Kanilbomba sem sigraði kökukeppnina

Thelma Þorbergsdóttir sigraði Fröken Reykjavík.
Thelma Þorbergsdóttir sigraði Fröken Reykjavík.

Thelma Þorbergsdóttir sigraði kökukeppnina, Fröken Reykjavík, sem haldin var í tengslum við matarhátíðina, Full borg matar. Thelma bakaði bollakökur sem hún kallar Kanilbombu. Hún hefur alltaf haft unun af því að baka en áhuginn jókst mikið þegar hún eignaðist eldri son sinn.

„Ég er kannski svolítið ýkt þegar kemur að veislum og vil hafa allt flottast og best. Ég  og Pálína systir mín höfum verið mjög góðar saman þegar kemur að veislum og höfum alveg misst okkur í veitingum. Við erum líka rosalega duglegar að gera allskonar tilraunir á uppskriftum, breyta þeim og bæta. Ég get allavega fullyrt það að þú yrðir ekki fyrir vonbrigðum að koma í veislu til okkar,“ segir Thelma og brosir.

Kanilbomban hennar Thelmu bar sigur úr býtum í kökukeppninni sem haldin var í Norræna húsinu.

„Þetta eru bollakökur sem eru algjörar kanilbombur, þær eru sætar og mjúkar og hreinlega bráðna upp í þér við fyrsta bita. Ég gerði þær í fyrsta skipti fyrir 1 árs afmæli dóttur minnar í sumar en þá hafði ég verið að leita af nýjum og spennandi uppskriftum á netinu þegar ég fann þessa og ákvað að prófa. Mér finnst kökurnar verða að líta vel út og bragðast alveg einstaklega vel. Ég var ekki fyrr búin að setja þær á veisluborðið þegar þær voru horfnar ofan í gestina. Allir vildu vita hvað væri í kökunum. Það sem er skemmtilegast við að baka er að gefa fólki gott að borða svo ég ákvað að þetta væri uppskrift sem ég ætlaði pottþétt að gera aftur.“

Kom sigurinn á óvart?

„Já, ég verð að segja það að þetta kom mér mjög á óvart! Ég mætti með kökurnar mínar á staðinn og leit yfir hinar kökurnar sem voru að taka þátt og ég hálfskammaðist mín fyrir að setja mínar á borðið. Ekki það að mínar væru eitthvað ljótar heldur voru sumar eins og listaverk. Þrátt fyrir það var ég alveg sannfærð um að mínar yrðu með þeim bestu á bragðið, en ég vissi a þær yrðu að hafa allan pakkann, fallegar og bragðgóðar. Eftir að ég skilaði kökunum af mér fórum við heim og ég var hálffúl að hafa ekki hugsað þetta betur og var farin að ákveða hvernig bollaköku ég ætlaði að gera fyrir næstu keppni þegar Rikka hringdi í mig og sagði mér að mín bollakaka hefði unnið.“

Hvar lærðir þú að baka?

„Ég lærði að baka hjá mömmu minni, Hildi Birkisdóttur, en hún er rosalega góður bakari og snilldarkokkur. Hún er reyndar algjör kjarnorkukona sem getur allt og hún er mín helsta fyrirmynd í lífinu. Ég byrjaði á því að baka skúffukökuna hennar mömmu og er hún algjörlega mitt uppáhald.“

Hvað bakar þú oftast?

„Það sem ég hef verið að baka oftast í gegnum tíðina er súkkulaðikaka og kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr, en það er mitt uppáhald. Síðastliðna mánuði hef ég bakað bollakökur og stórar súkkulaðikökur skreyttar vanillusmjörkremi fyrir vini og ættingja.“

Thelma er gift og á tvö börn sem eru tveggja og hálfs árs og 15 mánaða. Hún segir að það sé líf og fjör á heimilinu. Hún segir að móðurhlutverkið eigi vel við sig því hún sé mikil félagsvera. Thelma gerir þó fleira en að baka kökur og hugsa um börn því þessa dagana vinnur hún að rannsókn fyrir mastersverkni sitt í félagsráðgjöf til starfsréttina við HÍ.

„Körfubolti stór hluti af lífi okkar þar sem maðurinn minn spilar með ÍR í úrvalsdeildinni og ég reyni helst ekki að miss af leik.“

Kanilbomba

125 g smjör við stofuhita
200 g sykur
170 gr hveiti
1 tsk. vanilludropar
2 stór egg
2 tsk. lyftiduft
smá dass af salti
120 ml mjólk
1 bolli púðursykur (dökkbrúni) blandað með 1,5 tsk. kanil, þetta er hrært saman.
(ef þú vilt hafa kökuna extra blauta er gott að setja vanillubúðing bara innihaldið í pakkanum út í kökudeigið)

Þeir sem vilja fara einfalda leið þá er hægt að kaupa yellow cake mix og blanda það saman við
3 egg
1 bolli vatn
126 g smjör brætt

Ofninn hitaður í 180 gráður

Hrærið sykrinum og smjörinu vel saman og bætið svo eggjunum saman við og hrærið vel þangað til blandan verður mjúk og fín. Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og hrærið saman við. Þá er mjólkinni bætt út í deigið ásamt vanilludropum.


Setjið deigið í ca 1/4 af forminu. Setjið svo 1 tsk. af kanil/púðursykrinum ofan í og setjið svo aðra skeið af deiginu yfir, setjið aftur 1 tsk. af kanil/púðursykri yfir. Ekki fylla nema 2/3 af forminu. Takið hníf og hringsnúið honum í gegnum deigið til þess að blanda því saman við; kanil/púðursykrinum.

Bakið í ca 15 mín. Kælið.

Krem

Thelma mælir með því að fólk geri tvöfalda uppskrift af kreminu ef það vill hafa mikið krem.

225 g rjómaostur, mjúkur
125 g smjör, við stofuhita
1 tsk. vanilludropar
3 bollar flórsykur

Blandið saman rjómaostinum, smjöri og vanilludropum þangað til það er orðið mjúkt og fínt. Setjið því næst flórsykur, hafið hrærivélina stillta á litinn hraða og bætið smá og smá út í, hrærið vel á milli. Skafið hliðarnar úr hrærivélinni vel og hrærið á miklum hraða í ca 2 mín.

Setjið kremið á kökurnar og setjið inn í ísskáp þangað til
kanil/púðursykurgljáinn er tilbúinn.

Gljái

125 g smjör
1 bolli púðursykur
1,5 tsk. kanill
Setjið smjörið, púðursykurinn og kanilinn í lítinn pott yfir meðal hita og bræðið saman. Það má ekki sjóða upp á blöndunni. Setjið 1 tsk. eða eins og þú vilt yfir kökurnar og setjið strax inn í ísskáp þangað til gljáinn hefur náð að storkna.

HÉR er hægt að skoða kökurnar hennar Thelmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert