Hvers vegna er ég með þeim báðum?

Hvernig þú kemur fram við þig sjálfa, gefur öðrum vísbendingu …
Hvernig þú kemur fram við þig sjálfa, gefur öðrum vísbendingu um hvernig koma skal fram við þig. Sjálfsvirðing og ást skiptir miklu máli. Að standa í ljósinu gefur samfélaginu mikið. Það gefur öðrum leyfi til að koma inn í ljósið líka. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona á besta aldri af hverju hún virði sig svona lítið? 

Sæl 

Ég ætla að skrifa þér og vonandi skilur þú aðstæður mínar. Eftir að ég skildi fyrir þó nokkrum árum (þetta var erfitt samband) þá á ég svo erfitt með höfnun eða að vera í sambandi því ég treysti ekki hinu kyninu. Ég hef átt í nokkrum litlum samböndum, þar sem þau snúast aðallega um að þóknast og leika sér með viðkomandi aðila. Ég hef átt í kynferðislegu sambandi  við 2 karlmenn núna i þó nokkur ár sem eru báðir í sambandi. Við sendum myndir, skilaboð og „video chatt“ á milli okkar.  Í öðru sambandinu veit ég að ef hann myndi hætta með konunni, yrði ég aldrei sú sem hann myndi velja. Eins veit ég að ég myndi aldrei fara í samband með honum þar sem ég veit að honum er ekki treystandi. Samt þori ég ekki að hætta þessu með honum því ég vil ekki missa vinskapinn (sem er samt eiginlega enginn) bara þegar greddan er i topp hjá honum þá sendir hann á mig eða ég minni á mig með daðri eða einhverju kynferðislegu. 

Ég er svo smeyk að ef ég hætti þessu þá einangrist ég bara enn þá meira. 

Hitt sambandið er eiginlega komið á endastöð. Ég spyr mig svo oft af hverju ertu að gera þetta? Þú myndir ekki vilja að maðurinn þinn væri að gera svona með annarri konu. Síðan kemur púkinn upp í kollinn minn, af hverju ekki? Þú ert vissulega ekkert að gera neitt rangt gagnvart maka þínum því þú átt ekki maka. Síðan veit ég ef ég myndi eignast vin (þá vita þeir báðir að ég sendi ekkert á meðan ég er í því sambandi). 

Svo er ég hugsi yfir: Af hverju hleypi ég engum að. Er það vegna þess sem ég hef verið að gera með þeim? Að ég trúi því að svo muni ég sjálf lenda í því að þetta verður gert við mig?

Kveðja, rugluð kona á góðum aldri.

Elínrós Líndal er einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal er einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Eggert

Sæl mín kæra og takk fyrir að senda mér bréf. 

Það er ótrúlega gott að gefa þér ráð því þú skrifar frá hjartanu og ert einlæg. Þú sérð muninn á réttu og röngu og veist hvað er raunverulega rétt fyrir þig í þessari stöðu að gera, en þú virðist þurfa aðstoð við að komast út úr þessu, hækka virðinguna fyrir þér sjálfri og byrja að vinna í því sem mestu máli skiptir í þessu lífi fyrir þig. Sem ert þú sjálf. Það er eðlilegt að þurfa aðstoð. Við gerum svona hluti ekki ein.

Öll hegðun sem við gerum sem er stjórnlaus og brýtur okkur niður einangrar okkur. Það eru fleiri en þú í þessum sporum. Hluti þjóðarinnar getur einnig tengt við þína sögu ef þú skiptir úr karlmönnunum og setur inn hugtakið sykur eða kaka. Má ég taka dæmi?

Manneskja veit hvað er best fyrir hana að gera til að lifa heilsusamlegu lífi. Hún gerir matardagbók þar sem hún setur inn þrjár hollar máltíðir, meirihluti þess sem hún borðar er grænmeti, bæði eldað og hrátt, síðan skipuleggur hún að borða hluta máltíðarinnar prótein og fitu. Í stað þess að fara eftir matarplaninu sínu gleymir hún morgunverðinum. Borðar kolvetni og sterkju í hádeginu og dettur síðan í köku eða súkkulaði seinni hluta dagsins. Ástæðan er sú að hún setur ekki sjálfa sig í fyrsta sætið. Hún hefur ekki stjórn á mataræðinu og þarf aðstoð við að komast upp á lagið. Hún óttast fráhvörfin sem hún fer í eða kolvetnisflensuna sem mun taka einhverja 3 - 5 daga og hlustar þannig frekar á púkana á öxlinni sem segja við hana: Hver ert þú að standa í ljósinu? Hver ert þú að vera hamingjusöm og falleg? Besta útgáfan af þér? Hún kann ekki leiðina inn í ljósið og byrjar því að einangra sig meira og meira. Inni í henni sjálfri halda þessar púkaraddir stöðugt áfram að dæma hana og aðra. En það er önnur rödd sem er sterkari og tekur yfir á köflum. Þetta er kærleiksríka röddin sem hrópar. Vaknaðu stelpa! Þú átt miklu betra skilið.

Skiptu nú hugmyndinni um sykur og köku út fyrir karlmenn. Vandamálið þitt er ekkert öðruvísi heldur en hjá þeim sem eru í stjórnleysi í hvaða fíkn sem er. Þitt fix til að halda út daginn, eða fá frí frá því sem þú ert að gera stundum, er fólk. Það getur vel verið að þú sjáir þessa menn sem þitt aðal-fix í dag, en með góðri vinnu hjá vel þjálfuðum ráðgjafa muntu sjá að samband þitt við þig og aðra grundvallast af þessu. Þetta getur komið út í markaleysi, vilja þóknast, finnast þú þurfa að leggja 80% inn á móti öðrum sem leggja bara inn 20% á móti þér. Allt verður skakkt í aðstæðum sem þessum.

Til hamingju með að vera að vakna! Nú þarftu bara aðstoð við að komast út úr þessu. Blástu púkanum af öxlinni frá þér í hvert skiptið sem hann byrjar að tala. Hann er blekking. Í raun þráhyggjan sem heldur þér í mynstrinu. Blessaðu mennina sem þú hefur verið að tala við fyrir að hafa verið fixið þitt undanfarin ár og biddu kærleiksríku röddina innra með þér aðstoðar við að fá fyrirgefningu fyrir að taka þátt í að særa þá sem eru í kringum þá. Sama hvaða trúarbrögðum við beitum á þessa hugsun eru þau öll með einhvers konar lögmál um karma. Við viljum ekki að það elti þig þegar þú ert að vakna. Auðmýkt og iðrun er hluti af meðalinu þínu inn í ljósið. Það er leiðin þín að verða konan sem þú ert sköpuð til að vera. 

Þú átt raunverulega allt það besta skilið. Þú átt að vera elskuð og geta elskað til baka. Það er geta sem þér er gefin þegar þú fæðist. Ástleysi þeirra sem annast okkur og hitta okkur á lífsleiðinni ruglar hugmyndum okkar um þetta. En mundu, það hafa allir líklegast verið að gera sitt besta til þessa. Einnig þú. Stundum getum við sjálf samt verið okkar helstu óvinir.

Ef þú stendur andspænis óttanum muntu sjá hversu máttvana hann raunverulega er. Kærleikurinn sigrar allt og ljós lýsir upp myrkrið. Þú átt ekki eftir að einangrast eftir vinnuna sem þú þarft að fara í núna. Heldur þvert á móti. Þú átt eftir að finna þig sjálfa og vittu til að besta útgáfan af þér býr í þér. En þá verður ekkert hlutverk fyrir púkann á öxlinni þinni. Sumir kalla púkann egó, aðrir ill öfl. Sendu það í burtu. Púkinn hefur ekki ímyndunarafl í að sjá hversu stórkostleg kona þú getur orðið.

Að lokum. Þegar þú ert orðin besta útgáfan af þér verður tíðnin þín sem einstaklingur orðin svo há að þú mætir einungis fólki á þínu róli. Menn sem munu nálgast þig sem eru óheiðalegir við sig sjálfa (og þar af leiðandi við aðra) munu ekki tala inn í kerfið þitt. Þeir munu kannski fara inn í bænir þínar á kvöldin. Þar sem þú biður fyrir blessun fyrir þá (að þeir vakni) og búið. Það er ekkert að óttast. Þú munt finna lífsförunaut sem er heiðarlegur og flottur maður. Það er ótrúlega mikið til af flottu fólki þarna úti. 

Gangi þér vel.

Hlýjar, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál