Í afneitun um átröskun í ellefu ár

Árni Grétar Jóhannesson er þekktur tónlistarmaður undir nafninu Futuregrapher.
Árni Grétar Jóhannesson er þekktur tónlistarmaður undir nafninu Futuregrapher. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

Árni Grétar Jóhannesson hefur barist við átröskun í ellefu ár. Um miðjan maí náði hann algjörum botni, lokaði sig af í þrjá daga og borðaði ekkert. Það var þá sem hans nánustu brutust inn til hans og komu honum undir læknishendur. Hann er nú á batavegi og lítur björtum augum fram á veg.

„Mamma mín dó árið 2004 en þá var pabbi minn líka látinn. Þegar ég missti hana fór ég að leita að tilgangi í lífinu. Ég leiddist út í neyslu en út frá því byrjaði þetta stöðuga sjálfsniðurrif út af mínu útliti, að ég væri ekki nógu flottur og ekki í nógu góðu formi. Ég var stanslaust að hugsa einhverjar svona hugsanir þangað til haustið 2004, þá kastaði ég fyrst upp eftir matarlotugræðgikast,“ segir Árni Grétar.

Árni Grétar hefur barist við átröskun í ellefu ár.
Árni Grétar hefur barist við átröskun í ellefu ár. Ljósmynd/Kristín Dóra Ólafsdóttir

Sjúkdómnum fylgir mikil afneitun 

Sjúkdóminn hefur Árni Grétar glímt við í um ellefu ár en hann hefur verið mismikill eftir tímabilum. Árið 2013 viðurkenndi Árni Grétar að hann hafi eitt sinn þjáðst af sjúkdómnum en taldi öllum trú þá um að hann væri læknaður. „Það sem er einkennandi fyrir þennan sjúkdóm er að maður er í svo rosalega mikilli afneitun. Sjálfsblekkingin er svo gífurlega sterk að maður er í rauninni að ljúga að sjálfum sér, þetta verður bara algjör sýra.“

Hann segir ferlið hafa verið rokkandi upp og niður en alltaf leiði sjúkdómurinn til mikillar einangrunar og gífurlegs þunglyndis sem hefur áhrif á persónulega líðan. Árni Grétar er þekktur tónlistarmaður undir nafninu Futuregrapher og hefur sjálfur þurft að hætta við nokkra tónleika vegna sjúkdómsins.

Í sumar ætlar Árni Grétar að njóta lífsins og mun …
Í sumar ætlar Árni Grétar að njóta lífsins og mun spila á Extreme Chill festivalinu í Vík í Mýrdal sem haldið er fyrstu helgina í júlí. Ljósmynd/Aðsend mynd

Venjulegur strákur í kjörþyngd

Hann segir sína nánustu hafa  átt erfitt með að greina sjúkdóminn þar sem að feluleikurinn hafi verið svo gífurlegur. „Ég man að ég tók það alltaf fram ef mér fannst ég hafa borðað of mikið að ég væri að fara að pissa en ekki á klósettið til þess að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki. Þetta verður bara eitt stórt leikrit hjá manni,“ segir Árni Grétar.

Fólk tengir gjarnan átraskanir við það að einstaklingur sem glímir við sjúkdóminn sé annað hvort rosalega grannur eða í mikilli yfirvigt. Svo er alls ekki staðan og er Árni Grétar til að mynda ósköp venjulegur strákur í kjörþyngd. „Þess vegna heldur fólk að það sé bara allt í góðu hjá manni og að manni líði bara vel. Svo er ég líka búinn að vera edrú í fjögur ár og þegar maður er búinn að vera að standa sig vel í því heldur fólk enn fremur að maður sé fullkominn og í góðum málum. Einangrunin verður svo mikil og þá er erfitt að viðurkenna fyrir fólki að maður hafi ákveðna galla, þegar maður vill bara vera góð fyrirmynd,“ segir Árni Grétar.

Árni Grétar er á batavegi og er byrjaður í meðferð …
Árni Grétar er á batavegi og er byrjaður í meðferð hjá sálfræðingi. Ljósmynd/Margrét Unnur Guðmundsdóttir

Átraskanir sjaldnar tengdar við stráka

Aðspurður um hvernig það sé að vera strákur að eiga við þennan sjúkdóm segir Árni Grétar að hann hafi í rauninni aldrei pælt neitt sérstaklega í því fyrr en hann ákvað að segja frá sínum sjúkdómi á Facebook. „Síðan ég deildi þessu á Facebook hef ég fengið skilaboð frá strákum sem hafa verið að ganga í gengum það sama og pöbbum sem eiga syni sem eru að díla við þennan sjúkdóm.“ Hann bendir á að sjúkdómurinn sé í mun færri tilfellum tengdur við stráka og að fólk eigi stundum erfitt með að átta sig á að strákar geti verið með átraskanir eins og stelpur. „Eins og í bíómyndum þá er maður yfirleitt ekki að sjá stráka taka einhverjar svona lotugræðgissenur, það eru oftast stelpur.“

Í maí náði Árni Grétar ákveðnum botni þegar hann nærðist ekki í þrjá daga. Það var þá sem hans nánustu komu honum undir læknishendur. Hann er nú byrjaður í meðferð hjá sálfræðingi og er á bíða eftir vist hjá Hvítabandinu. „Þetta er viss tegund af sjálfsskaða sem allir geta fengið, ég leiddist út í þetta þegar foreldrar mínir dóu.“ 

Í sumar ætlar Árni Grétar að njóta lífsins og mun spila á Extreme Chill festivalinu í Vík í Mýrdal sem haldið er fyrstu helgina í júlí. Hann mun spila þar ásamt Jóni Ólafssyni en þeir hafa verið að búa til tónlist saman og hafa nú þegar gefið út eina plötu en sú næsta er á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál