„Var svo vitlaust að halda að ég nægði honum“

Það er hægt að missa sig í áhorf á klámi …
Það er hægt að missa sig í áhorf á klámi eins og flest öðru sem þykir hugbreytandi í þessum heimi. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem upplifir klámnotkun eiginmannsins sem andlegt framhjáhald.

Sæl

Ég komst að því nýverið að maðurinn minn horfir af og til á klám og hefur gert svo árum skiptir. Ég var greinilega svo vitlaus að halda að ég nægði honum. Mér finnst það mjög óþægileg og særandi tilhugsun að hann skuli finna spennu í því að horfa á aðrar konur í kynlífsathöfnum. Ég bað hann að hætta og sagði honum að ég gæti ekki sætt mig við þetta, hann lofaði því en samt kom ég að honum horfandi á klám í tölvunni. Ég spurði hann hvort hann væri háður þessu en hann neitar því, lofar að stoppa en því miður hef ég komið að honum eftir þessi loforð. Ég hef verið að hugsa mikið um hvað ég eigi að gera og kemst að þeirri niðurstöðu að ég get ekki sætt mig við ástandið og upplifi þetta sem andlegt framhjáhald. Einnig hefur traust mitt til hans hrunið, hvað veit ég hvað hann gerir til dæmis erlendis í hans óteljandi viðskiptaferðum. Eru tilfinningar mínar óeðlilegar, er óeðlilegt að gera þá kröfu að hann láti af þessu?

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Þetta bréf minnir mig á konu sem ég aðstoðaði einu sinni varðandi drykkju eiginmannsins. Maðurinn var farinn að drekka daglega, fór út á ótrúlegustu tímum og reifst við hana í hvert skipti sem hún benti honum á að hann væri kominn í nánara samband við flöskuna en hana sjálfa. Þessi kona vildi alls ekki kalla eiginmann sinn alkóhólista því hann viðurkenndi það ekki sjálfur. Hún þráði ekkert heitara en að maðurinn veldi hana frekar en flöskuna. 

Af öllum þeim mönnum sem þessi kona hefði getað valið sér valdi hún að vera með alkóhólista þar til hún skildi ástæðuna fyrir því. Hún komst að því eftir nokkur ár í djúpri vinnu með sjálfa sig að hún gat ekki stjórnað hegðun eiginmannsins. Hún sótti fundi þar sem alkóhólistar töluðu sem höfðu misst frá sér fjölskylduna vegna drykkju og skildi þá betur og betur að vandi hennar var ekki úr lausu lofti gripinn.

Ef klámnotkun eiginmanns þíns hefur þau áhrif að þér líður illa yfir því þá þarftu ekki samþykki frá öðru fólki á þeim tilfinningum þínum.

Hljóð og mynd fara aldrei saman hjá fólki sem er í stjórnleysi, svo taktu fókusinn af því sem maðurinn þinn segir og settu fókusinn frekar á það sem hann gerir.

Ef maðurinn þinn velur frekar að horfa á ókunnugt fólk í tölvunni sinni en að upplifa nánd og ást með þér þá held ég að það hafi ekkert með þig að gera frekar en manninn sem valdi flöskuna fram yfir konuna sína. 

Sumar konur spá ekkert í hvað mennirnir þeirra eru að gera í tölvunni og sumir menn hafa ekki áhuga á neinu öðru en konunum sínum.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þú sért með besta eintakinu af manni sem þú gætir fundið þér?

Af því að þú nefnir orðið traust og að hegðun hans hefur áhrif á það þá skil ég það mjög vel. 

Ég hef hingað til ekki hitt einn einasta karlmann sem er stoltur af klámáhorfi sínu.

Kannski viljið þið finna ykkur góðan ráðgjafa eða sálfræðing að vinna með ykkur í þessum hluta sambandsins? Ég held það sé samt mjög mikilvægt að finna fagaðila sem hámhorfir ekki á svona efni sjálfur, svo vandaðu valið þegar kemur að ráðgjöf á þessu sviði. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is