Hvað segir fúkyrðaflaumurinn um þig?

Ljósmynd/Samsett

Kvenfataverslun nokkur birti mynd á félagsmiðlinum Facebook á dögunum. Myndin var af fatnaði úr nýrri sendingu sem hafði borist í verslunina. Um er að ræða beige-litaðar buxur og hvítan jakka. Buxurnar eru með svolítið öðru sniði sem hefur verið móðins upp á síðkastið. Með síðu klofi en slíkar buxur voru oft kallaðar bleyjubuxur þegar þær þóttu síðast smart í kringum 1988. Það getur vel verið að fólki hafi fundist þessar buxur alveg hryllilega ljótar á sínum tíma og kannski hringdi einhver inn í útvarpsþáttinn Þjóðarsálina til að lýsa yfir vanþóknun sinni á buxunum. Það getur líka verið að línurnar á Útvarpi Sögu hafi logað í vikunni þegar buxurnar höluðu inn sína 15 mínútna frægð. Það sem kom hinsvegar á óvart er hvað íslenskar konur geta verið neikvæðar og orðljótar en hér fyrir neðan má sjá brot af ummælunum:

– Þetta er ógeðslegt.

– Forljótar buxur.

– Almáttugur!!! Eru þetta ekki einhver hrapalleg mistök hver fer í svona föt? Gott að þurfa ekki að fara og skoða það nýjasta.

– Já það mundi einhver segja að hún væri með kúkinn í buxunum.

– Maður hefði ekki látið sjá sig í fjósinu í þessu dressi.

Þvílík hörmung.

– Minnir á barn með smekkfulla bleyju.

Í dag er það ítrekað reglulega við foreldra landsins að þeir hugi að skjátíma barnanna sinna því of mikið internet fer víst ekki vel með ungmenni. Miðað við ummælin hjá mömmum, ömmum og langömmum landsins þá þyrfti kannski líka að setja reglur um skjátíma hjá eldri netnotendum landsins. Það að sjá sig knúna til þess að ranta yfir nýrri sendingu af kvenfatabuxum vekur spurningar. Hvers vegna þurfum við að segja umhverfinu að eitthvað sé ljótt og asnalegt? Hvað hrjáir fólk sem lætur svona? Gerðist eitthvað fyrr á lífsleiðinni sem framkallar gremju út í síðbuxur úr 100% bómull? Varð þessi hópur fyrir ofbeldi í æsku? Ef fólk vinnur ekki úr áföllum verður hegðun á fullorðinsaldri þá í líkingu við þessa sem hér er nefnd? Hafa þessar konur kannski aldrei myndað náin tengsl við annað fólk? Eru þær einmana? Hafa þær aldrei verið elskaðar? Eða leiðist þeim svona mikið að þær fá lífsfyllingu út úr því að segja eitthvað ljótt og leiðinlegt á Facebook?

Líkaminn geymir allt var að koma út í íslenskri þýðingu hjá Forlaginu. Hún er eftir geðlækninn Bessel Van Der Kolk sem starfar í Boston. Hann hefur áratuga reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á áfallameðferð. Bókin hefur oft verið kölluð Áfallabiblían því í henni er farið yfir öll helstu atriðin í áfallafræðunum og hvernig hægt er að vinna úr þeim. Hvernig er best að lækna huga, heila og líkama. Þar kemur fram að áföll sem fólk verður fyrir á lífsleiðinni smiti út í allt í umhverfinu. Áföll foreldra bitna á börnum og áföll ömmu og afa koma niður á seinni kynslóðum. Það kemur líka skýrt fram að áföll hafi ekki bara áhrif á andlega líðan, skynjun og félagsfærni heldur líka heilsufarsafleiðingar. Það að fólk missi heilsuna þegar það verður fyrir áfalli er vont fyrir öll samfélög.

Höfundur bókarinnar talar um hermenn sem hann meðhöndlaði fyrir um 40 árum. Þessir menn börðust í Víetnamstríðinu og upplifðu svo ljóta hluti að þeir áttu erfitt með að draga andann og vera til. Þeir voru ófærir um að elska eiginkonur og börn og einhverjir gátu ekki sofið. Því ef þeir sofnuðu fengu þeir svo ískyggilegar martraðir að þeir vildu helst vaka. Eini friðurinn sem þeir fundu var þegar þeir voru ofurölvi eða keyrðu á 200 kílómetra hraða á mótorhjóli.

Páskarnir eru á næsta leiti en sú kristilega hátíð er tilvalin til margra góðra hluta annarra en að borða lambakjöt og páskaegg. Ef þú vilt gera eitthvað til þess að efla þig og styrkja þá gæti verið sniðugt að koma sér fyrir uppi í sófa og lesa. Líkaminn geymir allt gæti fengið þig til þess að hugsa hlutina öðruvísi og ef gremjan sem býr innra með þér myndi minnka um 5% þá er sá tími sem varið er í bóklestur algerlega þess virði.

Gleðilega páska!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál