Tók til sinna ráða þegar smiðurinn slasaðist

Elín Ólafsdóttir gerði upp heimili sitt sjálf.
Elín Ólafsdóttir gerði upp heimili sitt sjálf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vildi fá sem besta nýtingu út úr fasteigninni,“ segir Elín Ólafsdóttir sem staðið hefur í ströngu undanfarna mánuði við endurskipulagningu á heimili sínu í Seljahverfi. Hún segir verkefnið hafa verið hina bestu núvitundaræfingu og það hafi komið henni á óvart hversu mikill verkamaður leyndist í henni. 

Elín og fyrrverandi maki hennar keyptu hús við Gljúfrasel fyrir sjö árum. Þegar þau skildu á síðasta ári tók Elín við húsinu og hóf að endurskipuleggja það, breyta og bæta

„Ég vildi eiga húsið áfram en vildi jafnframt skapa mér og dætrunum traustari fjárhag og sá fljótt að við fjórar þyrftum ekki alla þessa fermetra,“ segir Elín en húsið er á þremur hæðum, alls 240 fm að stærð. Hugmyndin var að búa til litla stúdíóíbúð á fyrstu hæðinni en til þess að svo gæti orðið var nauðsynlegt að klípa af stofunni og byggja þar upp nýtt herbergi fyrir elstu dótturina. Þá var þvottahúsið fært inn í fataherbergi, annar bílskúrinn varð hluti af stúdíóíbúðinni og hinn bílskúrinn fékk nýtt hlutverk sem líkamsræktarstöð og fleiri rými hússins fengu andlitslyftingu.

Fann verkamanninn í sjálfri sér

Framkvæmdirnar stóðu meira og minna yfir í sjö mánuði en þrátt fyrir álagið sem fylgir stöðugum framkvæmdum þá segir Elín að ferlið hafi í raun verið mjög ánægjulegt.

„Já, það kom mér eiginlega á óvart hvað ég hafði gaman af þessu. Ég fann í raun verkamanninn í sjálfri mér,“ segir Elín og hlær, enda kemur í ljós að hún hefur sjálf unnið meira og minna að breytingunum. Hún segist í upphafi hafa verið með smið en þegar hann slasaðist og allt varð stopp þá varð hún að taka til sinna ráða. „Eftir að hafa fengið leiðbeiningar frá fagfólki, gekk ég bara í það að ganga frá veggjunum sjálf, ulla þá og gifsa. Ég treysti mér reyndar ekki í það að saga út fyrir klósettstútnum og fleiru, og fékk hjálp við það, en ég get sagt með stolti að ég gekk frá sex gifsveggjum alveg sjálf,“ segir Elín ánægð með útkomuna. Elín segist lengi hafa haft áhuga á arkitektúr og innanhússhönnun og fékk hún heldur betur útrás fyrir þennan áhuga sinn í þessu verkefni. Þá fór hún sums staðar óhefðbundnar leiðir og valdi til dæmis matt litað sparsl á vegg í stofunni, sem gefur rýminu skemmtilega hráan karakter sem er í mótsögn við glasandi svart veggfóður sem prýðir annan vegg í stofunni. Eins nýtti hún þetta umrædda sparsl í öðrum lit á milli eldhússkápa í stúdíóíbúðinni sem hún útbjó.

Leið eins og listamanni með sparslspaðann

„Ég er að vinna hjá Flügger sem sölu- og mannauðsstjóri og þar kynntist ég þessu litaða sparsli frá DETALE CPH sem heitir Kabric. Þetta er mjög notendavæn vara, auðveld í vinnslu og þornar hratt. Þetta er eins og þykk málning með sandkornum í sem rúllað er á vegginn með sparslrúllu og svo er efnið dregið í allar áttir með sparslspöðum. Útkoman verður lifandi, mött áferð, eitthvað sem mér fannst spennandi og öðruvísi. Mér fannst ég smá eins og listamaður þegar ég var að gera þetta og verð að segja að þetta var algjör núvitundaræfing. Ég er vön að vera í stjórnendastöðum og hef ekki verið að vinna neitt að ráði með höndunum. En þegar þú ert að mála eða sparsla þá kemst ekkert annað að í huganum en nákvæmlega það sem þú ert að gera þá stundina með höndunum, þú ert algjörlega hér og nú,“ segir Elín og bætir við að þá hafi hún líka aldrei verið í jafn góðu formi og nú eftir þessa törn því smíða- og málningarvinna reynir á allan líkamann. Elín mælir því algjörlega með því fyrir uppteknar konur í leit að líkamsrækt og slökun að taka heimilið í gegn. „Auðvitað þarf maður líka að hafa fífldirfsku og þora að láta vaða því maður lendir alltaf í einhverju óvæntu á leiðinni. En ekkert er óyfirstíganlegt.“

Gaf henni mikla sjálfstrú

Spurð um góð ráð til annarra kvenna sem eru í svipuðum sporum þá segir Elín að það sé mikilvægt að þora að prófa, því svo lengi lærir sem lifir. Flestar getum við meira en við höldum og svona vinna er sannarlega ekki bara fyrir karlmenn. Þá er mikilvægt að hafa gott skipulag til þess að brenna ekki inni með hálfklárað verk. „Gott skipulag skiptir miklu máli svo rafvirkjar, píparar og aðrir iðnaðarmenn komi í réttri röð og á réttum tíma. Það hjálpaði mér mikið að búta verkefnið niður, að útbúa verkskipulag og skrifa allt niður í bók. Og það var gríðarlega fullnægjandi að strika yfir unna verkþætti.“

Elín segir að vinir og vandamenn í kringum hana hafi á tímabili verið hræddir um að hún ynni yfir sig því hún var að sinna þessum heimilisbreytingum samhliða fullri vinnu ásamt því að sinna móðurhlutverkinu, en dætur hennar eru 10, 16 og 20 ára gamlar. „Ég var alveg líkamlega þreytt eftir þetta, en þetta gaf mér líka alveg ofboðslega mikið. Ekki bara á ég fallegra heimili fyrir vikið með aukaíbúð, heldur gaf þetta mér mikla sjálfstrú. Ég vissi til dæmis ekki áður en ég byrjaði að þessi verkamaður leyndist í mér, að ég gæti haldið þetta út í sjö mánuði og náð að púsla þessu rétt saman.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál