„Maðurinn minn kaupir kynlífsþjónustu hjá konum götunnar“

Það er margt óvænt og óþægilegt sem getur komið upp …
Það er margt óvænt og óþægilegt sem getur komið upp á í nánum samböndum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem grunar að maki hennar sé á kafi í vændiskonum. 

Sæl Elínrós.

Líf mitt er að taka breytingum í hræðilega átt þessa dagana. Þegar ég kynntist manninum mínum fyrir um átta árum trítaði hann mig eins og drottningu. Þegar við vorum að kynnast bar hann mig á höndum sér. Bauð mér á fínustu staðina, færði mér kaffi í rúmið, gaf mér rándýrar gjafir sem hann hafði fyrir að velja þegar hann var í viðskiptaferðum erlendis. Smám saman hefur fjarað undan sambandinu. Við eigum unga dóttur og þegar ég var ólétt fann ég hvernig hann missti áhugann á mér. Þegar ég nefni það við hann sagði hann að það væri vitleysa. Það væri bara svo mikið að gera hjá honum. Markaðurinn væri í ólgusjó.  Til þess að gera langa sögu stutta þá hvíslaði vinkona mín að mér fyrir um tveimur árum að hún hefði heyrt að hann væri á kafi í vændiskonum. Ég gekk á hann og hann sagði að vinkona mín væri geðveik og eiginlega ég líka. Á dögunum mætti maður í vinnunni minni honum á gangi í bænum þar sem hann var með konu í kraftgalla. Þessi vinnufélagi minn fullyrðir að maðurinn minn sé að kaupa kynlífsþjónustu af konum götunnar. Hann neitar alltaf öllu og tíundaði mína bresti til að gera lítið úr mér. Ég eigi í raun bara að vera lánsöm að einhver vilji vera með mér. Hvað myndir þú gera? Ég elska hann mjög mikið og skil ekki þessa bresti í honum. Svo langar mig ekki að flytja úr húsinu okkar sem er stórt og allt hannað að innan. Ég gæti aldrei haldið sama lifistandard ef við myndum hætta saman. Við erum ekki gift.

Kveðja, J

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl J og takk fyrir spurninguna. 

Það eru fleiri en þig grunar í svipuðum sporum og þú og vil ég hrósa þér fyrir hugrekkið að skrifa bréfið. 

Ég var eitt sinn spurð út í það hvernig væri að sérhæfa sig í málaflokk er varðar ástar- og kynlífsfíkn, hvort það væri ekki sexý málaflokkur og mitt svar er að þetta er andstæðan við sexý; rétt eins og að kaupa sér aðgang að líkama kvenna í neyð (e survival sex work) líkt og lesa má í bréfinu þínu, er andstæðan við ást og kærleik. 

Að þessu sögðu langar mig að segja þér að það eru til góðar leiðir út úr stjórnleysinu sem þú ert að upplifa þig í núna sem byggðar eru á rannsóknum og gagnreyndum aðferðum. 

Ég hef fylgt konum eftir í nokkur ár, aðstoðað þær við að byggja upp lífið sitt aftur, verða fjárhagslega sjálfstæðar og læra að elska sig meira en mennina sem þær hafa valið sér í gegnum tíðina. Það hefur gengið mjög vel og mín reynsla af þessum konum er að þær skara vanalega fram úr á öllum sviðum lífsins. Þær fara í flotta vinnu með sjálfa sig, setja heilbrigð mörk og stundum koma eiginmennirnir líka í bata. Ef ekki þá fara þær út úr sambandinu þegar þær eru tilbúnar í það. En þá ekki sem fórnarlömb heldur sem sterkar konur sem nenna ekki lengur að byggja upp líf sitt með veikum mönnum. 

En þetta tekur tíma og það er að mínu mati ekki til ein einföld lausn út úr flóknum vanda.

Það sem er flókið við þína stöðu er að vakna á morgnana og efast um eigið virði og upplifun. Spurningin er þetta ég eða er þetta hann? Er dæmigerð fyrir konu í þinni stöðu. Þú gætir verið að trúa því sem hann er að segja við þig og hafir þessa tilfinningu innra með þér að enginn annar en hann geti lagað hana.  

Það sem ég mæli með að þú gerir til að byrja með er að setja heilbrigð mörk þegar kemur að heilsufarslegu öryggi þínu og leitir til kvensjúkdómalæknis þar sem þú lætur athuga stöðuna á þér. Þegar þú hefur gert það þarftu að gera ráðstafanir tengt því að halda mörkum þínum á þessu sviði. Að stjórnleysi hans á þessu sviði hafi ekki áhrif á heilsufarið þitt. 

Þér er velkomið að panta tíma hjá mér og ég get lagt upp fyrir þig plan sem er ágætt að fara eftir næstu þrjá mánuði. 

Ég mæli ekki með því að konur í þinni stöðu fari út af heimilinu með börnin sín í óvissuna.

Það sem ég mæli með að gera er að konur fari í langtíma samtalsmeðferð, setji heilbrigð mörk og taki samtal undir handleiðslu, með fagaðila um hvað er í gangi. Ég myndi undirbúa þig fyrir slíkt samtal og taka það með þér og manninum þínum. Það er flókið fyrir einstaklinga í virkri fíkn að tala sig út úr samtali með fagaðila sem er þjálfaður í að sjá undir yfirborðið í svona málum.  

Það sem karlmenn (og konur) gera sem eru í stjórnleysi þegar kemur að ást og/eða kynlífi, er að þeir reyna að halda þessum stjórnleysis hluta lífsins til hliðar við lífið sem þeir (þær) eiga með fjölskyldunni sinni. 

Það sem er mikilvægast fyrir einstaklinga að átta sig á þegar aðstæðurnar eru á þróast á þennan hátt; er að það sem makinn er að gera hefur ekkert með þig að gera. Ástæðurnar má vanalega rekja til æskunnar, þar sem barnið var vanrækt eða beitt ofbeldi; það myndast tómleikatilfinning innra með henni og spenna sem einstaklingurinn finnur farveg að losa á þennan hátt. Þetta sýna rannsóknir og reynsla mín í faginu. 

Ég hef talað við karlmenn sem bera mikla skömm, ótta og ógeð yfir sjálfum sér að vera komnir á þennan stað í fíkninni sinni. Að vera að kaupa þjónustu af konum í kynlífsvinnu sem margar hverjar eru að gera það í algjörri neyð til að lifa af í lífinu. 

Stjórnleysi á þessu sviði sem þú lýsir er hættulegt fyrir alla aðila að mínu mati. Fyrir karlinn sem kaupir kynlífsvinnuna, konuna sem selur þjónustuna og fjölskyldurnar í kringum þessa einstaklingana. Kynsjúkdómar, óheiðarleiki, ofbeldi, kúgun, ásökun og meðvirkni veikir ónæmiskerfið og hefur áhrif á taugakerfið. Alvarlegir sjúkdómar fara að banka upp á í kjölfarið. Að sama skapi er bati á þessu sviði þannig að fólk eflist í lífinu, lærir að setja heilbrigð mörk, lærir jákvæða hegðun sem styður við gott líf og kemst út úr þessu ástandi sem er andstæðan við gott líf. 

Gangi þér alltaf sem best og mundu að þú og barnið þitt er dýrmætt og þið eigið að vera örugg; bæði þegar kemur að fjárhagslegu öryggi og þegar kemur að líkamlegri- og andlegri heilsu. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál