c

Pistlar:

21. september 2016 kl. 20:27

Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir (johannaluvisa.blog.is)

Litli púkinn á öxlinni

Hver kannast ekki við litla púkann á öxlinni? Þessi sem reynir alltaf að fá þig til að gera allt þveröfugt við það sem þú ætlar þér eða langar til að gera. Hann hefur verið að trufla mig þessa dagana. Jóhanna iss fáðu þér smá nammi það gerir ekkert til, þú ert svo þreytt taktu þér frí í ræktinni. Hver bauð honum eiginlega í heimsókn ég bara spyr? Ég hef ákveðið að jarða hann og reyni því að hlusta ekki á hvað hann er að bulla í mér.

Matarræðið hefur verið þokkalegt og fullt sem maður lærir þegar matardagbókin kemur til baka frá Lilju. Allt tekur þetta tíma, bæði að tileinka sér hollari valkosti og að muna eftir að borða. Ég hef átt það svolítið til gleyma að borða og þegar hungrið er orðið það mikið er svo auðvelt að ná sér í snögga og óholla orku. En núna taka nýir tímar við þar sem heilsan verður sko sett í fyrsta sæti.

Ég verð að viðurkenna að líkaminn hefur verið frekar slæmur síðustu daga, líður pínu eins og ég sé að verða lasin en ég veit að það er ekki málið. Að vera farin að hreyfa sig fjórum sinnum í viku frá því að gera ekki neitt er frekar stórt skref og því ekki nema von að líkaminn þurfi tíma til að venjast breytingunum. 

Ég mun halda áfram að gera mitt besta svo ég verði betri útgáfa af sjálfri mér og mun slást við púkann á öxlinni þegar þörf er á. Nú er það ég sem ræð en ekki hann...

Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir

Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir

Hress ofurkona með þau markmið að gera lífið ennþá betra með lífstílsbreytingu. 

Meira