c

Pistlar:

12. maí 2021 kl. 18:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ný skýrsla: Styrkur sjávarútvegsins staðfestur

Mikil tækifæri eru til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum og mögulegt að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöður og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða króna árið 2025 og í 615 milljarða króna árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019. Slíkar tölur staðfesta nýsköpunarkraft íslensks sjávarútvegs hafa áður verið kynntar en gott að fá þær með jafn ítarlegum rökstuðningi og finna má í skýrslunni. Það er mikilvægt að fá fræðilegt mat á þróun og horfum sjávarútvegsins en skýrslan staðfestir margt af því sem hér hefur verið sagt í pistlum.

Meðal OECD-ríkjanna er það aðeins á Íslandi sem sjávarútvegur skilar meira til hins opinbera en hann fær greitt úr opinberum sjóðum. Í hinum 28 OECD-ríkjunum hefur hlutfall af heildarútgjöldum þeirra sem rennur til sjávarútvegsins aukist úr 5,6% á árunum 2012 til 2014 í 6,8% á árunum 2016 til 2018. Í öllum helstu samkeppnislöndum Íslands eru til staðar ríkisstyrkir til sjávarútvegs en á móti er íslenski sjávarútvegurinn sá eini sem greiðir sérstök gjöld umfram venjulega skattlagningu.agnars

Samhljómur í fræðasamfélaginu

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslunni sem unnin er fyrir sjávarútvegsráðuneytið og fjallar um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi í víðri merkingu enda 270 bls. að stærð. Skýrslan er unnin af Sveini Agnarssyni, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, Sigurjóni Arasyni prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Herði G. Kristinssyni, rannsókna- og nýsköpunarstjóra hjá Matís og dr. Gunnari Haraldssyni hagfræðing. Segja má að fjórmenningarnir bætist í stöðugt stækkandi hóp íslenskra fræðimanna sem benda á hin mikilvægu hagrænu áhrif íslensks sjávarútvegs og áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins þar á. Auðvitað eru þeir engir nýgræðingar en skýrsla þeirra nú er mikilsvert framlag til fræðilegrar umræðu um sjávarútveginn. Meðal annars íslenskra fræðimanna sem hafa birt niðurstöður á líkum nótum eru fræðimenn eins og dr. Þráinn Eggertsson, dr. Rögnvaldur Hannesson, dr. Birgir Þór Runólfsson, dr. Ágúst Einarsson, dr. Ásta Dís Óladóttir, dr. Daði Má Kristófersson, dr. Arnar Bjarnason, dr. Ragnar Árnason, dr. Þór Sigfússon, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur. Allir þessir fræðimenn hafa bent á gildi og mikilvægi fiskveiðistjórnunarkerfisins en benda má á að Ríkisútvarpið kallar þá aldrei til þegar það er til umfjöllunar. Hvaða skýring skyldi nú vera á því? En skýrslan er góð viðbót við umræðu sem hér hefur oft verið í pistlum.

Skýrsla fjórmenninganna er mikil að vöxtum en þar segir meðal annars: „Íslenskur sjávarútvegur sker sig úr í hópi nágrannaþjóða þegar kemur að umfangi og eðli styrkja. Víðast hvar eru beinir styrkir til sjávarútvegs verulegir en hér á landi greiða útgerðarfyrirtæki veiðigjald,“ segir í skýrslunni. Þá kemur þar fram að íslenskur sjávarútvegur hefur staðið sig vel í samkeppni á erlendum mörkuðum. „Sú staðreynd að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er annars vegar merki um góða stjórn fiskveiða og fjárhagslegan styrk sjávarútvegs á Íslandi en einnig um bágt ástand í fiskveiðum annars staðar,“ álykta skýrsluhöfundar.

Fyrirsjánleiki til hagsbóta

Fram kemur í skýrslunni að ótímabundnar aflaheimildir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja séu til þess fallnar að tryggja aukinn fyrirsjáanleika sem um sinn skapar grundvöll fyrir langtímafjárfestingar og skipulagningu starfsemi sinnar til lengri tíma litið. Þá hvetur kvótakerfið útgerðirnar til að lágmarka kostnað og hámarka verðmæti aflans. „Sú staðreynd að hefðbundnir nytjastofnar eru fullnýttir setur sjávarútvegi ákveðnar skorður. Aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi getur því ekki komið úr meiri afla, heldur betri nýtingu hráefna, aukinni framleiðni og aukinni verðmæta- og nýsköpun almennt,“ segir í skýrslunni en meðfylgjandi mynd sýnir útflutningsverðmæti til framtíðar.utflsjavar

Það kemur ekki á óvart að skýrsluhöfundar telja íslenskan sjávarútveg búa við samkeppnisforskot sem felst í stjórnkerfi fiskveiðanna. „Samanburður við Noreg leiðir skýrt í ljós að íslenskar útgerðir geta, vegna stjórnkerfisins, hagað veiðimynstrinu þannig að þær geta selt fisk inn á markaðina þegar framboð er lítið og verðið hærra en ella. Einnig geta íslensk fyrirtæki hagað veiðunum þannig að minna sé um orma í þorski og þau neyðist ekki til þess að koma að landi með lélegra hráefni. Þannig býr stjórnkerfið sjálft til umgjörð um veiðar og vinnslu sem skapar aukin verðmæti, þjóðinni til hagsbóta.“

Skýrsluhöfundar benda á að aðgangur að auðugum fiskimiðum, jarðvarma og orku fallvatna hefur mótað hagþróun Íslands og skapað forsendur fyrir þeirri velsæld sem Íslendingar búa við í dag. „Lífskjör þjóðarinnar hljóta áfram að byggja að verulegu leyti á skynsamlegri og sjálfbærri hagnýtingu þeirra auðlinda sem hún ræður yfir. Með sjálfbæri þróun er átt við að hægt verði hverju sinni að mæta þörfum samtímans án þess að dregið sé úr möguleikum komandi kynslóða. Það er almennt viðurkennt að sjálfbær þróun hvíli á þremur meginstoðum; efnahag, umhverfi og samfélagi. Allar tengjast þessar stoðir innbyrðis.“ Undir það verður tekið hér en fjallað verður meira um skýrsluna síðar.