c

Pistlar:

12. apríl 2015 kl. 19:44

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Víðtæk vorhreinsun

Í Ayurveda er vorið tími endurnýjunnar. Alveg hárrétti tíminn til hreinsa líkama og sál og byggja sig upp eftir veturinn. Þetta er hefð í mörgum menningarsamfélögum. Þótt indversku lífsvísindin mæli með sítrónu í volgu vatni, notkun á tungusköfu og nefpotti og heilbrigðri andlegri og líkamlegri næringu frá degi til dags - árið um kring - leggja fræðin sérstaka áherslu á að farið sé dýpra inn á við á vorin.

vor

Vorið flokkast sem kafa (kapha) og eru frumefni þess jörð og vatn. Þar sem kafa orkan eykst í líkama okkar flestra í takti við árstíðina, eigum við það til verða þung (eins og blaut jörðin) og bjúguð (eins og vatn í leysingum). Þessu getur verið gott að mæta með því að leggja áherslu á það sem er beiskt, sterkt og herpandi. Bragðflokkana sem rífa sig í gegnum stíflur líkamans og létta á okkur, ekki síst andlega 

Sjálfri er mér kunnungt um marga hópa sem safnast saman á þessum ártíma til að hreinsa líkama og sál. Sumir gefa eftir í viku en aðrir taka sér lengri tíma. Í nokkur ár hef ég tilheyrt hópi fólks sem tekur þriggja vikna vorhreinsun, sem felst aðallega í því að sleppa öllum dýraafurðum, sykri, hvítu hveiti, geri, jafnvel glúteni og borða ríkulega af lífrænu grænmeti og ávöxtum. Síðan hittumst við vikulega og hugleiðum saman. Svo fer það eftir hverjum og einum hvort hann/hún vilji taka nokkra safadaga í miðri hreinsuninni eða sleppa því.
Þar sem Ayurveda á svör við nánast öllu og sér hlutina í víðu samhengi eru hér nokkur viðbótaratriði sem gott er að hafa með í hreinsunni. Í raun hvaða hreinsun sem er:

Tunguskafan
Tunguskafan er sögð eitt mikilvægasta fyrirbyggjandi heilsuverkfæri indversku lífsvísindanna. Jafnvel enn mikilvægari en tannburstinn. Á tungunni geta nefnilega safnast fyrir toxísk efni, nefnd “ama”. Þau eru talin geta ýtt undir óþægindi eða jafnvel sjúkdóma (eru til ama), séu þau ekki hreinsuð burt reglulega. Þannig er sagt að ef á miðju tungunnar myndast skán sé það merki um að magi og smáþarmar þurfi hreinsun en ef skánin er aftast á tungunni sé það ristillinn sem þarf sérstaka aðgát. Strjúkið mjúklega yfir tunguna frá afasta hluta hennar til þess fremsta, allt að 7 til 14 á hverjum morgni, meðan á hreinsunni stendur. Það hjálpar til. Hitt er að það má auðveldlega venjast því að nota tungusköfu á hverjum einasta morgni.

Nefpotturinn
Er í raun að verða vinsælli og vinsælli hér sem víðast hvar á Vesturlöndum. Það kemur líka til að því að margir ofnæmislæknar -líka íslenskir- eru farnir mæla með notkun hans. Sérstaklega fyrir þá sem þjást af frjóofnæmi eða langvarandi ennis- og kinnholuvandamálum. Nefhreinsun sem þessi hefur verið notuð í þúsundir ára í indversku fræðunum og skilar sannarlega árangri. Í Ayurveda er öndun í gegnum nef sögð leiðin að aukunni meðvitund og sjálfri prönunni (lífsorkunni). Og þar með betri heilsu.

Þurrburstun
Það er bæði gömul saga og ný að það að bursta líkamann hátt og lágt ýtir undir hreinsun líkamans. Mikilvægast er að notast við húðbursta með náttúrulegum hárum. Þurrburstun eykur blóðfæði og fjarlægir dauðar húðfrumur. En það sem er meira um vert er að þurrburstun örvar sogæðakerfið sem á drjúgan þátt í hreinsun líkamans. Hefjist handa við hjartað og fylgið ferðalagi sogæðavökvans upp og niður líkamann. Gott er að anda inn og út um nef þegar þurrbustun er framvæmd. Það eykur meðvitund.

Nudd
Nuddið líka líkamann hátt og lágt, helst upp úr heitri olíu. Það er næstum óendanlega notalegt. Ekki er verra að notast við olíu sem hentar ykkar líkamsgerð (vata, pitta, kafa). Þó duga góðar lífrænar sesam- eða möndluolíur líka vel. Á meðan þið þurrbustið líkamann er gott að hita olíuna eilítið, t.d. undir heitri vatnsbunu eða yfir heitu vatnsbaði. Öflugt nudd á kafatímum (vorin) eftir þurrburstun er ein besta leiðin til að ýta uppsöfnuðum eiturefnum út úr vefjum líkamans inn í meltinguna þaðan sem þau hreinsast út. Það heitir líka að losna við “ama” í Ayurveda.

Te og jurtir
Drekkið mikinn vökva meðan á þessu tímabili stendur. Sérstaklega af góðu tei með hreinsandi jurtum á borð við rauðsmára eða rauðrunna. Gott ráð er að leggja vítamíninntöku til hliðar á meðan á hreinsun stendur. Þó er talsvert vit í því að verða sér úti um nokkrar jurtir sem ýta undir hreinsuna. Þar mæli ég persónulega með mjólkurþistli sem er lifrarhreinsandi, túnfífilsjurt sem örvar gallið og er um leið mjög vatns- og bjúglosandi. Síðast en ekki síst mæli ég með króklöppurót sem er mjög beisk jurt og er líka sögð hreinsa gallið. Í vedísku handritunum er minnast króklöppu sem drottningu allra blóðhreinsandi jurta.

Fótabað
Fátt er jafn endurnærandi og gott fótabað með steinefnaríku Epsom salti. Það er í senn róandi og gefur fótunum orku sem streymir upp allan líkamann. Í miðri hreinsunni eigum við mörg hver til með að missa niður orku og þá er enginn skyndibiti bragðbetri er notalegt Epsom salt fótabað.

Krydd
Lífræn eðalkrydd er ekki eingöngu spennandi og gefa áhugavert bragð af matnum okkar heldur eru þau mörg hver einnig flokkuð sem lækingajurtir. Notaðu svartan pipar, túrmerik, kóríander, kúmín, kardimommur, engifer og sinnepsfræ. Öll þessi krydd bæta meltinguna og flýta fyrir hreinsun líkamans.

Dagbók
Það hljómar kannski þreytandi að halda dagbók í miðri matarhreinsun en reyndu samt. Ekki til að fylgjast með því sem þú ert að borða heldur þeim tilfinningum sem kunna að koma upp og gagnlegt er að skoða. Við öfluga vorhreinsun á líkama kunna allskyns tilfinningar að leysast úr læðingi. Skrifaðu þær niður, það getur orðið áhugavert lesefni. Líka síðar meir.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira