Eiginmaðurinn færði lögheimilið á barinn

mbl.is/Thinkstock

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. 

Sæl Heiðrún. 

Þannig er mál með vexti að ég og eiginmaður minn erum skilin. Við erum samt ekki skilin á pappírum, erum ekki einu sinni skilin að borði og sæng. Við ákváðum að skilja og hann flutti út í fússi. Ef ég réði þessu værum við búin að ganga frá þessu fyrir margt löngu. Í gremju sinni hefur hann ákveðið að taka hið nýja líf með miklu trompi. Hann er sem sagt búinn að flytja lögheimili sitt á bari bæjarins með miklum útgjöldum. Ég er sparsöm og reglusöm en við erum með sameiginlegan fjárhag. Eftir að við „skildum“ hef ég greitt af íbúðinni okkar og borgað allt sem fylgir barni okkar sem er þriggja ára. Ég sé inni í heimabankanum að peningarnir fuðra upp og svo heyrði ég út undan mér að hann væri að steypa sér í skuldir. Spurt er, ber ég ekki ábyrgð á okkar fjármálum meðan við erum enn þá skráð gift?

 

Kveðja, SB.

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl SB,

Leitt að heyra að hlutirnir hafi þróast með þessum hætti. Sannarlega ekki jákvætt að maðurinn hafi valið sér þessa leið.

Hjúskaparlögin gera ráð fyrir gagnkvæmri framfærsluskyldu hjóna og bera hjón sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar, þar með talið barnsins. Eftir skilnað að borði og sæng helst þessi gagnkvæma framfærsluskylda ykkar en við lögskilnað fellur hún niður.

Á báðum hjóna hvílir lögboðin skylda til þess að skerða ekki sameiginlegar eignir, til dæmis peninga, með ótilhlýðilegum hætti. Þú segist halda að hann hafi steypt sér í skuldir eftir samvistarslitin. Þrátt fyrir sameiginlegan fjárhag ykkar á maðurinn ekki að geta skuldbundið þig með neinum hætti nema að fyrir liggi samþykki þitt um að þú takir ábyrgð á skuldinni eða þá beinlínis að lög kveði á um skyldu þína, til dæmis bera hjón ábyrgð á skattskuldum hvort annars. Ef þér finnst sem eiginmaður þinn sé að verulega leyti að rýra eignir ykkar getur þú, þrátt fyrir að hjúskapnum sé ekki lokið, krafist opinberra skipta á milli þín og hans til að slíta fjárfélagi ykkar. Þessari reglu hjúskaparlaga er sjaldan beitt en úrræðið er þó til staðar ef óráðsía hans með fjármál verður þannig að þú teljir þig og fjölskyldu ykkar bera verulegan skaða af.

Þú segir að þið hafið ákveðið að skilja. Ég lít þá þannig á að fyrir liggi sameiginleg ákvörðun um skilnað. Ykkur ætti því ekkert að vera að vanbúnaði með að leita til sýslumanns um leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Ef það er hins vegar þannig að hann vill ekki skilja getur þú samt sem áður leitað til sýslumanns um leyfi til skilnaðar að borði og sæng en hjúskaparlögin gera ráð fyrir því að það hjóna sem vill skilja eigi hreinlega rétt á því.

Fáir þú leyfi til skilnaðar að borði og sæng getur þú fengið leyfi til lögskilnaðar að liðnum sex mánuðum, séuð þið sammála um að leita lögskilnaðar, annars að liðnu einu ári frá útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng. Ef sú óformlega leið er farin að slíta einungis samvistir og fá ekki leyfi til skilnaðar að borði og sæng þarftu almennt séð að bíða í tvö ár til þess að fá lögskilnað frá manni þínum.

Hvaða leið sem þú ákveður að fara mæli ég með því að þú drífir þig til sýslumanns til að koma ferlinu í gang.

Kveðja, 

Heiðrún Björk Guðjónsdóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál