c

Pistlar:

4. maí 2017 kl. 10:26

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Dagbók frá Himalaja: 1. Hinar mörgu víddir Nepal

Mig hefur dreymt um að klífa Everest í 15 ár og tvisvar hef ég þurft að snúa aftur frá Nepal með sorg í hjarta eftir náttúruhamfarir 2014 og 15. Það var reynsla sem breytti lífi mínu og eftir seinna skiptið var ég ekki viss um að mig langaði að klífa eitt af háu fjöllunum aftur. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég og mun alltaf vera fjallgöngukona svo að hér er ég aftur komin til Nepal að klífa og upplifa drauminn.

En það er fleira en fjöllin sem heillar mig hér í Nepal. Menningin og mannlífið, fólkið og vinirnir sem ég hef kynnst munu fylgja mér alla tíð og mig langar að deila því með ykkur í nokkrum pistlum her á næstu vikum. 

1. Hinar mörgu víddir Nepal 

Þegar maður stígur upp í flugvélina heima á Íslandi og heldur til Nepal er maður ekki bara að að fara í ferðalag sem verður lokið þrem vikum seinna eða svo og hið vanalega líf heldur áfram, heldur er maður að fara inn í heim og aðstæður sem munu hafa áhrif á mann fyrir lífsstíð. 

Við lendingu í höfuðborginni, Kathmandu er strax ljóst að hér er veröldin önnur. Okkar siðir, venjur og hefðir gilda ekki, hérna eru önnur lögmál. Í fyrstu hefur maður kannski lítinn skilning á því hvernig samfélagið fúnkerar en það eina sem skiptir máli er að vita að þetta virkar bara ágætlega. Ég hef núna eytt samtals 9 mánuðum á svæðinu og er loksins komin upp á lag með ýmsa þætti sem voru mér mér mjög framandi í fyrstu.

Lapkha Sherpa vinnur að byggingu fjölskylduhússinsNepal er fátækt land, stjórnarfarið er óstöðugt og sífellt nýjar reglur að líta dagsins ljós, sú nýjasta er að það er bannað að flauta í umferðinni sem er alla jafna gríðarlega hávær, þung og kaóísk. Stundum er erfitt að átta sig á því hvað er regla og hvað ekki. Eitt árið mátti t.d. ekki birta myndir frá styrktraraðilum af toppnum af Everest – hver ástæðan var er erfitt að gera sér grein fyrir.

Flestir sem koma til Nepal eru á leiðinni í einhversskonar upplifunar ferð. Það er algengt að ganga upp í grunnbuðir Everest eða að hinu formfagra fjalli Annapurna, Jógaferðir til Pokahara eru sífellt vinsælli, fjallahjólaferðir hafa rutt sér til rúms síðustu misseri og Nepal er vel þekkt fyrir góðar aðstæður fyrir River rafting og kayakferðir.

Við erum á leiðinni upp í Khumbudalinn sem er magnaður, seiðandi og stórkostlegur á allan hátt. Ég þekki engan sem hefur komið hingað og ekki orðið fyrir sterkum hughrifum.

Það er mögnuð upplifun að stíga inn í litla Dornier vélina sem tekur 14 manns og taka á loft frá höfuðborginni. Þrátt fyrir að vélin rúmi fáa og flugleiðin sé stutt er ávallt uppábúin flugfreyja sem býður upp á brjóstsykur og bómull í eyrun. Ég á ófáar ferðirnar að baki í þessum litilu vélum og í allskonar aðstæðum, roki, litlu skyggni og svo í frábæru veðri. Það er stundum talað um að flugvöllurinn í Lukla sé sá hættulegasti í heimi, vissulega er lendingarbrautin lítil og lent er upp í miðju fjalli en eftir að brautin var malbikuð og aðstæður teknar út af alþjóðlegum úttektaraðilum hafa aðstæður batnað til muna og lendingin Á heimili Phelu Sherpa sem býður upp á te.er ævintýrleg ekki bara vegna aðstæðna heldur þeirrar fjallaveraldar sem maður er komin inn í. Það er allajafna flogið frekar snemma svo kalt fjallaloftið tekur á móti manni. Á vellinum sem er ekki mjög stór er kaótískt skipulag en líkt og áður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur því þetta virkar þrátt fyrir að okkar vestræni skilningur nái ekki utan um þetta í fyrstu.

Við flugvöllinn bíða heimamenn sem eru jafnframt Sherpar og bjóða fram þjónstu sína við að bera töskur á tehús eða jafnvel alla leið upp dalinn að Gorakshep sem er næsta þorp við grunnbúðir.  Hér eru engir vegir, engir bílar eða önnur vélknúin ökutæki. Farangur og vistir eru annað hvort borin á herðum Sherpanna eða á Jakuxum.  Þetta gera þeir bæði að atvinnu fyrir ferðamenn og svo fyrir sjálfa sig til þess að halda heimili.  Greiðslan fyrir burðinn fer eftir því hversu mörg kíló er um að ræða og velja því sumir að bera meira til að fá hærri laun fyrir hverja ferð. Kerfið byggist upp á „loadi“ og eitt load er 30 kg, eitt og hálft load er 45 kg og tvö load eru 60 kg. Ég er nú hrædd um að við myndum sligast undan þyngdinni og tala nú ekki um þegar hæðin og brekkurnar fara að láta til sín taka.

Lukla er fjallaþorp í 2800 m hæð og þar sem flugvöllurinn fyrir Khumbudalinn er staðsettur þar er ferðamennskan áberandi í þorpinu. Þarna eru tehús en gistiheimilin ganga jafnan undir því nafni, bakarí, hamborgarastaður, pöbbar og verslanir. Vissulega er þetta í annari mynd en við þekkjum en stemningin er dásamleg. Eigendur sitja gjarnan fyrir utan verslanirnar tilbúnir til þess að selja vörurnar sínar og víða má sjá börn að leik. Hænsni, hundar og búpeningur gengur um göturnar rétt eins og við sem göngum um á tveimur jafnfljótum.

Dendi Sherpa, Pasang og Mingma.Við göngum inn á Khumbu lodge tehúsið og ég er langt frá því að vera ein á ferð. Dendi Sherpa, vinur minn og viðskiptafélagi ásamt fjölskyldu eru með í för. Konan hans Mingma og  fimm ára sonur Pasang eru að fara í sveitina, ætla að vera í nokkra daga í þropinu Chaurikharka sem er í 30 mín göngufjarlægð frá Lukla. Þetta er þorpið hennar Mingma og þar ólst hún upp ásamt fjórum bræðrum sínum. Í dag búa þar eldri frænka hennar og einn bróðir ásamt fjölskyldu.

Við göngum niður í móti og eftir ekki svo langa stund að þá komum við að nýja húsinu sem fjölskyldan er að byggja en húsið þeirra hrundi í jarðskjálfranum árið 2015. Það er fjöldi manna við störf og flest verkin unnin í höndunum. Steinarnir eru hoggnir til og raðað sama eftir kúnstarinnar reglum. Hér er að vísu að finna rafmagnsverkfæri til að vinna timbur þar sem lítil vatnsafls rafmagnsveita er á svæðinum og því boðið upp á slíkan munað. Rafmagnið er þó afskaplega takmarkað og ekki notað á sama hátt og við þekkjum.

Við setjumst inn í lítið timburhús sem notað er til bráðabirgða á meðan það er verið að reisa nýja húsið. Það er pínu lítið, smá forstofa og svo c.a. 15 fermetrar sem eru eldhús, stofa og svefnaðstaða en þrátt fyrir lítinn íburð er tekið vel á móti okkur með mikilli reisn og hlýju. Við erum svo sannarlega velkomin og boðið er upp á te á meðan spjallað er um daginn og veginn. Þetta kann ég að meta, að hverfa út fyrir straum ferðamannanna og sitja í eldhúsi hjá heimamönnum.

Okkur Dendi er ekki til setunnar boðið þar sem við erum á leiðinni í Everest leiðangur og við þurfum að ná upp í Namche Bazar fyrir kvöldið. Það eru alla jafna tvær dagleiðir en þar sem við erum vel aðlöguð eftir að hafa verið á ferðinni um Khumbudalinn í heilan mánuð með hópa af Íslendingum getum við leyft okkur að fara hratt yfir.

Dendi kveðjur fjölskylduna sína og við örkum af stað.

Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira