„Hafði ekki aldur til að vera inni á börunum“

Eivör byrjar tónleikaferðalag sitt í Silfurbergi í Hörpu þann 15. …
Eivör byrjar tónleikaferðalag sitt í Silfurbergi í Hörpu þann 15. september. Ljósmynd/Sigga Ella

Færeyska tónlistarkonan Eivör Pálsdóttir var ung að árum þegar meðfæddir tónlistarhæfileikar hennar komu í ljós og vissi hún snemma hvert hugur hennar stefndi: Hún ætlaði sér að verða tónlistarkona. 

Eivör er þekkt fyrir einstaka söngrödd og sérstæðan hljóm. Hún hefur einblínt á tónlistarsköpun frá blautu barnsbeini og heillað áhugafólk um tónlist, hér á landi og annars staðar, allt frá því hún kom fyrst fram á sjónarsviðið á táningsaldri. Þessi magnaða tónlistarkona hefur komið víða við á tónlistarferli sínum sem spannar ríflega 20 ár. 

Tíunda stúdíóplata Eivarar, Enn, kemur út um miðjan júní. Þetta verður einstök plata og ólík því sem hún hefur áður gert. Þar sækir hún innblástur í hinar norrænu rætur sínar og hin eilífu átök sem eiga sér stað í heiminum. 

Eivör er þekkt fyrir einstaka söngrödd og sérstæðan hljóm.
Eivör er þekkt fyrir einstaka söngrödd og sérstæðan hljóm. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var draumur sem varð að veruleika“

Eivör ólst upp á tónelsku heimili í Götu, smáþorpi á Austurey í Færeyjum, og byrjaði ung að syngja og koma fram.

„Tónlistin varð snemma allsráðandi í lífi mínu,“ segir Eivör. „Foreldrar mínir eru báðir mjög listrænir og lögðu mikið upp úr menningarlegu uppeldi. Móðir mín nýtur þess að syngja og faðir minn var mikill kvæðamaður. Þau kenndu mér margt og hvöttu mig til að syngja og semja lög og texta. Ég á þeim svo mikið að þakka enda sýndu þau okkur systkinunum mikilvægi þess að rækta ástríðuna.

Ég var mjög músíkalskt barn, algjör sveimhugi, og eyddi öllum tíma mínum utandyra þar sem ég fékk mikinn innblástur frá náttúrunni sem hefur lengi spilað stóra rullu í lögunum mínum.“

Eivör klædd færeyska þjóðbúningnum sem ung stúlka.
Eivör klædd færeyska þjóðbúningnum sem ung stúlka. Ljósmynd/Aðsend

Eivör einsetti sér mjög ung að gera tónlist að ævistarfi sínu. „Þetta var draumur sem varð að veruleika,“ segir hún og rifjar upp fyrstu alvöru skref sín í tónlistarlífinu, sem meðlimur í svokölluðum bílskúrsböndum. 

„Ég var að ég held 13 ára gömul þegar ég byrjaði í fyrsta bandinu. Strákarnir voru allir mun eldri, örugglega tíu árum eldri en ég. Á þeim tíma var ég eina stelpan í Götu sem var á fullu í tónlist, að syngja og semja, og kom því fátt annað til greina en að fá mig í bandið.

Við spiluðum hér og þar í Færeyjum, á börum og fleiri stöðum, og það fyndna var að mamma þurfti oftar en ekki að fylgja mér á tónleika sveitarinnar þar sem ég hafði ekki aldur til að vera inni á börunum og skemmtistöðunum. Ég fékk mikinn stuðning frá henni og líklega hefðu fáir leikið þetta eftir henni - að þræða hvern barinn af öðrum með barninu sínu. Mamma skildi að þetta skipti mig máli. Hún er og hefur ávallt verið minn dyggasti stuðningsaðili.“

Eivör ásamt móður sinni.
Eivör ásamt móður sinni. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Eivör var 15 ára gömul átti hún orðið dágóðan bunka af frumsömdum lögum og ákvað þá, þrátt fyrir ungan aldur, að koma þeim á plötu. Þetta var alfarið hennar hugmynd. Peningana, sem hún vann sér inn í fiskvinnslunni í Götu að sumarlagi, fóru í útgáfuna, stúdíóið og allt sem þessu fylgdi. 

„Platan var innblásin af færeyskri þjóðlagatónlist,“ segir Eivör. „Þetta var blanda af eigin lögum og svo var ég líka með nokkur gömul, færeysk kvæði. Langafabróðir minn, mikill orðamaður, söng með mér inn á plötuna, það hafði gríðarlega mikla þýðingu.“

Eivör við upptökur á fyrstu plötunni sinni.
Eivör við upptökur á fyrstu plötunni sinni. Ljósmynd/Aðsend

Það er þægilegt að geta sest niður og skapað“

Eftir heilmikið flakk á milli landa er Eivör nú aftur kominn til Færeyja og býr þar ásamt sambýlismanni sínum, Trónda Bogasyni. „Ég flutti heim fyrir tveimur árum, keypti mér hér hús í sveit og er þar með upptökuver, fyrir nú utan að búa þar. Það er þægilegt að geta sest niður og skapað tónlist í rólegheitum á eigin heimavelli. Sumt á nýju plötunni er meðal annars tekið upp þar.“

Eivör ásamt sambýlismanni sínum Trónda Bogasyni.
Eivör ásamt sambýlismanni sínum Trónda Bogasyni. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir að hafa allt til alls á heimili sínu á Velbastað í Færeyjum er Eivör sífellt á tónleikaferðalögum út um allan heim. Þá kemur hún stundum til Íslands, enda var hún búsett hér á landi í fimm ár, frá 17 ára aldri til 22, og lagði þá stund á tónlistarnám, svo sem í Söngskóla Reykjavíkur. Það má því segja að Íslendingar eigi svolítið í henni og alltaf er henni vel tekið hér og margir sem halda að hún sé Íslendingur. 

„Ég var einmitt í viðtali í Belgíu nýverið og blaðamaðurinn byrjaði viðtalið á því að segja: „Welcome Eivör from Iceland.“ Þarna hafði greinilega átt sér stað heilmikil rannsóknarblaðamennska! Ég hafði bara gaman að þessu og leiðrétti þetta auðvitað, en mér finnst ég samt alltaf vera pínu Íslendingur. Landið og þjóðin mun alltaf eiga sérstakan stað í mínu hjarta.“

Ástin dró hana til Danmerkur

Eins og fyrr segir bjó Eivör um tíma á Íslandi og sótti þá söngtíma í Söngskólanum í Reykjavík. „Mig langaði til að læra klassískan söng og auka þannnig við raddsviðið mitt. Ég fór til söngkennara sem heitir Ólöf Kolbrún Harðardóttir og var nemandi hennar í fimm ár. Henni á ég mikið að þakka. 

Ég ætlaði bara að vera á Íslandi í eitt ár, en mér leið svo vel þar að úr teygðist, eins og sjá má. Mér fannst ég eiginlega vera heima í Færeyjum þegar ég var á Íslandi, fólkið og náttúran voru svipuð, eini munurinn fannst mér vera sá, að göturnar í Reykjavík voru breiðari en í sjálfri Götu.“

Þegar Eivör var 22 ára flutti hún frá Íslandi til Danmerkur. Ástin dró hana þangað og einnig tónlistin. Hún vildi kynna tónlistina sína fyrir fleirum og sá þarna tækifæri til þess. Laga- og textasmíð hennar féll strax í kramið þar og tróð hún til að mynda upp með Danish Radio Big Band, sem lék svo undir á tveimur platna hennar. Enginn smááfangi það!

„Þetta er eins og líf sjómannsins“

En þá að nýju plötunni.

„Þetta er eiginlega þemaplata,“ útskýrir Eivör þegar hún er spurð um efnið á henni. „Platan fjallar um heiminn eins og hann er í dag. Undirtónninn á henni er drungulegur og bjartsýnn. Við fáum daglega fréttir af stríðsátökum, voðaverkum og náttúruhamförum, sem gera okkur sorgmædd, en þá þurfum við, á þessum erfiðu tímum, að finna ljósið og vonarneistann. Um það snýst platan. Þetta er kjarni hennar.“

Í stúdíóinu.
Í stúdíóinu. Ljósmynd/Aðsend

Hvenær hófst vinnan við plötuna?

„Ég byrjaði að vinna í plötunni fyrir tæplega þremur árum síðan, þá samdi ég fyrstu lögin. Svo komu hin í kjölfarið. Þetta er fjölbreyttasta platan mín, hún fer í ræturnar mínar, er öll á færeysku. Lögin eru tilfinningaþrungin, björt og tilraunakennd. Ef ég ætti að lýsa plötunni í fáum orðum, myndi ég gera það á ensku: Nordic, cinematic, electronic and drum heavy space opera.“

Platan er væntanleg 14. júní og Eivör fylgir henni eftir með tónleikaferðalagi sem hefst hér á landi, nefnilega í Silfurbergi í Hörpu, í september. Þetta verður „stærsta“ árið hennar hingað til, hún fer heimshorna á milli, kynnir þar plötuna sína, bæði á eigin tónleikum og tónlistarhátíðum. 

„Ég verð heima nokkra daga í júlí og eins í ágúst,“ segir söngkonan víðförla. „Þetta er eins og líf sjómannsins, ég kem í höfn og held svo fljótlega aftur út á miðin.“

Eivör hélt nýverið tónleika í Red Rock amphitheater í Colorado …
Eivör hélt nýverið tónleika í Red Rock amphitheater í Colorado og Royal Albert Hall í Lundúnum. Ljósmynd/Aðsend

„Svo gleymdi ég að sjálfsögðu servíettunum“

Eivör er mikill húmoristi og því er við hæfi að enda þetta spjall á einni stuttri sögu af henni - þegar allt fór úrskeiðis á tónleikum. 

„Ég hef lent í ýmsu,“ segir Eivör og hlær. „Það er eitt atvik sem fær mig alltaf til að hlæja. Það gerðist á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar, fyrir troðfullu húsi. Þá var ég klædd í rosalega fínan kjól. Þetta var gullkjóll og ég setti rauðar servíettur í handarkrikana til að koma í veg fyrir að það færu svitablettir í hann. Svo gleymdi ég að sjálfsögðu servíettunum, fór á sviðið og söng og dansaði, eins og enginn væri morgundagurinn. Kórinn á bak við mig sá bara servíettu-vængi.

Ég fattaði þetta í miðjum flutningi, hætti að hreyfa handleggina og stóð alveg grafkyrr og lauk atriðinu þannig. Hera Björk og Margrét Eir voru í hláturskasti og gátu ekki sungið með mér. Þetta var ógleymanlegt, hressa og fjöruga söngkonan, sem ætlaði að svífa um sviðið, breyttist allt í einu í spýtukall, innan um „fljúgandi“ servíettur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál