c

Pistlar:

23. maí 2017 kl. 13:11

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Dagbók frá Himalaja: 5. Blessun frá Lama Geishe

Lama GeisheEitt af því mikilvægasta sem ég geri er að fara í heimsókn til Lama Geishe og fá blessun. Ég virði trúarathafnir heimamanna og tek þátt ef ég á þess kost. Þetta er mér mjög mikilvægt og ég held fast í allar hefðir. Lama Geishe kemur frá Tíbet og eftir því sem ég skil best talar hann ekki Nepölsku. Það er mikil virðing borin fyrir honum. Hann er eldri maður og situr ávallt á sama stað í herberginu þar sem athöfnin fer fram. Þar á hann greinilega sitt horn og er með allt sem hann þarf í kringum sig svo hann þurfi ekki að fara langt. Á veggjunum eru myndir af Everestförum sem hafa hlotið blessun og toppað farsællega. 

Við athöfnina fær maður hálsmen með bænabók svipað og ég fékk í Namche hjá Dechen og ber ég því nú tvö um hálsin. Á bakpokanum mínum er ég með Katha slæðu sem hann blessaði í fyrstu ferðinni minni um Khumbudalinn og í hverri ferð síðan þá. Mér þykir vænt um sjalið og það fylgir mér hvert sem ég fer. Lama Geishe gefur góð heilræði sem eru jafnan þýdd af heimamanni yfir á ensku og á meðan á athöfninni stendur er boðið upp á svart te.

Eftir athöfnina göngum við rösklega til Dingboche þar sem ég ákveð að koma við í bakaríinu og fá mér Strawberry Chocolate tartar eins og alltaf, jæja nema það var ekki til í þetta skiptið svo fyrir valinu varð Lemon tartar og masala te. Það er nokkuð magnað að það skuli vera svona fín bakarí á leiðnni þar sem aðstæður eru frumstæðar en ég get fullvissað ykkur um að bitinn er sjaldnast betri en einmitt þegar búið er að vinna sér inn fyrir honum. Við Dendi höfum lagt áherslu á að borða hollt á leiðinni og láta sem minnst af slikkeríi ofan í okkur og var þetta því eina undantekningin á leiðinni upp í grunnbúðir en þangað komum við tveimur dögum seinna eftir að hafa gist í Loboche.

Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira