c

Pistlar:

15. október 2014 kl. 0:35

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Fótósjoppar af sér Instagram-myndir ...

Á hvaða stað er fólk statt í lífinu þegar það er farið að fótósjoppa sjálft af sér myndirnar sem það deilir á samfélagsmiðlinum Instagram? Ekki nóg með að fílterar séu notaðir heldur er ungviðið farið að ganga mörgum skrefum lengra til þess að koma sinni fullkomnu manneskju á framfæri. Hingað til hefur fótósjoppið verið stór partur af tískuheiminum enda ekki hægt að kaupa glanstímarit nema búið sé að afmá allt sem þykir óprýði. Reglulega koma upp á yfirborðið hrikalegir fótósjopp-skandalar erlendis þar sem frægðarfólk er „ampúterað“ eða líkamsvöxturinn gerður þannig að Barbie og frænkur hennar allar frá Mattel gætu bara pakkað saman.

Þrátt fyrir frjótt ímyndunarafl hafði undirritaðri ekki dottið í hug að þessi valmöguleiki væri fyrir hendi. Það er kannski ekkert skrýtið því fótósjopp-kunnátta undirritaðrar er þannig að það villtasta sem mér hefur hingað til dottið í hug er að klippa haus af fólki og setja á líkama Pamelu Anderson... Og svo kann undirrituð einnig að klippa saman fyrir og eftir myndir og reyndar líka að klippa saman partímyndir til að nota sem myndefni á landið smarta.

Þess vegna brá mér töluvert þegar mér fóru að berast Instagram-myndir af 23 ára gamalli stúlku sem hefur notið töluverðra vinsælda í bloggheiminum. Myndirnar sem ég fékk sendar voru myndir sem stúlkan hafði póstað sjálf og einnig myndir sem vinkonur hennar höfðu póstað. Á þessum nákvæmlega sömu myndum mátti sjá greinilega hvað hún var miklu mittismjórri á sínum eigin myndum en á myndum vinkvenna sinna. Þegar þessar myndir voru bornar saman var munurinn mikill.

Mín fyrstu viðbrögð voru að þetta hlyti að vera eitthvert grín en þegar ég lagðist yfir þetta og fékk að sjá fleiri myndir varð ég aðallega hissa. Aðallega vegna þess að stúlkan er svo prýðilega vel heppnuð í grunninn, gáfuð, í góðu formi og afar hugguleg á allan hátt. Ég hugsaði með mér að ef þessi stúlka þyrfti að fótósjoppa sig þá mættum við hinar venjulegu Guggurnar varla lifa.

Þegar ég hringdi í stúlkuna til að spyrja hana nánar út í þetta sagði hún að þetta hefði verið algert hugsunarleysi og hún skammaðist sín fyrir þetta og vildi alls ekki að alheimurinn vissi af þessu. Ég ákvað að sýna myndirnar ekki opinberlega þótt ég sé með þær undir höndum því ég vorkenni henni.

Ég var nefnilega einu sinni 23 ára og vitlaus og er meðvituð um það að ég geti aldrei þakkað nægilega heitt fyrir það að internetið hafi ekki verið komið á þann stað sem það er í dag á þessum árum.

Ég er til dæmis þakklát fyrir það að mínar ljósmyndir frá þessum árum hafi aldrei ratað á internetið enda eiga þær ekkert erindi þangað. Þær eru tryggilega geymdar á stað þar sem enginn kemst í þær nema ég sjálf. Það er nefnilega svo ósköp margt sem lífið átti eftir að kenna mér á þessum árum og ég hefði pottþétt fótósjoppað mig í drasl, stækkað á mér varirnar í tölvunni, mjókkað andlitið og ég veit ekki hvað ef tæknin hefði verið komin á þennan stað...