með Hermanni Hreiðarssyni hjá Portsmouth um fjögurra ára skeið auk þess að spila með Bournemouth.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert