„Stjúpmamma mín á stóran þátt í þessu og var rosalega góður stuðningur“

Sigurður Már Atlason er fjölhæfur ungur maður og búinn að …
Sigurður Már Atlason er fjölhæfur ungur maður og búinn að sigra dansgólfið oftar en einu sinni. Hann starfar sem forritari hjá Sjóvá og sinnir námi í húsasmíðum hjá Tækniskólanum í Reykjavík. Samsett mynd

Sigurði Má Atlasyni er margt til lista lagt. Hann leggur hart að sér í einu og öllu og skorast aldrei undan áskorun. Hann starfar sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Sjóvá og er þekktur fyrir einstaka hæfileika á dansgólfinu, enda sigraði hann seríu tvö af Allir geta dansað, ásamt dansfélaga sínum Völu Eiríksdóttur og hefur einnig unnið óteljandi meistaratitla bæði hérlendis og erlendis. 

Þessa dagana er hann á fullu að ljúka við nám í húsasmíði frá Tækniskólanum í Reykjavík, sem hann skellti sér í þegar kórónuveiran stóð sem hæst. Hvernig ætli þessi ólíka þrenna vinni saman: tölvurnar, dansinn og smíðarnar? 

„Ég var alls ekki góður í að ná sporum“

Stjúpmamma Sigurðar er Auður Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Dansíþróttafélags Hafnarfjarðar og danskennari. Hún hefur kennt samkvæmisdansa í yfir 40 ár og er vel þekkt í íslenska danssamfélaginu. Sigurður er á því að hún hafi átt stóran þátt í því að hann hafi verið sendur á sína fyrstu dansæfingu. 

„Stjúpmamma mín á stóran þátt í þessu og var rosalega góður stuðningur. Mig grunar nú einnig að hún hafi átt stóran þátt í því að ég var sendur á fyrstu dansæfinguna mína. Í minningunni hafði ég ekkert rosalega gaman af dansi, þegar ég var í barnadansi og að taka mín fyrstu skref. Þetta var langt út fyrir þægindarammann og ég var alls ekki góður í samhæfingu eða að ná sporum og þess háttar. 

Sigurður ásamt stjúpömmu sinni og danskennara, Auði Haraldsdóttur og fyrrverandi …
Sigurður ásamt stjúpömmu sinni og danskennara, Auði Haraldsdóttur og fyrrverandi dansdömu Söru Rós á stórri danskeppni í Lundúnum árið 2003. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Þegar ég var farinn að æfa hefðbundinn samkvæmisdans og farinn að keppa, þá fyrst fannst mér ég finna fyrir áhuga sem stórjókst um leið og ég fór að ná árangri í keppnum,“ segir Sigurður.

Aðeins strítt í byrjun ferilsins

Sigurði var aðeins strítt af jafnöldrum sínum fyrir dansástríðuna í byrjun ferilsins og þá aðallega af strákum sem skildu ekki áhugamálið. Hann var þó öflugur karakter og það strax á grunnskólaárunum og með gott bakland bæði fjölskyldu og vina. Þau studdu óhrædd við bakið á honum og þar af leiðandi hafði þetta ekki mikil áhrif á hann og fékk hann bara til þess að leggja meira á sig í dansinum.

„Um leið og ég byrjaði að standa mig og vinna keppnir hætti þetta og ég fann þá meira fyrir því að krökkum fannst þetta áhugavert og spennandi. Ég fór í Víkurskóla í 5. bekk og þar voru þau mjög dugleg að fagna með mér þegar gekk vel. Þau fengu mig meira að segja til þess að mæta með bikara í skólann frá stórmótum svo samnemendur mínir gætu fengið að skoða þá og fagna með mér,“ bætir Sigurður við.

Sigurður með ótal verðlaunagripi sem hann vann ásamt dansfélaga sínum …
Sigurður með ótal verðlaunagripi sem hann vann ásamt dansfélaga sínum á International Championsships í Lundúnum, sem er eitt stærsta dansmót fyrir börn í heiminum. Sigurður ásamt dansfélaga sínum náði 2. sæti í Latin-dönsum. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Afi mætti á allar keppnir

Sigurður var mjög farsæll á keppnisferli sínum í samkvæmisdönsum og ferðaðist víða um heim, keppti á Evrópu- og heimsmeistaramótum, var meðlimur í íslenska landsliðinu, hlaut titilinn „dansari ársins, fimm sinnum ásamt dansfélaga sínum og vann 27 Íslandsmeistaratitla svo eitthvað sé nefnt.   

Það komu þó tímabil þar sem áhuginn hrundi en óbilandi stuðningur fjölskyldunnar og metnaður Sigurðar héldu honum gangandi, eða dansandi réttara sagt, áfram á réttu brautinni. „Stjúpmamma mín á stóran þátt í þessu og var rosalega góður stuðningur og dreif mig áfram ásamt pabba og mömmu. Afi minn var einnig mikill stuðningsmaður í dansinum og mætti á allar keppnir og var duglegur að skutla mér á æfingar eða á milli staða. 

Sigurður sést hér ásamt afa sínum Sigurði Hólm Guðmundssyni. Hann …
Sigurður sést hér ásamt afa sínum Sigurði Hólm Guðmundssyni. Hann var hans helsti stuðningsmaður í einu og öllu. Sigurður Hólm lést í fyrra. Á myndinni má einnig sjá Söru Rós Jakobsdóttur dansfélaga Sigurðar til 15 ára. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Metnaðurinn kom samt líka frá sjálfum mér. Ég er mikill keppnismaður að eðlisfari. Danskennararnir mínir voru líka frábærir þegar kom að því að ýta manni áleiðis og hvetja mann til að standa sig betur og æfa meira. Fjölskyldan var dugleg að hvetja mig áfram og er ég mjög þakklátur fyrir það í dag.“

Dansaði á toppinn í seríu 2

Allir geta dansað var íslenskur dansþáttur þar sem þekktir Íslendingar reyndu á danshæfni sína á móti atvinnudönsurum. Tvær þáttaraðir voru framleiddar af RVK Studios og sýndar á Stöð 2, 2018 og 2019. Sigurður var atvinnudansari í báðum þáttaröðum og sinnti hlutverki sínu af stakri prýði en var þó alls ekki viss með þátttöku. 

„Ég man að framleiðsluteymið hjá RVK Studios hringdi í mig þegar ég var í vinnunni og sagði mér frá hugmyndinni og þau óskuðu eftir því að ég tæki þátt í þessu verkefni með þeim. Í gegnum tíðina hefur mér alltaf þótt skemmtilegast að keppa og æfa fyrir keppnir og var ég frekar lokaður þegar kom að verkefnum á við þetta, sem tóku mig út fyrir þann þægindaramma. 

Ég hringdi í pabba, stjúpmömmu mína, afa og danskennarann minn og var á fullu að vega og meta hvað ég ætti eiginlega að gera. Þau voru öll á því að þetta væri tækifæri sem ég fengi líklega ekki aftur og að ég ætti að kýla á þetta, sem ég svo gerði.“

Sigurður ásamt Eyjólfi Kristjánssyni og Haffa Haff baksviðs við upptökur …
Sigurður ásamt Eyjólfi Kristjánssyni og Haffa Haff baksviðs við upptökur á Allir geta dansað seríu 2. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Sér sko ekki eftir ákvörðuninni

Sigurður sér ekki eftir ákvörðuninni í dag og segir þetta eitt það skemmtilegasta sem hann hafi gert. „Ég kynntist frábæru fólki, bæði sem starfaði í kringum þættina og svo þátttakendum sem voru með alls kyns bakgrunn. Maður eyddi sömuleiðis miklum tíma með dönsurunum sem maður hafði regulega keppt á móti og þekkt frá því að maður var lítill gutti.

Ég var líka heppinn með dansfélaga í þessum tveimur seríum og voru þær mjög ólíkir persónuleikar en báðar með mjög mikinn metnað. Þær stóðu sig eins og hetjur og stigu ekki eitt feilspor í beinni útsendingu.“ Sigurður dansaði við Lóu Pind Aldísardóttur fjölmiðlakonu í fyrstu seríu og voru þau fimmta parið sem féll úr keppni en hann endurtók leikinn með Völu Eiríksdóttur útvarpskonu í annarri seríu og fóru þau alla leið og hrepptu bikarinn í úrslitaþættinum.

Sigurður ásamt Lóu Pind Aldísardóttur á dansæfingu.
Sigurður ásamt Lóu Pind Aldísardóttur á dansæfingu. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Sigurinn var sætur

Sigurður og Vala voru í úrslitum ásamt fríðu föruneyti en stóðu uppi sem sigurvegarar eftir símakosningu þjóðarinnar. „Það var í raun ólýsanlegt að vinna. Auðvitað er það alltaf markmið í öllum keppnum að reyna að vinna og var það markmiðið hjá mér alla vega í báðum seríunum. Í seinni keppninni ákvað ég samt bara að reyna að hafa gaman og stefna á að komast í úrslit og að allt ofan á það væri bara plús. Ég var þó samt að vonast eftir sigri. 

Þegar við komumst svo í úrslit breyttust áherslurnar og við gáfum allt í botn. Við ákváðum samt bara að þessi úrslitaþáttur ætti fyrst og fremst að vera skemmtilegur og að við myndum njóta þessarar síðustu viku. 

Ég lagði mikinn metnað í úrslitadansinn okkar, í samsetningu á sporum, umgjörð og heildarútlit. Ég setti þar að auki „extra-pressu“ á Völu, þegar kom að flóknum sporum og þess háttar, að hennar ósk. Þetta skilaði sér greinilega hjá okkur og hefði ég ekki viljað breyta neinu.“

Sigurður kæmi hlaupandi aftur á dansgólfið sem atvinnudansari fyrir Allir geta dansað, seríu 3, það er ef hann fengi grænt ljós frá vinnunni. „Ég vona að það verði gerð ný sería, fyrr en seinna,“ segir Sigurður sem útilokar ekki þann möguleika að birtast á skjám landsmanna á ný.

Sigurður ásamt Völu Eiríksdóttur en saman sigruðu þau seríu 2 …
Sigurður ásamt Völu Eiríksdóttur en saman sigruðu þau seríu 2 af Allir geta dansað. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

„Kunni varla að hengja upp mynd“

Þó flestallt leiki í höndunum á Sigurði þá hefur hann aldrei getað kallað sig framúrskarandi smið. Hann hefur aldrei verið jafngóður í að handleika hamar og nagla eins og dansfélaga sína á gólfinu í hressum djæf eða ástríðufullum tangó. Það er þó allt að breytast, þökk sé æskuvini Sigurðar sem hvatti hann til þess að skrá sig í nám í húsasmíði. 

„Það var í raun ekki mín hugmynd að fara í þetta nám. Æskuvinur minn sendi á mig skilaboð um það hvort ég hefði áhuga á að fara í þetta nám sem „hobbý“ á meðan kórónuveiran geisaði hér yfir allt, til þess að hafa eitthvað að gera. Ég taldi að ég hefði gott af því að skella mér í svona nám þar sem ég kunni varla að hengja upp mynd og mig hafði lengi langað til þess að prófa einhvers konar iðnnám. 

Upphaflega ætluðum við félagarnir bara að taka verklega áfanga til þess að sjá hvernig okkur líkaði þetta. Áður en við vissum af vorum við skráðir í 4-5 áfanga á hverri önn samhliða vinnu og er ég að klára námið núna í lok maí.“

Sigurður á svölunum heima að smíða pall.
Sigurður á svölunum heima að smíða pall. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Langar að byggja hús, einn daginn!

„Hugmyndin var bara að finna eitthvað skemmtilegt áhugamál með félögunum. Fyrst við fórum alla leið og kláruðum námið þá langar mig til þess að reyna að klára sveinsprófið á einhverjum tímapunkti.

Mér finnst þó ekki líklegt að svo stöddu að ég muni starfa sem húsasmiður í fullu starfi þar sem mér líður vel sem hugbúnaðarsérfræðingur í mínu daglega lífi. Ég leit alltaf á þetta þannig að ég gæti mögulega tekið að mér aukaverkefni og gert allt heima fyrir sjálfur. Og vonandi byggt hús eða sumarbústað, einn daginn. Námið hefur þegar nýst mér mjög vel í þeim verkefnum sem ég hef dundað mér í heima og það er alltaf eitthvað að bætast við listann,“ segir Sigurður.

Lítið timburhús sem Sigurður vann að yfir einn önn í …
Lítið timburhús sem Sigurður vann að yfir einn önn í húsasmíðanáminu. Ljósmynd/SIgurður Már Atlason

Ólík blanda en upplögð

Það er sjaldan lognmolla í kringum Sigurð enda dansandi hugbúnaðarsérfræðingur á fullu að læra húsasmíði. „Fólk furðar sig oft á þessari blöndu en fyrir mér passar þetta fullkomlega saman. Ég sit við tölvuna mestan part úr deginum þegar ég er í vinnunni að forrita og þar af leiðandi er fullkomið fyrir mig að standa upp eftir vinnu og þjálfa dans og fara í skólann að smíða eða stússast í verkefnum og fá smá hreyfingu. 

Sigurður að keppa í latin dönsum á Copenhagen Open.
Sigurður að keppa í latin dönsum á Copenhagen Open. Ljósmynd/Sigurður Már Atlason

Dans er mikil listgrein en það hvílir líka mikil tækni þar á bak við, þolinmæðisvinna og vandvirkni. Margir dansarar eru mjög listrænir en ég hef alltaf hugsað allt meira út frá rökvísi og pælt mikið í sporum og tækni og lært að dansa þannig. Með því að skilja allt fullkomlega sem ég er að gera í hverju spori. 

Og í forritun er svo mikil rökhugsun og oft mikil þolinmæði og lausnamiðuð nálgun sem smíðin hefur líka, en þar færðu líka mikla sköpun. „Allt þetta blandast því mjög vel saman fyrir mig og margt er sameiginlegt en annað mjög ólíkt.“

Sumarið fer í framkvæmdir

Sigurður sem býr í Grafarholti ásamt kærustu sinni, Agnesi Orradóttur, verslunarstjóra Galleri 17 og hundinum Krafti, ætlar að eyða sumrinu í framkvæmdir og nýta sér þá kunnáttu sem hann hefur lært í Tækniskólanum. „Ég mun líklega eyða góðum tíma af sumrinu í framkvæmdir heima fyrir með Agnesi kærustunni minni, þar sem við ætlum að skipta um parket á allri íbúðinni, rífa niður vegg og skipta um eldhúsinnréttingu svo eitthvað sé nefnt. 

Sigurður ásamt Agnesi kærustu sinni og hundinum Krafti.
Sigurður ásamt Agnesi kærustu sinni og hundinum Krafti. Ljósmynd/Leifur Wilberg Orrason

Ég dansa líka alltof sjaldan við kærustuna mína. Við höfum oft rætt um að bæta úr því. Mögulega gefst tími núna þegar ég klára skólann í lok maí og hún setur kannski pressu á mig að byrja að kenna sér eitthvað,“ segir Sigurður, spenntur fyrir komandi sumri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál