c

Pistlar:

10. nóvember 2020 kl. 19:31

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Möntruhugleiðsla í beinni útsendingu frá Systrasamlaginu á miðvikudögum

Undanfarin 3 ár, nánar tiltekið á miðvikudögum kl 09:15 og stundum klukkustund síðar, hafa verið haldnir töfrandi möntruhugleiðslumorgnar í Systrasamlaginu undir stjórn Thelmu Bjarkar jógakennara og fatahönnuðar með meiru. Með smá undantekningum þó þegar Thelma hefur tekið sér fæðingarorlof. Möntru hugleiðslumorgnarnir í Systrasamlaginu hafa notið mikilla vinsælda og margir hafa notið hennar. En sakna nú.

Eins og gefur að skilja hefur lítið verið um möntruhugleiðslu í Systrasamlaginu að undanförnu vegna Covid. En þá er um að gera að finna nýjar leiðir til að halda áfram. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Frá og með miðvikudeginum 11.11 verður bein útsending frá Systrasamlaginu og allir geta tjúnað sig inn sem vilja. Venjulega er um 10 til 15 mínútna hugleiðslur að ræða en gott að gefa sér um 10 mínútur til viðbótar til að fara hægt inn í hugleiðsluna og rólega út úr henni aftur.

 

Möntruhugleiðslan í Systrasamlaginu verður í beinni á eftirfarandi linkum:

www.facebook.com/Systrasamlagid

www.instagram.com/systrasamlagid/

www.instagram.com/andadumedthelmu/


Látum Thelmu okkar hafa orðið: „Fyrir mér snýst hugleiðslan að miklu leyti um að hlaða mig og vökva. Að leggja inn í andlega bankann“ 

Hittumst í beinni (t.d. á fésbókarsíðu Systrasamlagsins) á miðvikudögum klukkan 9:15 og leggjum inn á okkur í skammdeginu. Við verðum í beinni fyrir alla sem vilja, í það minnsta fram að jólum.
Hugleiðslumynd

hugleiðsla

 

 

 

 

 

HVAÐ ER HUGLEIÐSLA?

Ef streita veldur þér hræðslu, óróa og/eða áhyggjum ættir þú að íhuga hugleiðslu. Aðeins örfárra mínútna hugleiðsla á dag getur raðað öllu í réttar hillur, róað og fært innri frið. Allir geta iðkað hugleiðslu. Það er einfalt og ódýrt og krefst í raun engra sérstakra hæfileika. Það sem er jafnvel meira um vert er að hugleiðsla þarfnast heldur engrar sérstakrar umgjarðar. Hægt er að stunda hugleiðslu hvar og hvenær sem er – hvort sem þú ert á göngu, í strætó, á biðstofu, í sundi og jafnvel á erfiðum viðskiptafundum.

Hugleiðsla hefur verið stunduð í þúsundir ára. Upphaflega svo fólk kæmist í djúpa snertingu við helga og dulræna krafta náttúrunnar, en í dag miklu fremur til að ná slökun og kyrra hugann, þótt annað og meira geti sannarlega hangið á spýtunni. Ein tegund hugleiðslu er möntruhugleiðsla.


Þú getur hannað eigin möntru, hvort sem hún er veraldleg eða trúarleg. Það getur hvort sem er verið bæn, om, söngl eða fallegar staðhæfingar, úr vestri eða austri. Bara það sem hentar þér. Sjáum hvaða leiðir Thelma Björk mun velja.

Hlökkum til!!

 

Sjá ítarlega grein um hugleiðslu frá A-Ö.

 

 

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira