c

Pistlar:

4. janúar 2015 kl. 19:55

Valentína Björnsdóttir (valentina.blog.is)

Kalt bað

Það er sunnudagur og lufsulegt jólatréð minnir mig á að nú þyrfti að gera skurk í að pakka niður jólunum og hleypa inn nýja árinu með alla sínar vonir og væntingar. Þegar ég lít aðeins inn á við og spyr sjálfa mig hvað mig langi mest að gera í dag leitar hugurinn í Vesturbæjarlaugina eins og svo oft áður. Þar er allt best og ennþá betra eftir að ískaldi potturinn kom. Brrrr það er ekki alveg innan þæginda hringsins, tilhugsunin um að leggjast í ískalt vatn. En eitthvað er þar sem það gerir manni gott.

Fyrir nokkru uppgötvuðum við hjónin áhrifamátt kaldra og heitra baða til skiptis og vorum tíðir gestir í sundlauginni í Hveragerði en þeir voru með þeim fyrstu að bjóða upp á ískaldan pott. Okkur hafði lengi dreymt um að fá kaldan pott i Vesturbæjarlaugina. Síðla sumars 2014 vorum við bænheyrð þegar kaldi potturinn mætti. Ég veit hvað kalda/heita baðið gerir mikið fyrir mig og hef gert óformlega skoðunarkönnun á hvernig kaldi/heiti potturinn virkar á aðra baðgesti. Eitt af því sem allir segja er að við setu í kalda pottinum tæmist hugurinn og hugsunin verður skýrari. Ég get vel tekið undir það.

Margir eru sannfærðir um að kalda baðið vinni á bólgum í líkamanum, það fullyrða til dæmis íþróttamennirnir sem stunda klaka böð eftir erfiðar æfingar og leiki. Einn íþróttakappi sagði mér að á keppnisferðum erlendis væri klakavélinni á hótelganginum mikið notuð til að ná sér í klaka til að fylla baðkarið á hótelherberginu.

Það er eins og kalda baðið örvi blóðrásina til innri líffæra og hafi um leið slakandi áhrif og á einhvern hátt veitir það mikla vellíðan. Sumir vilja meina að endorfín framleiðsla aukist við kalda baðið en það boðefni veitir okkur vellíðunartilfinningu.

Mér finnst mjög gott að kæla andlitið i smástund í kaldapottinum og samkvæmt mínum eigin kerlingabókum gefur kalda vatnið hraustlegt útlit og styrkir húðina - gott ef það dregur ekki úr hrukkum líka!

Ég spjallaði við lækni um gagnsemi heitra og kaldra baða til skiptis. Hann gat tekið undir það, að böðin gerðu mörgum gott. En hann lagði áherslu á að svona kalt vatn geti verið varhugavert fyrir fólk með viðkvæmt hjarta- og æðakerfi.

Ég er þess full viss um að sundferð er góð forvörn gegn streitu, hvort sem þú ert týpan sem syndir eða svamlar bara í pottunum. Og ekki síður þótt úti sé kaldur og dimmur vetur.

Fyrir mér er Vesturbæjarlaugin útibú frá paradís. Í gegnum árin hef ég oft drattast með mig í laugina dauðþreytt og lúin á sál og líkama, en einhvern veginn kem ég alltaf eins og ný uppúr, tilbúin að takast á við stóru verkefnin aftur af fullum krafti.

Segi stundum í gríni að það sé nauðsynlegt að setja gamlar fýlutuskur í klór - það sé eina sem virki ef þú vilt fá þær nothæfar aftur. Það á allavega vel við mig.

Íslenskar sundlaugar eru fallegt dæmi um samspil manns og náttúru. Það er næstum því sama hvar þú ert á landinu, alls staðar eru sundlaugar. Oftar en ekki eru þær einn helsti samkomustaður fólksins á svæðinu. Í sundinu mætir maður hlýjum brosum og kærleika, þar líður flestum vel og gegnumgangandi finnst mér fólk vera þakklátt fyrir þessar unaðslegu heilsulindir sem við höfum svona mikinn aðgang að.

Ég gæti haldið lofræðunni lengi áfram um sundlaugarnar og þeirra lífsgæða sem fylgja því að eiga allt þetta vatn. En læt hér staðar numið því tilhugsunin um að fara í sund er skrifunum yfirsterkari, en fyrst ætla ég að pakka niður jólunum og koma heimilinu í stand og fá svo góða sundferð að launum.

Valentína Björnsdóttir

Valentína Björnsdóttir

Áhugamanneskja um lífsins lystisemdir og heilsusamlegt líferni. Framkvæmdarstjóri Móður Náttúru sem framleiðir grænmetisfæði fyrir stóreldhús og á neytendamarkað.

Meira