Býðst spennandi starf en veltir fyrir sér þessum 5%

Lachlan Dempsey/Unsplash

Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir því fyrir sér hvort það sé gott að fá 5% hlut í fyrirtæki sem honum býðst starf í. 

Góðan dag. 

Mér hefur boðist mjög spennandi starf í nýju fyrirtæki. Mér býðst ágætis laun en hluti af því sem er verið að bjóða mér er 5% hlutur í fyrirtækinu og greiðist hluturinn með framtíðararði. Fyrirtækið er með samninga við sína viðskiptavini og hefur skilaði arði síðustu ár. Þetta hljómar allt vel en ég er ekki með nógu góða þekkingu á svona fyrirkomulagi né hvað þetta þýðir fyrir mig skattalega. Er þetta algeng leið og þekkt þegar kemur að kjörum? Hvernig get ég vitað hvort þetta er raunverulega tekjuauki fyrir mig?

Er þetta skattalega hagstæðara?

Með fyrirfram þökk,

G

Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll Gauti,

Það er ekki óalgengt, sér í lagi þegar um lykilstarfsmenn er að ræða, að samið sé um hlunnindi eða fríðindi af ýmsu tagi við upphaf ráðningartíma. Ég skil lýsingu þína þannig að þú fáir umræddan 5% hlut í fyrirtækinu afhentan við undirritun ráðningarsamnings en ekki sé um kauprétt á hlutum í fyrirtækinu ræða. Sömuleiðis virðist mér ljóst að kaupverð hlutarins skuli greiðast með væntri hlutdeild þinni í framtíðararði félagsins og því um nokkurs konar seljendalán að ræða.

Miðað við framangreint þá eru skattalegar afleiðingar þessara viðskipta þær að seljandi hlutarins, félagið sjálft, greiðir skatt við söluna miðað við upplausnarvirði hlutarins á söludegi. Þú greiðir svo fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslum í samræmi við eignarhlut þinn í félaginu.

Erfitt er að segja á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga sem liggja fyrir, þ.m.t. um kaupverð og aðra skilmála samningsins, hvort að þetta sé raunverulegur tekjuauki fyrir þig. Svarið við þeirri spurningu ræðst m.a. af stöðu félagsins í dag og ekki síður af því hvernig fyrirtækinu mun vegna í framtíðinni. Lykilatriði er hins vegar að greina hvaða áhætta kann að vera fólgin í viðskiptunum. Ef hafið er yfir allan vafa að aðeins skuli greiða fyrir hlutinn með mögulegum framtíðararðgreiðslum fyrirtækisins, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, án frekari fyrirvara, t.d. um persónulega ábyrgð á efndum, lengd endurgreiðslutímabils o.þ.h., verður ekki annað séð en að fjárhagsleg áhætta sé hverfandi og að um raunverulegan virðisauka gæti verið að ræða fyrir þig. Þú ert þá að eignast hlut í fyrirtæki sem þú greiðir eingöngu fyrir með mögulegum arðgreiðslum framtíðarinnar í samræmi við hlutafjáreign þína í félaginu. Framtíðin mun svo leiða í ljós hvert verðmæti hlutarins kann að verða en vísbendingar um núvirði hlutarins er t.a.m. unnt að finna með greiningu á helstu kennitölum í síðasta ársreikningi félagsins.

Með góðri kveðju,

Einar Hugi Bjarnason hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Einari eða öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál