Bætir skaða forsetans

Magnús Orri Schram.
Magnús Orri Schram. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Íslenskir þingmenn á fundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg hafa fræðst um viðbrögð Evrópuríkjanna við kreppunni en efnahagsmálinu eru þar í brennidepli. Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingar, kveðst hafa gert sitt til að skýra að Íslendingar ætli að standa við Icesave-skuldbindingar sínar.

Magnús Orri áréttar að hann eigi hér við lágmarksskuldbindinguna sem sé rétt rúmlega 20.000 evrur á hverja innistæðu, sem sé í anda þess samkomulags sem stjórnmálaflokkarnir hafi náð á Íslandi.

Evrópskir þingmenn haldi margir að Íslendingar ætli ekki að standa við Icesave-skuldbindingar sínar, sjónarmið sem ræða forsetans eftir synjunina 5. janúar hafi ýtt undir. 

Með Magnúsi Orra í för eru þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Vinstri grænum, og Eygló Harðardóttir, Framsóknarflokki.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir lét sem kunnugt er af þingmennsku skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí og tekur Magnús Orri sæti hennar að þessu sinni í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

„Við erum til dæmis að fræðast um áhrif efnahagsþrenginganna á lýðræði og stöðu lýðræðisins í Evrópu. Það er það sem er hvað áhugaverðast hér,“ segir Magnús Orri sem bætir því við að evrópskum þingmönnum þyki þróunin á Íslandi afar áhugaverð.

Ísland komið lengra

„Þessir hlutir sem við erum að ganga í gegnum eru einstakir. Þá á ég ekki aðeins við hrunið sjálft heldur líka eftirmál þess, skýrsluna stóru og dóminn á miðvikudaginn. Svoleiðis mætti lengi telja. Ég held að það sé engin spurning að við erum komin miklu lengra í ferlinu en margir aðrir.

Þessar stóru Evrópuþjóðir tóku tap bankanna að miklu leyti á sig á meðan við náðum að koma tapinu til útlanda. Þær eru smátt og smátt að gera sér grein fyrir stöðunni. Þær eru komnar skemmra á veg í endurskipulagningu ríkisfjármála en við Íslendingar. Að því leyti erum við snemma í bylgjunni en vissulega var áfallið hlutfallslega miklu stærra hjá okkur.“

Að sögn Magnúsar Orra koma þingmennirnir frá 50 Evrópulöndum enda séu samtökin stærri en Evrópusambandið, sem hefur 27 aðildarríki.

Lítill hljómgrunnur fyrir Icesave-umræðu

En telur Magnús Orri að orðspor Íslands hafi beðið hnekki vegna hrunsins?

„Já. Það held ég að sé engin spurning. Ég finn til dæmis ekki mikinn hljómgrunn fyrir einhvers konar Icesave-umræðu hér. Hérna úti telur fólk að við ætlum ekki að standast lágmarksskuldbindinguna. Þótt við höfum samþykki allra flokka fyrir því virðist fólk ekki átta sig á því hérna úti að það sé það sem við erum tala um.“

- Þannig að þínu mati hefur ekki tekist að koma á framfæri hver afstaða Íslendinga er?

„Já. Það tel ég. Ég held að aðgerðir forsetans hafi skipt miklu máli þar. Hans fyrstu viðbrögð voru með þeim hætti að það mátti skilja af orðum hans, fyrst þegar hann talaði, að hann vildi ekki að Íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar.“

- Þú telur að það hafi valdið skaða?

Hálfrar aldar gömul samtök

„Já. Það er engin spurning,“ segir Magnús Orri sem lýkur lofsorði á Evrópuráðsþingið.

„Þetta eru 50 ára gömul samtök sem lögðu til dæmis grunninn að Efnahags- og framfarastofnunni og Mannréttindadómstólnum. Þetta eru stórmerk samtök. Þingmenn skiptast hér á skoðunum og hugmyndum um hvað mætti betur fara hjá okkur og í Evrópu. Það sem við erum languppteknust af eru að sjálfsögðu efnahagsmálin eins og gefur að skilja.“

- Eru svona ferðir gagnlegar?

„Já. Maður reynir að nýta þær sem allra best. Ég sat til dæmis með norskum kollegum mínum hér í gær þar sem við fórum yfir aðgerðir þeirra í efnahagsmálum og hvernig þeir eru að taka á löggjöf um fjármálamarkaði. Maður sækir þekkingu og samanburð á því sem er að gerast erlendis.“

Gista aðeins á þriggja stjörnu hóteli

Magnús Orri tekur jafnframt sérstaklega fram að þingmennirnir sýni aðhald í ferðinni. Utanferðum þingmanna hafi fækkað mikið eftir hrunið.

En hvernig kemur þessi sparnaður Alþingis fram?

„Við erum að sækja svona fundi í miklu minna mæli en áður. Erlend starfsemi á vegum þingsins er miklu minni en hún var fyrir hrunið og hérna er ekki verið að vaða í neinum dagpeningum. Ég held, til dæmis, að ég komi út í mínus úr þessu ferðalagi.

Hér erum við ekki að gista á fínum hótelum eða sitjandi í leigubílum allan tímann. Hér ferðast ég fram og til baka í strætó og er bara á litlu hóteli sem er þriggja stjörnu hótel. Það er engin íburður,“ segir Magnús Orri en þingmennirnir verða ytra í fjóra daga.

mbl.is